21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

1. mál, fjárlög 1965

Eysteinn jónsson:

Herra forseti. Við fjórir þm. af Austurlandi eigum 3 till. saman. Tvær voru fluttar við 2. umr. og mælt fyrir þeim þá. Leyfi ég mér að vísa til þess, sem þá var sagt um þær, en það er till. um að veita meira fé til hafnarmannvirkja á Bakkafirði en í frv. er gert ráð fyrir enn sem komið er og svo stór og merk till. um að heimila ríkisstj. að taka lán í vegagerðir á Austurlandi. En þriðja till., sem hér er flutt, hefur ekki komið fram áður og ekki verið talað fyrir henni. Hún er um að veita meira fé til viðbyggingar húsmæðraskólans á Hallormsstað en ráðgert er í frv. Þar er sem sagt ráðgert að veita í þessu skyni 450 þús. kr., en við stingum upp á, að í þessu skyni verði veittar 850 þús. kr. Í frv. er miðað við að halda áfram með kennarabústað, sem þar er í smíðum, en við teljum nauðsyn bera til að hefjast einnig handa um að auka nokkuð kennslurými skólans og heimavistir, því að hann tekur eigi nema nokkurn hluta þeirra, sem þar þyrftu endilega að komast að við nám. Þessi húsmæðraskóli er sýnilega of lítill til þess að sinna sínu hlutverki, og viljum við fara fram á það, að nú þegar verði byrjað að veita fé til viðaukans.