13.11.1964
Efri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

58. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur n. ekki náð fullri samstöðu um málið, þannig að við 6, sem stöndum að nál. á þskj. 80, leggjum til, að það verði samþ., 2 okkar þó með nokkrum fyrirvara, eins og nál. ber með sér, en hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur skilað um málið séráliti og lagt fram brtt.

Tilgangur þessa frv. er sá að afla fjár til verklegra framkvæmda og greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs, sbr. 4. gr. frv.

Þær verklegu framkvæmdir, sem ætlunin er að afla fjár til, voru nánar tilgreindar í framsöguræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr: málsins og einnig á fundi hæstv. ráðh. með n., svo sem greint er í nál. með leyfi hans. Hér er þannig um skuldbindingar að ræða, sem ríkissjóður hefur tekið á sig samkv. ákvörðunum Alþingis, og ríkissjóður verður því að afla þess fjár; sem hér er um að ræða, með einhverju móti. Ef hæstv. Alþingi hafnar þeirri leið, sem í frv. er lagt til að farin verði, yrði auðvitað að afla þessa fjár með einhverjum öðrum hætti, svo sem erlendum lántökum, sköttum eða bankalánum. Erlendar lántökur kæmu þó varla til greina í þessu sambandi. En á því að fara hinar leiðirnar, hvora þeirra sem væri, eru vandkvæði, sem ljós eru öllum hv. þdm., og sé ég ekki ástæðu til að ræða þá hlið málsins nánar út af fyrir sig.

Það eru tvö nýmæli í þessu frv. með tilliti til þess, að hér er um lánsútboð af hálfu ríkisins að ræða. Hvorugt er þó algert nýmæli, eins og ég mun koma að á eftir. Þessi nýmæli eru þau, að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að heimilt skuli að binda vísitölu vexti og afborganir af skuldabréfum þeim og spariskírteinum, sem gefin verða út samkv. 1. gr. frv. Þetta eru nýmæli, þegar um útboð ríkisskuldabréfa er að ræða, þó að það sé auðvitað ekki nýmæli á lánamarkaðinum almennt. Hitt nýmælið er það, að samkv. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skuldabréfin og spariskírteinin séu undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé. Það er auðvitað líka nýtt hvað snertir ríkisskuldabréf, og tel ég rétt að fara nokkrum orðum um þessi atriði hvort um sig.

Í sambandi við fyrra atriðið, vísitölutrygginguna, þá skiptir það eðlilega meginmáli, hvort menn telja þá hugmynd, að taka beri upp verðtryggingu sparifjár og eftir atvikum annarra peningakrafna, skynsamlega. Frá sjónarmiði þeirra, sem slíku eru hlynntir, ætti sú tilhögun, sem í þessu efni yrði gerð, ef frv. næði samþykki, að vera spor í rétta átt. En frá sjónarmiði þeirra, sem telja verðtryggingu óæskilega, væri eðlilegra, að aðrar fjáröflunarleiðir væru farnar. Ég hygg, að við allir, sem að álíti meiri hl. stöndum, séum þrátt fyrir ólíkar skoðanir um margt, ekki sízt hvað verðlagsmálin varðar, samt sammála um það, að verðtryggingarhugmyndin sé athyglisverð og kanna beri til hlítar þá möguleika, sem í henni kunna að vera fólgnir til lausnar verðbólguvandamálunum. Og ef til vill á þetta við ekki eingöngu um okkur, sem stöndum að meirihlutaálitinu, heldur jafnvel alla n., því að í nál, hv. 4. þm. Norðurl. e. kemur það út af fyrir sig ekki fram, að hann sé andvígur verðtryggingarhugmyndinni. Eins og á góma bar við 1. umr. málsins, hafa á þessu þingi og nokkrum undanförnum þingum verið fluttar till, um athugun á þessu efni. Nokkrir hv. þm. Framsfl. hafa öðru hverju síðan á þinginu 1959—60, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gat um við 1. umr., flutt till. um athugun á því að taka upp almenna verðtryggingu sparifjár, og liggur frá þeim einnig till. fyrir þessu þingi um þetta mál. Þá má einnig geta þess, að Arnór Sigurjónsson, sem undanfarið hefur átt sæti í hv. d. sem varamaður Alþb., hefur lagt fram þáltill. um verðstuðulsuppbót, en þeirri till. liggur til grundvallar sama hugsun og til grundvallar verðtryggingunni almennt. En einmitt það, að till. í þessa átt skuli þannig liggja fyrir frá einstökum þingmönnum beggja stjórnarandstöðuflokkanna, gefur að mínu áliti nokkra vísbendingu um það, að um þessa leið sé hægt að ná víðtækari samstöðu innan þjóðfélagsins en aðrar leiðir, sem út af fyrir sig mundu liggja beinna að því marki að stöðva verðbólguna. Og þó að ekki væri annað en það, mundi það að mínu áliti gera það þess vert, að þessar hugmyndir séu athugaðar. Auðvitað ber ekki að vanmeta þá framkvæmdarörðugleika, sem á slíkri ráðstöfun eru. Þeir eru miklir. En svo mikið er líka í aðra hönd, að ég álít, að horfast beri í augu við framkvæmdarörðugleikana, enda hefur meira eða minna víðtæk sparifjártrygging verið tekin upp víða í löndum.

Ég flutti, eins og þeir minntust á við 1. umr. þessa máls, hv. 3. þm. Norðurl. v. og hæstv. fjmrh., á þinginu 1961—62 till. um verðtryggingu lífeyris og líftrygginga, og var sú till. samþ. Mér var síðan falið af hæstv. ríkisstj. að semja álítsgerð um þetta, og skilaði ég henni vorið 1963, og þó að hún eðlilega fjallaði aðeins um hluta þess viðfangsefnis, sem hér var um að ræða, tryggingu lífeyris og lífsábyrgða, þá var það talsvert rætt þar, hvað mælti með því að taka upp almenna sparifjártryggingu, og ýmsar upplýsingar um það, hvernig fyrirkomulag þeirra mála væri í þeim löndum, þar sem slíku hefur verið komið á. Ástæðan til þess, að ég taldi sérstaka ástæðu til þess að verðtryggja lífsábyrgðir og lífeyri, var sú, að hér er um fjármuni að ræða, sem yfirleitt eru bundnir til langs tíma. Og líftryggingafélög hafa tjáð mér, sem vel er hægt að skilja, að yfirleitt sé það algerlega úr sögunni, að menn kaupi líftryggingar, það er vegna verðbólgunnar, þannig að ég taldi þetta það svið, þar sem mest nauðsyn væri að hefjast handa.

Annars ætla ég ekki að fara lengra út í þessa sálma, að öðru leyti en því, sem þeir snerta beint efni þess frv., sem hér liggur fyrir. En sú spurning, sem eðlilega verður efst á baugi í sambandi við þá fjáröflunarleið, sem hér er lagt til að farin verði, er sú, hvaðan líklegt megi telja að þeir fjármunir komi, sem ráðstafað verður til kaupa á þeim skuldabréfum, sem samkv. þessu frv. á að bjóða út. Er hægt að gera sér vonir um aukinn sparnað, þannig að þetta fjármagn verði ekki dregið annars staðar frá, eða verða þessir peningar teknir út úr bönkunum, eða gæti það komið einhvers staðar annars staðar frá?

Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að gera megi sér vonir um það, að það, að sköpuð eru þannig skilyrði fyrir hagkvæmari leið til að ávaxta sparifé, geti leitt til nokkurs aukins sparnaðar. En með tilliti til þess, að neyzluvenjur fólks eru sem kunnugt er tiltölulega fastar, þá má að mínu álíti ekki vera of bjartsýnn um þetta atriði. En þótt ekki verði nema að litlu leyti um aukinn sparnað að ræða, þá er að mínu áliti jafnframt hægt að gera sér vonir um það, að fjármunir, sem ráðstafað hefur verið á annan hátt, áður en þessi skuldabréf voru boðin út, geti orðið losaðir og varið til þess að kaupa þau skuldabréf, sem hér er um að ræða. Þegar ekki er hægt að fá sparifé verðtryggt með skaplegum kjörum, þá er hætt við, að eigendur þess fari sínar eigin leiðir til þess að fá einhverja verðtryggingu, og það er ekki vafi á því, að algengasta leiðin, sem farin er í þeim efnum, er að ráðstafa þessum fjármunum til kaupa á fasteignum eða öðrum raunverulegum verðmætum. Þetta hefur auðvitað sín óheppilegu áhrif. Það verður til þess að sprengja upp fasteignaverð og byggingarkostnað og þannig til þess að auka verðbólguna í landinu. Þá er til önnur leið, sem sízt er hugnæmari en þessi, en það er að ráðstafa þessum peningum annaðhvort beint eða gegnum milliliði til okurlánastarfsemi, þannig að hinum háu vöxtum, sem af slíkum lánum eru greidd, er þá ætlað að vera eins konar verðtrygging. Ég tel, að gera megi sér vonir um það, ef sparifjáreigendur telja, að sköpuð sé með ráðstöfunum svipuðum og þessari örugg leið til þess að verðtryggja spariféð, þá sé hægt að vænta þess, að talsverðu af þeim fjármunum, sem ella yrðu festir í fasteignum eða jafnvel leituðu á okurlánamarkaðinn, yrði varið til kaupa á þessum bréfum, og er varla álítamál, að slík þróun væri æskileg. Annars er auðvitað ekki hægt að segja neitt fyrir fram um það, hvaðan þeir fjármunir koma, sem ráðstafað kynni að vera til kaupa á þessum skuldabréfum. Úr því getur reynslan ein skorið. Og rétt er auðvitað að taka það fram, að ég geng ekki í þeirri dul, að með þessari ráðstöfun einni saman sé hægt að létta spennuna á fasteignamarkaðinum eða uppræta okurlánastarfsemina. Hér gæti auðvitað aldrei verið nema um lítið spor að ræða í þá átt með tilliti til þess, að það lánsútboð, sem hér er um að ræða, eða 75 millj. kr., nemur 1—1 1/2% af öllu sparifé landsmanna, þannig að ef eftir þessari leið eða svipaðri ætti að gera sér vonir um það, að hægt væri að létta spennunni á fasteignamarkaðinum og uppræta okurlánastarfsemina, þá þyrfti auðvitað miklu stærra átak. En eftir sem áður ætti þetta að vera spor í rétta átt, hvað þetta atriði snertir.

Þá ætla ég að víkja að ákvæðum 3. gr. um skattfríðindin. Eins og meiri hl. n. hefur gengið frá þessu frv., þá er gert ráð fyrir því, að skuldabréfin njóti svipaðra skattfríðinda og sparifé nýtur nú. Þar er að mínu álíti ekki um neina róttæka breytingu á skattalögum að ræða. Það fé, sem varið er til kaupa á þessum skuldabréfum, er auðvitað sparifé, og hlýtur að vera mikið álitamál, hvort ástæða er til þess, þó að það sé bundið í þessu formi, að geta mun á því og öðru sparifé. Í hinu upphaflega frv. var hins vegar gert ráð fyrir að ganga hér feti lengra og láta þetta fé einnig vera undanþegið erfðafjárskatti, en það mundi verða algert nýmæli í þessum efnum. Það hefur n. ekki getað fallizt á og leggur fram um það brtt, á þskj. 80, að þetta ákvæði falli niður. Það má um það deila, hvort vissar eignir eigi að vera undanþegnar framtalsskyldu og skattskyldu, en hvað erfðafjárskattinn varðar, þá hefur þeirri reglu yfirleitt verið fylgt, að allir greiddu jafnt af öllum eignum, einnig þeim, sem undanþegnar eru skattskyldu, og okkur fannst því í fyrsta lagi varhugavert í sambandi við þetta frv. að gera grundvallarbreytingu á þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki erfðafjárskatti, og í öðru lagi má á það benda, að hætta er á, að þetta ákvæði mundi sérstaklega leiða til þess, að eldra fólk tæki peninga sína út úr bönkum, af því að aðrar peningakröfur eru ekki undanþegnar erfðafjárskatti, þannig að verði till. n. um þetta samþ., þá mundu skuldabréfin njóta sömu aðstöðu og annað sparifé hvað skattana snertir. Auðvitað má deila um réttmæti þeirra skattfríðinda, sem hér er um að ræða. En hvað sem því atriði líður, þá má að mínu álíti telja útilokað, að von sé til þess, að þessi skuldabréf seljist, nema þau njóti í þessu efni sömu aðstöðu og þegar um annað sparifé er að ræða. Þá spurningu, hvaða eignir eigi að vera skattfrjálsar, er eðlilegt að taka upp í sambandi við endurskoðun skattalaganna, sem vafalaust kemur til umr. síðar á þessu þingi, en við samþykkt þessa frv. hljótum við að ganga út frá óbreyttum skattalögum, og meðan ákvæði þeirra um sparifé eru svo sem þau eru, þá finnst mér það liggja í augum uppi, að ef von á að gera sér um sölu þessara skuldabréfa, þá verði þau í þessu efni að njóta sömu aðstöðu og sparifé almennt.

Ég sé, að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur á þskj. 85 borið fram brtt. þess efnis, að farin verði hér að vissu leyti millileið, þannig að þessi skuldabréf verði framtalsskyld, en ekki skattskyld. Hér er um algert nýmæli að ræða í skattamálum, ef aðgreina á framtalsskyldu og skattskyldu. Ég álít, að hvað sem öðru líður, þá sé frá tæknilegu sjónarmiði ekki hægt í sambandi við samþykkt þessa frv. fyrir hv. Alþingi að fara inn á þessa braut. Ég hef vegna kennslu minnar við háskólann orðið að kynna mér talsvert skattamálalöggjöf í öðrum löndum, og geri ég mér þó ljóst, að því fer auðvitað mjög fjarri, að ég viti alla hluti í þeim efnum, en ég veit þess ekki nokkur dæmi, að skattskylda og framtalsskylda hvað snertir tekjur og eignir sé nokkurs staðar skilin að. Það er þó hugsanlegt, að þess séu dæmi. Og þegar samþykkt var vorið 1962 ágreiningslaust hér á hv. Alþingi að undanþiggja innbú skattskyldu, þá er að vísu ekki tekið fram sérstaklega í l., að innbúin væru undanþegin framtalsskyldu. Hins vegar hafa skattayfirvöld túlkað þetta þannig, að þar sem innbúið væri undanskilið skattskyldu, hlyti það líka að vera undanþegið framtalsskyldu, því að ekki hefur verið gengið eftir því síðan, að innbú væri talið fram. Og að mínu álíti var ekki hægt fyrir skattayfirvöld að leggja með öðru móti skynsamlega merkingu í þetta ákvæði, því að ef hugsunin hefði verið hin, að það væri eingöngu skattskyldan, sem hefði verið afnumin, en ekki framtalsskyldan, þá hefði orðið að taka það skýrt fram, og það, sem meira máli skiptir, er það, að ef á að aðgreina þetta, þá kemur upp spurningin um það, hvaða viðurlög á að leggja við því, að menn telja ekki fram eignir, sem ekki eru skattskyldar. Mér finnst, að það gefi auga leið, að hin almennu viðurlög skattalaga við því að svíkja skattskyldar tekjur eða eignir undan framtali; geta ekki átt þarna við, því að sektir eru ákveðnar með hliðsjón af því, hvað það er. mikill skattur, sem skattþegn kemur sér undan með því að telja ekki fram skattskyldar tekjur eða eignir. Ef hins vegar er um það að ræða, að eign er framtalsskyld, en ekki skattskyld, þá yrði að setja alveg sérstök viðurlög við því, að slíkar eignir eru ekki taldar fram. Það hefði engin áhrif á skattgreiðslu viðkomandi, hvort hann gerir það eða ekki, svo að það er ekki hægt að miða við það. Það verður að ákveða þarna sérstök viðurlög, og um það getur ekki verið neinn ágreiningur, að þegar Alþingi setur lög, sem segja borgurunum fyrir um það, hvernig þeir eigi að hegða sér; þá felast ekki í því frómar óskir eða ábendingar, heldur verður að jafnaði að setja einhver viðurlög við því, ef þessum lögum sé ekki hlýtt, og ég hugsa, að nauðsyn þess að hafa einhver viðurlög við því, ef lög séu brotin, séu ekki minni hvað skattalög snertir heldur en aðra löggjöf.

Nú er ég ekki að segja, að það geti út af fyrir sig ekki komið til greina að aðgreina framtalsskyldu og skattskyldu, þó að ég þekki engin dæmi, að slíkt sé gert. En ef það á að gera, þarf að hugsa það, hvaða viðurlög á að setja, ef framtalsskyldunni er ekki fylgt, og að brjóta þá hnot er ekki unnt í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Það þyrfti miklu meiri athugun; svo að þegar af þeirri ástæðu fyndist mér, hvaða skoðanir sem menn hafa á þessu, að þau vinnubrögð væru ekki samboðin hv. d. að samþykkja þessa brtt., eins og hún liggur fyrir. Annars er það sjónarmið, sem liggur að baki því, að eðlilegt sé að aðgreina framtalsskyldu og skattskyldu, þetta, að eftirlit með því, að tekjur séu taldar rétt fram, verði auðveldara, ef vissar eignir eru framtalsskyldar, eins og t.d. verðbréf, sparifé o.s.frv. Að mínu álíti snertir þetta í rauninni ekki kjarna þess máls, sem hér liggur fyrir. Það er eðlilegt umræðuefni í sambandi við breytingu á skattalögum.

En ég get þó ekki stillt mig um að benda hv. þdm. á það, að ákaflega litlar líkur eru á því að mínu álíti, að það væri hægt að ná neinum verulegum árangri í þá átt að hafa betra eftirlit með skattaframtölum, þó að t.d. sparifé væri gert framtalsskylt. Það má í þessu sambandi nefna það, að þó að eignarskattur og eignarframtöl séu að vísu liður í skattakerfi okkar, og það sama á við um Norðurlönd og Þýzkaland, þá fer því mjög fjarri, að það sé alls staðar. T.d. í Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi eru engir eignarskattar til og eignir þess vegna ekki heldur framtalsskyldar. Nú eru í þessum löndum mjög háir tekjuskattar og strangt eftirlit með framtali tekna, svo að ef framtal eigna mundi auðvelda mjög eftirlit með tekjunum, þá er mjög ólíklegt annað en í þessum löndum væri eignarskattur. En þannig er ekki litið á.

Hugsunin á bak við það, að með því að hafa eftirlit með eignunum, þá sé líka hægt að hafa eftirlit með tekjunum, virðist byggjast á tvennu. Í fyrsta lagi því, að tekjur, sem sviknar eru undan skatti, hljóti alltaf að vera sparaðar, og ef þær séu sparaðar, þá séu þær sparaðar í einhverju ákveðnu formi, t.d. að leggja þær inn í banka. Nú má á það benda, að það er örlítill hluti af tekjum fólks, sem er sparaður. Það liggja að vísu ekki fyrir upplýsingar um það hér á landi, hve mikill hluti af tekjum einstaklinga er sparaður, en þar sem upplýsingar liggja fyrir um þetta, eins og t.d. í Bretlandi, má upplýsa það, að fyrir nokkrum árum var gert ráð fyrir því, að í Bretlandi spöruðu elnstaklingar um 4% af tekjum sínum. Nú býst ég við, að Íslendingar séu sízt taldir sparsamari en Bretar, og hér er miklu örari verðbólguþróun en þar, svo að með ólíkindum má telja, að þessi prósenta sé hærri hér, þannig að ef við gerum ráð fyrir því, að fólk eyði um 95% af tekjum sínum, þá verður það þannig, að jafnvel þótt hægt væri að hafa eftirlit með allri eignaaukningu, þá væri það ekki nema örlítið brot af tekjunum, sem þannig væri hægt að hafa eftirlit með. En ekki er ástæða til að ætla, að stærri hluti af skattsviknum tekjum sé sparnaður heldur en af öðrum tekjum. Í öðru lagi má á það benda, að mjög auðvelt er auðvitað að koma eignaauka undan sköttum, ef þeir, sem tekjur svíkja undan skatti, telja nauðsynlegt að spara þessar tekjur. Það má gera á óteljandi vegu, og einkum þegar verðbólguþróun er, þá er hægt að fela eignaauka nærri því hvernig sem er. Niðurstaðan hlýtur að vera sú, að með því að undanþiggja vissar eignir framtalsskyldu og gera aðrar framtalsskyldar, þá er að vísu hægt að hafa áhrif á það, hvernig þeim tekjum, sem sviknar eru undan skatti, er ráðstafað, hvort þeim er eytt eða þær eru sparaðar, en á því eru að mínu áliti engar líkur, að neinum teljandi árangri sé hægt að ná í þá átt að hafa betra eftirlit með framtöldum tekjum.

2. brtt., sem hv. 4: þm. Norðurl. e. flytur, er sú, að ákveðnir séu 4—5% vextir af bréfunum. Nú verður það auðvitað mikið álitamál, hver vaxtakjör og önnur lánskjör þurfi að vera, til þess að von sé um, að þessi bréf seljist. En ég tel þó öruggt með tilliti til fenginnar reynslu, að ef lánskjörin væru rýrð svo mjög sem felst í brtt. frá hv. þm., þá væri lítil sem engin von til þess, að þessi bréf seldust. Í því sambandi má minna á það, að eins og nú er, væri möguleiki á því að fá spariféð vísitölutryggt með því að leggja það inn á reikninga á vegum húsnæðismálastofnunarinnar. Með skyldusparnaðinn er það þannig, að hann er undanþeginn skattskyldu, hann er vísitölutryggður og þar eru vextir 5 1/2 %. En nú er unglingum, sem skyldusparnað inna af hendi, heimilað að leggja inn á þessa reikninga eftir vild, en þarna hefur fólk aðgang að því að verðtryggja sparifé sitt, því að ég vænti þess ekki, að húsnæðismálastjórnin káfi ofan í það, ef unglingur leggur peninga inn á þessa reikninga., hvort þeir komi frá honum sjálfum eða pabba hans, enda mun húsnæðismálastjórn það ekki skylt. Að því er ég bezt veit, mun þó vera mjög lítið um það, að fólk noti sér þann möguleika, sem hér er fyrir hendi, og með tilliti til þess, að þarna er í rauninni boðið upp á miklu hagstæðari kjör en vera mundi, ef þessar brtt. væru samþykktar, þá má telja það nokkurn veginn vonlaust, að skuldabréfin gengju út, ef þessar brtt. væru samþykktar. Sé hins vegar miðað við þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf á fundi nefndarinnar um vaxtakjör, þ.e. að vextir yrðu 6—7%, þá álít ég mikið álitamál, hvort kjörin eru hagstæðari en nú þegar eru í boði á vegum húsnæðismálastjórnarinnar. Vextirnir eru að vísu nokkru hærri, en á móti því kemur, að þetta fé er bundið til lengri tíma en yfirleitt gerist með skyldusparnaðarlánin. Þar er hámarkstíminn, sem þau verða bundin, 10 ár, svo að mitt mat er það, að varla megi skemmra ganga hvað vaxtakjörin snertir heldur en frv. gerir ráð fyrir. Og ég vil aðeins benda á það, að þegar farið er inn á verðtryggingarleiðina, þá má í byrjun ekki vera allt of smátækur og ekki ganga of langt í því efni að taka aftur með annarri hendinni það, sem veitt er með hinni, með því að lækka vextina allt of mikið. Hitt er annað mál, að þegar frá liði, ætti verðtrygging að skapa möguleika á því að lækka vexti talsvert frá því, sem nú er. En vara ber að mínu álíti við því að vera of fljótur á sér í því efni, því að það hefur aldrei þótt viturlegt að selja skinnið af refnum, áður en búið er að skjóta hann, og ég álít, að fyrst eigi að stöðva verðbólguna, síðan að afnema hömlur, sem hún hefur gert nauðsynlegar, en ekki byrja á því að afnema hömlurnar og ætla sér svo að stöðva verðbólguna síðar.

Að lokum tel ég rétt aðeins að minnast á seinni brtt., sem meiri hl. n. flytur. Það er orðalagsbreyting við 5. gr. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vísa til orðaskipta, sem þeir áttu við 1. umr. málsins, hv. 3. þm. Norðurl. v. og hæstv. fjmrh. Sá fyrrnefndi taldi, að orðalag frv., eins og það upphaflega lá þá fyrir, væri ekki nægilega skýrt, en það var til þess að koma til móts við þetta, sem þessi brtt. var flutt.