21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

1. mál, fjárlög 1965

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Eitt mesta vandamál í íslenzkum landbúnaði í dag er að útvega þeim, er þess þurfa með, fjármagn til að kaupa jarðir. Sú stofnun, sem hefur átt að inna þetta af hendi, þ.e. veðdeild Búnaðarbanka Íslands, er því miður alltaf févana til þessara hluta, og er hv. þm. það kannske einna kunnugast, þó að bent sé á þá heimild, sem stendur í lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins. Þar er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin eigi að kaupa 10 millj. kr. á ári af skuldabréfum hjá veðdeildinni, ef fjármagn stofnlánadeildarinnar leyfir að öðru leyti. En nú er hagur stofnlánadeildar landbúnaðarins þannig, að stofnlánadeildin getur ekki innt þær skyldur af hendi, sem hún hefur allajafna gert áður. Það hefur ýmislegt verið gert til þess að draga úr þeim skyldum, sem stofnlánadeildin á að inna af hendi til að lána út á framkvæmdir, sem gerðar hafa verið í ár, þannig að ekki er hægt að reiða sig á, að þar verði um auðugan garð að gresja að þessu sinni. Þess vegna er það, að hv. 3. þm. Vesturl. og ég höfum leyft okkur að flytja hér till. til breyt. á 22. gr. fjárl. og er þessi brtt. á þskj. 216 og er um það að heimila ríkisstj. að greiða af greiðsluafgangi ársins 1963 10 millj. kr. til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands.

Hér er um þýðingarmikið mál að ræða, svo að veðdeild Búnaðarbankans geti á ný sinnt því hlutverki, sem henni er ætlað, en það er að lána til jarðakaupa. Mörgum kann að finnast nægjanlegt að fá 100 þús. kr. lán, eins og heitið hefur verið nú um sinn úr veðdeildinni, og þetta kann að vera fullnægjandi undir sumum kringumstæðum, en algerlega ófullnægjandi í allflestum tilfellum. Þess vegna þarf að efla veðdeild Búnaðarbankans nægjanlega, svo að hún geti innt það hlutverk af hendi, sem henni er ætlað, en það er að lána til jarðakaupa. En á meðan þessi mál eru í frekari endurskoðun, þá vænti ég þess, að hv. þm. geti fallizt á þessa lausn í bili, að veðdeildin fái 10 millj. kr. nú, þar til betur verður búið að undirbyggja fjárhag hennar, svo að hún geti risið undir skyldum sínum.

Ég veit, að allir þeir þm., sem hafa með málefni sveitanna að gera. skilja þetta, og ég ætla mér ekki að fara að ræða þetta ýtarlega, þótt tilefni kunni að gefast til, vegna þess að ég veit, að allflestum þingmönnum er þetta mjög kunnugt, og ég efast ekki heldur um, að þeir vilja gera sitt bezta til þess að leysa hér úr aðkallandi vandamáli, þar til viðunandi lausn til frambúðar fæst á þessum málum.