21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

1. mál, fjárlög 1965

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Þegar vegáætlun var í fyrsta skipti afgreidd hér á síðasta þingi, lýsti ég þeirri skoðun minni, að þrátt fyrir mjög hækkuð framlög til vega- og brúargerða á Vestfjörðum færi því víðs fjarri, að samgönguvandamál Vestfirðinga á landi yrðu leyst með þeim fjárveitingum, sem vænta mætti á vegáætlun alveg á næstunni. Svo stórbrotin verkefni biðu úrlausnar í vegamálum. Vestfjarða. Til þess að skapa vegasamband innbyrðis milli byggðarlaga og við aðra landshluta þyrfti að fara enn nýjar leiðir.

Við Vestfjarðaþingmenn, sem styðjum ríkisstj., höfum rætt þessi mál við hæstv. samgmrh. og hæstv. fjmrh. Höfum við fengið fyrirheit þeirra um aukinn stuðning við samgöngubsetur á landi á Vestfjörðum með svipuðum hætti og nokkur önnur byggðarlög hafa hlotið nokkur undanfarin ár. Munu þær ráðstafanir koma til afgreiðslu í sambandi við samningu nýrrar vegáætlunar snemma á næsta ári. Ég mun því ekki gera þessi mál frekar að umræðuefni í sambandi við fjárlagaafgreiðslu nú, en ég teldi vel farið, að hæstv. samgmrh. léti í ljós afstöðu sína til þessara mála.

Í sambandi við brtt. frá hv. 1. þm. Vestf. o. fl. á þskj. 208 um 12 millj. kr. greiðsluheimild ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir fólksflótta og eyðingu byggða á Vestfjörðum vil ég taka fram, að hæstv. ríkisstj. hefur falið ákveðnum aðilum að gera áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir á Vestfjörðum í samræmi við þáltill., sem þeir Gísli Jónsson og Kjartan J. Jóhannsson fluttu hér á hv. Alþingi fyrir tæpum 2 árum. Álitsgerð og till. um þetta þýðingarmikla hagsmunamál Vestfirðinga munu verða tilbúnar, að því er ég bezt veit, síðar á þessu þingi, og er það von okkar, að hafizt verði þá þegar handa um framkvæmd á þeim.

Loks vil ég geta þess í sambandi við brtt. á þskj. 208 um hækkun ríkisábyrgðaheimilda vegna ráðstafana til atvinnuaukningar í einstökum landshlutum, að mér er kunnugt um, að góður skilningur ríkir á því hjá hæstv. ríkisstj., að endurskoða þurfi lögin um atvinnubótasjóð með það fyrir augum að efla starfsemi hans að miklum mun. Vænti ég, að ráðstafanir verði gerðar á yfirstandandi Alþingi í þessa átt, enda ber til þess brýna nauðsyn. Sjóðurinn er nú engan veginn fær um að rækja hlutverk sitt, enda þótt hann hafi orðið mörgum byggðarlögum að verulegu gagni á undanförnum árum.