22.02.1965
Neðri deild: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

121. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að ósk Sambands ísl. fiskframleiðenda og gerir ráð fyrir því, að tollur verði lækkaður á flökunarvélum, flatningsvélum og hausskurðarvélum úr 35% í 10%.

Ríkisstj. hefur haft til athugunar um nokkurt skeið lækkun almennra tolla á vélum, sérstaklega á vélum og tækjum til vinnslu útflutningsafurða, en einnig á vélum og tækjum þess iðnaðar, sem framleiðir vörur og veitir þjónustu fyrir innlendan markað. Þeirri athugun er ekki lokið enn, og inn í hana hefur spunnizt viðtækari endurskoðun tollskrárinnar heldur en upphaflega var ráðgert. En það þykir rétt að flytja þetta frv. sérstaklega, þar sem vertíð er fyrir nokkru hafin og atvinnurekendur hafa lagt sérstaka áherzlu á, að þessi breyting komi til framkvæmda nú þegar.

Þó að hinni almennu athugun á tollum o.fl. sé ekki lokið, er þetta frv. flutt, og er það ósk ríkisstj., að það fái greiða göngu gegnum þingið. Frv. hefur verið samþ. í Ed., og varð þar alger samstaða um málið. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.