21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

1. mál, fjárlög 1965

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Meðal till. fjvn. á þskj. 201 er till. um 1 millj. kr. fjárveitingu til amtsbókasafnsins á Akureyri í því skyni, að þar verði unnt að varðveita bókasafn Davíðs Stefánssonar skálds í sérstökum salarkynnum, ef Akureyrarbær ákveður að kaupa safnið. Þessi till. er flutt í samráði við ríkisstj. Tilefni hennar er það, að Akureyrarbær hefur tjáð ríkisstj., að hann hafi í hyggju að kaupa bókasafn Davíðs Stefánssonar skálds og varðveita það í sérstökum salarkynnum í amtsbókasafninu á Akureyri. Ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti viljað stuðla að því, að hið gagnmerka safn Davíðs skálds Stefánssonar sundrist ekki, heldur komist í opinbera eigu, og er till. flutt fyrir þær sakir.

Eins og kunnugt er, hefur nú hins vegar komið upp nokkur hreyfing á Akureyri og norðanlands um það að kaupa einnig hús skáldsins og þá væntanlega að gefa það Akureyrarbæ eða varðveita það á vegum sérstakra samtaka. Í tilefni af þessu hefur þeirri fyrirspurn verið beint til ríkisstj., hvort þessi 1 millj. kr. fjárveiting, ef samþykkt yrði, mundi ekki koma til útborgunar, ef þessi yrði raunin á, vegna þess að í till. segir: „Til amtsbókasafnsins á Akureyri í því skyni, að þar verði unnt að varðveita bókasafn Davíðs Stefánssonar.“ Að gefnu þessu tilefni vildi ég láta þess getið, að ef það verður niðurstaðan hjá bæjarstjórn Akureyrar að taka einnig við eða styrkja með einhverjum hætti kaup á húsi skáldsins og ef það verður vilji bæjarstjórnar Akureyrar, að bókasafnið verði þá geymt þar, lítur ríkisstj. þannig á eða vill lita þannig á, að hún hafi einnig heimild til að greiða þessa 1 millj. kr. til að styrkja það málefni.