21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

1. mál, fjárlög 1965

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við tillögu, sem hv. 3., 5. og 1. þm. Vestf. flytja við 22. gr., að taka allt að 20 millj. kr. lán til vegabóta á Vestfjörðum í samráði við þm. Vestfjarða og vegamálastjóra. Eins og frsm. þessarar till. gat um í ræðu sinni hér í dag, hv. 3. þm. Vestf., þá höfum við þm. stjórnarflokkanna átt viðræður við samgmrh. og fjmrh. um, að það verði tekið lán til vegabóta á Vestfjörðum, og það lá fyrir fyrirheit um það frá þessum tveimur hæstv. ráðh., að slíkt yrði gert. Við óskuðum eftir því, að það yrði tekið hér í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, en þeir létu í ljós, að þeir vildu heldur láta afgreiða þetta mál og afla til þess heimilda í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar á næsta ári. Á það féllumst við, því að fyrir okkur vakir auðvitað fyrst og fremst og eingöngu að fá slíka heimild, en skiptir ekki höfuðmáli, hvort það er afgreitt nú við afgreiðslu fjárlaga eða við afgreiðslu vegáætlunar í byrjun næsta árs. Ég harma það, að þessi tillaga hafi verið flutt, því að þessi fyrirheit liggja fyrir, og vil í fullri vinsemd óska eftir því, að þessir hv. þm. taki þessa till. aftur, enda væri það í fullu samræmi við þarm skilning, sem 1. þm. Austf. (EystJ) lagði í þetta mál eftir yfirlýsingu samgmrh. hér í dag, þar sem hann tók aftur þær till., sem 4 þm. Austf. fluttu varðandi lán til vegabóta í Austfjarðakjördæmi. Ég mundi telja það miður farið fyrir okkur Vestfirðinga, að þessi eina till. kæmi til atkvæða í sambandi við fjárlög, þegar aðrar till. hafa verið teknar aftur og fyrirheit liggur fyrir um það, að þetta mál verði tekið til endanlegrar afgreiðslu, eins og ég sagði áðan, í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar. Ég vil því endurtaka það, að ég vænti þess, að þessir 3 hv. þm., flm. þessarar till., vilji taka hana aftur nú, því að ég tel, að það verði ekki okkar málstað neitt til bóta að halda fast við þessa einu till. í sambandi við þetta mál.

Í sambandi við aðra till., sem sömu þm. flytja, varðandi flugmál, leggja þeir til, að 3.5 millj. kr. verði varið af því fé, sem verja á til flugvalla, til flugvalla í Vestfjarðakjördæmi. Nú er það þannig, að flugráð skiptir þessu fé til flugvalla, og á 20. gr. fjárlaga er þetta framlag 15 millj. 220 þús. kr. Ég er efnislega sammála því og finnst það mjög sanngjarnt, að af þessu fé verði þessari upphæð varið til flugvalla á Vestfjörðum, og tek alveg undir þau orð, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér í dag, að á Vestfjörðum er ekki nema einn flugvöllur fyrir hinar stærri áætlunarvélar, þ.e. Ísafjarðarflugvöllur, og mikið liggur við, að það verði orðið við óskum íbúa Patreksfjarðar um stækkun á flugvelli þar. Ég vil því vænta þess, að flugráð og flugmálaráðh. sýni því máli fullan skilning og það verði komið til móts við þessar óskir Patreksfirðinga og allra þm. Vestfirðinga um; að þessi flugvöllur verði lengdur á næsta sumri, þannig að hinar nýju áætlunarflugvélar Flugfélags Íslands geti komið þar við á leið sinni til eða frá Ísafirði, en það er það, sem íbúar þessa kauptúns og nærliggjandi hreppa leggja mikið upp úr.