13.11.1964
Efri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

58. mál, innlent lán

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef kosið að skila séráliti um það frv., sem hér er til umr., og það er vegna þess, að ég vil ekki standa að samþykkt þessa frv., eins og það er nú úr garði gert, og vil ég reyna að skýra þá afstöðu mína í örfáum orðum.

Ég vil strax taka það fram, að ég dreg út af fyrir sig ekki í efa, að um gagnlegar og nauðsynlegar framkvæmdir sé að ræða, sem þetta lánsfé á að renna til, né heldur, að nauðsynlegt sé að afla fjár til þess, annað tveggja með lántöku í einhverju formi eða með sköttum. Og a.m.k. er það víst, að af hálfu ríkisstj. jafngildir þetta frv, yfirlýsingu um það, að þrátt fyrir þá geysilegu skattheimtu, sem hún hefur staðið fyrir á undanförnum árum, sem m.a. lýsir sér í því, að upphæð fjárl. hefur nær fjórfaldazt á valdatíma hennar, þá skortir hana nú fé til þeirra nauðsynlegu framkvæmda, sem hún hefur gert áætlanir um að ljúka á þessu ári, þ.e.a.s. til hinnar svokölluðu framkvæmdaáætlunar, sem hún hefur gert sér, en hefur ekki látið svo lítið að kynna hv. Alþingi. Og það liggur svo mikið á að fá þetta fé inn, að það er það harðasta, að hér á hv. Alþingi sé afskammtaður hæfilegur tími til þess að afgreiða þetta mál, og búið, áður en frv. kemur til umr., að ákveða það, að sala skuldabréfanna skuli hefjast á ákveðnum mánaðardegi nú í þessum mánuði.

Enda þótt ég ætli út af fyrir sig ekki að vefengja það, að eitthvað þurfi að gera til fjáröflunar, þá vil ég þó taka það fram, að það er skoðun mín, að það sé a.m.k. mjög miklum takmörkunum háð, að hve miklu leyti eigi að eyða fyrir fram skatttekjum ríkissjóðs, þ.e.a.s. þeim sköttum, sem eiga eftir að koma inn á ókomnum árum og hljóta því að íþyngja skattþegnunum í framtíðinni. En það eru auðvitað mýmörg dæmi fyrir því og kunna að vera til þess talsvert ríkar ástæður, að það sé rétt að dreifa greiðslubyrði til einstakra framkvæmda á fleiri ár með því að taka lán. Og það kann sem sagt vel að vera, að slíkar ástæður séu fyrir hendi nú. Þó vil ég segja í þessu sambandi, að það væri vissulega viðkunnanlegra, þegar hæstv. ríkisstj. kemur fram fyrir Alþingi og biður um leyfi til þess að fá að taka slíkt lán sem þetta; að hún gerði þá jafnframt fulla grein fyrir framkvæmdaáætluninni, eins og hún var á þessu ári, þó að árið sé nú senn liðið, hve mikið hefur verið framkvæmt af henni, hve mikils fjár hefur verið aflað og hve mikið raunverulega skorti. En þessar upplýsingar hafa ekki enn þá legið fyrir Alþingi, og ég vildi nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvernig þessi mál standa, hversu mikið fé vanti enn á, að hægt sé að framkvæma það, sem framkvæmdaáætlunin mun hafa gert ráð fyrir og maður hefur heyrt samkv. lausafréttum að hefði átt að nema 900—1000 millj. kr.

En sem sagt, þessi framkvæmdaáætlun hefur ekki verið lögð fram á Alþingi og hefur ekki verið samþ. hér. Ég geri að vísu ráð fyrir, að það sé alveg rétt, sem kom hér fram í framsöguræðu hæstv. ráðh., að út af fyrir sig séu heimildir í l. til allra þessara framkvæmda. En það ætti auðvitað að vera mál þingsins, a.m.k. að einhverju leyti, hvaða framkvæmdir þarna ættu að sitja fyrir af þeim, sem lagaheimildir eru til fyrir, og hverjar ættu frekar að sitja á hakanum, ef um fjárskort er að ræða.

Það er auðvitað líka rétt, sem kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., að ýmsar aðrar leiðir en sú, sem hér er um að ræða, gætu einnig komið til greina. Og ég vil segja, að þar gæti verið um fleiri leiðir að ræða en hann nefndi, þ.e.a.s. að skattar kæmu til greina og erlent lán kæmi til greina, sagði hann, en mér sýnist, að það gæti líka komið til greina að skylda Seðlabankann til þess að láta eitthvað af hendi af frysta innstæðufénu, sem nú er talið nema 1000 millj. kr., og mér fyndist líka, að þegar slíkt hallærisástand ríkir sem raun ber vitni hjá hæstv. ríkisstj., þá kæmi til greina að taka einnig af því fé, sem hún hefur lagt í svokallaðan jöfnunarsjóð. Mér sýnist ekki nein veruleg hagfræði vera í því, að ríkissjóður leggi inn á sparisjóðsbók 100 millj. kr., eins og gert hefur verið, sem rýrna ár frá ári, en gefi á sama tíma út skuldabréfalán, þar sem lántakendur eiga að vera fullkomlega tryggir gegn gildisrýrnun peninganna. Ég hygg, að einstaklingur mundi ekki haga sínum búskap á þennan veg, og ég tel það ekki heldur hyggilegt, að ríkissjóður geri það. Og enn fremur í þriðja lagi, til viðbótar við þær leiðir, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. ræddi hér, þá mætti svo nefna það, að á undanförnum árum hefur verið mjög mikill tekjuafgangur hjá ríkissjóði, tekjuafgangur upp á hundruð millj., og honum mun ekki nándar nærri vera fullráðstafað, þannig að ef fé skortir núna til óhjákvæmilegra framkvæmda og jafnvel framkvæmda, sem búið er að gera, þá sýnist mér geta vel komið til greina að taka það, sem á vantar, að einhverju eða öllu leyti af þeim tekjuafgangi, sem verið hefur á undanförnum árum, og af þeirri umframskattheimtu, sem hefur verið framkvæmd umfram þarfir af landsmönnum. Það er svo greinilega ókostur við þessa fjáröflunarleið, sem hér er farin, að hún er þannig úr garði gerð, að það er greinilega stefnt að því að hefja kapphlaup við viðskiptabankana um það innstæðufé, sem þeir hafa yfir að ráða og þeir verja til lána til almennra framkvæmda og til rekstrar atvinnuveganna. Og það mun flestum, sem þekkja til starfsemi þeirra og lánaskortsins í landinu, vera ljóst, að viðskiptabankarnir eru ekki of vel haldnir til þess að geta gegnt þessu hlutverki sínu, þó að ríkissjóður hlaupi ekki í stórum stíl í kapp um það að ná til sín innstæðufé og auka þannig raunverulega sparifjárfrystingu í landinu, enda mun það vera svo, að viðskiptabankarnir munu vera ákaflega lítið hrifnir af þessari lántöku, sem ég verð að telja fullkomlega eðlilegt. En það má að sjálfsögðu segja, að þar sem ekki er hér um neitt stórlán að ræða, þá skipti það ekki ákaflega miklu, þó að þessi leið sé farin um ekki stærri lántöku, ef að öðru leyti væri sómasamlega frá málinu gengið af hálfu hæstv. ríkisstj., en ég tel, að nokkuð skorti á, að svo sé.

Kem ég þá að því, sem ég hef sérstaklega að athuga við frv. og hef flutt brtt. um. Það er þá í fyrsta lagi, að ég tel það út af fyrir sig fullkomlega óeðlilegt og óþingræðislegt, að lánskjör og lánstími séu ekki ákveðin í aðalatriðum í frv., ákveðin af Alþingi, sem lántökuna á að leyfa, og allt slíkt lagt í hendur hæstv. fjmrh. Það kunna að vísu að vera fordæmi fyrir því, að svona hlutir séu gerðir, en þá tel ég það vera slæm fordæmi, sem ekki afsaka það, að þessi háttur sé nú á hafður. Í öðru lagi er með þeim hætti, sem hér er að staðið, tekið fjárveitingavald af Alþingi á því fé, sem er fengið að láni hjá kaupendum skuldabréfanna. Það eru að vísu einnig í því efni fordæmi og þau jafnvel stór. En ég tel það ekki góðan hátt, sem hafður hefur verið á í stórum stíl á undanförnum árum og í stöðugt vaxandi mæli, að taka raunverulega fjárveitingavaldið af Alþingi, taka milljónalán árlega erlendis og úthluta þeim eftir geðþótta ríkisstj., en þetta hefur verið gert í þeim tilvikum, sem m.a. hæstv. fjmrh. benti hér á sem fordæmi í framsöguræðu sinni fyrir málinu við 1. umr.

Það er skoðun mín, að bæði lántökur og lánveitingar á vegum ríkisins ættu að bindast í fjárlögum, og framkvæmdaáætlun um þær framkvæmdir, sem Alþingi hefur gefið heimild til, ef til vill á mörgum árum, hún á líka að vera mál Alþingis, en ekkert einkamál ríkisstj., sem hún heldur leyndu fyrir löggjafarsamkomunni. Í þriðja lagi tel ég svo, að vextir eins og þeir eru fyrirhugaðir, þá að það sé ekki bundið með lagaákvæðum, séu of háir, þ.e.a.s. 7.2% auk fullkominnar verðtryggingar, og af því leiði, að lánið sé óhagstæðara fyrir ríkissjóð sem lántaka en ástæða er til, og einnig sé hægt að skoða þessa háu vexti, miðað við þau hlunnindakjör að öðru leyti, sem bréfunum fylgja, að það sé raunveruleg vísbending, ef þetta verður samþ., um vilja Alþingis um að viðhalda þeim háu vöxtum, sem nú ríkja í lánakerfinu og núverandi hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og komið á.

Það má vel vera, að núverandi vaxtahæð sé aðeins umdeilanleg á verðbólgu- og verðhækkunartímum, eins og hafa verið hér á undanförnum árum, þar sem árleg verðgildisrýrnun hefur raunverulega étið upp vextina og ef til vill stundum talsvert meira, þar sem raunvextir af fénu hafa verið litlir eða jafnvel engir. En hitt er að mínu viti ekki umdeilanlegt, að á tímum verðstöðvunar eru slíkir vextir sem hér hafa verið undanfarin ár hrein fásinna, sem hlýtur að hefna sín á margvíslegan hátt, ef henni er haldið áfram, eftir að verðstöðvunartímabil er hafið, og m.a. mundi hefna sín á þann hátt að torvelda framhald verðstöðvunar, því að hinir háu vextir eiga auðvitað sinn gífurlega mikla þátt í því, hve erfitt er að halda dýrtíð og verðbólgu í skefjum, auk þess sem þeir hljóta að rýra lífskjör almennings, kalla á meiri launahækkanir en eru kannske æskilegar fyrir efnahagskerfið, og ýta þannig hjólinu af stað aftur. Og ég tel það hreinustu furðu, hvað sem um fyrri tíma má segja, að í kjölfar júnísamkomulagsins, sem gert var milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda og ríkisstj., þá skyldu vextir ekki strax vera lækkaðir eitthvað, því að viðhorfin voru að mínu viti alveg gerbreytt og þau rök, sem áður voru kannske fyrir hendi um háa vexti, voru að meira eða minna leyti fallin úr sögunni og verður ekki til að dreifa nema í stöðugt minnkandi mæli, eftir því sem raunverulegt verðstöðvunartímabil stendur lengur. Og ég hygg, að það fari varla milli mála, að hæstv. ríkisstj. hljóti að verða óstætt til lengdar á þessum vöxtum, a.m.k. ef framhald verður á því verðstöðvunartímabili, sem hefur ríkt í landinu undanfarna mánuði.

En varðandi þetta lán gildir auðvitað verðtryggingin sama sem trygging fyrir verðstöðvun, og verður þess vegna að meta vextina með hliðsjón af því. Og ég verð að segja það, að með 4—5% vöxtum, eins og ég legg til að verði hafðir af þessu láni, að viðbættri fullkominni tryggingu gegn verðgildisrýrnun, þ.e.a.s. verðbótum, og þar til viðbótar fullkomnu skattfrelsi, sem áður hafi ekki þekkzt á neinum verðbréfum, sem á markaðinum hafa verið, og er um algert nýmæli að ræða, þá tel ég þetta höfðingleg kjör fyrir lánveitendur, þ.e.a.s. kaupendur skuldabréfanna.

Það er auðvitað erfitt um það að deila, hvernig sölumöguleikarnir kunna að vera. En það er skoðun mín, að þetta séu það góð kjör, að ekki stærra lán en þetta mundi auðveldlega ganga út á stuttum tíma, þó að kjörin væru ekki hærri en ég legg til. Mér finnst, að sá samanburður, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. var hér með varðandi skyldusparnaðinn, sé algerlega rangur. Það er að vísu rétt, að vextir eru þar örlítið hærri en ég legg til, hins vegar er lánstíminn, bindingin á lánsfénu, undir flestum kringumstæðum miklu lengri, þar sem hann getur verið allt að 10 ár þar, en hér eru menn lausir allra mála um festingu á þessu fé að 3 árum liðnum og geta tekið út hvaða dag sem þeir vilja. Og auk þess held ég, að a.m.k. á tiltölulega rólegum tímum í verðlagsmálum, verðstöðvunartímum, þá sé miklu meiri trygging í byggingarvísitölu en í framfærsluvísitölunni, því að þótt henni sé haldið niðri, m.a. með niðurgreiðslu úr ríkissjóði og öðrum stjórnaraðgerðum, þá er það nærri víst og fullkomlega víst, að byggingarvísitala mundi fara hækkandi, m.a. vegna þess, að það eru engar líkur á því, að stjórnarvöld færu nokkru sinni í niðurgreiðslur á byggingarvísitölunni. Það er líka nokkurn veginn víst, að þrátt fyrir verðstöðvun mundi verða um árlega eða svo til árlega kauphækkun að ræða, sem hlyti að hækka byggingarvísitöluna, jafnvel þótt framfærsluvísitalan stæði í stað, og ég tel þess vegna engu saman að jafna, a.m.k. miðað við verðstöðvunartíma, um það, hversu miklu byggingarvísitalan er hagstæðari.

Þá er það í fjórða lagi, sem ég hef þá aths. að gera við frv., að ég tel, að það komi ekki til nokkurra mála, að það sé rétt, að þessi bréf eigi að vera undanþegin framtalsskyldu, og ég bendi fyrst á það, að hér er um algert nýmæli að ræða í skattamálum, þar sem framtalsskylda hefur verið á öllum verðbréfum, sem gefin hafa verið út í landinu fram að þessu. Og það er mín skoðun, að það sé mikil spurning a.m.k., hvort framtalsskylda ætti ekki einnig að vera á öllu sparifé, þrátt fyrir það að það sé undanþegið skattlagningu. Og ástæðurnar fyrir þessu eru fyrst og fremst þær, að ég tel, að skattaeftirlit án framtalsskyldu á svo mikilsverðum hlutum sem verðbréfum og innstæðufé geri allt skattaeftirlit mjög torvelt eða jafnvel í ýmsum tilvikum algerlega ómögulegt. Ef skattaeftirlit á að vera virkt, er það auðvitað alveg bráðnauðsynlegt, að hægt sé að gera samanburð á framtölum manna frá ári til árs, jafnvel mörg ár aftur í tímann. Ef menn geta stöðugt skýlt sér á bak við það, jafnvel þótt grunsamlegir hlutir komi fram, t.d. í sambandi við skyndilegar eignaraukningar, að þeir hafi átt svo og svo mikið af verðbréfum, sem þeir hafa ekki verið skyldir að telja fram, svo og svo mikið af sparifé, sem þeir hafa ekki verið skyldir að telja fram, þá hygg ég, að slík rannsókn mundi aldrei geta svarað þeim tilgangi, sem hún þarf að svara. Ég bendi líka á í þessu sambandi, að hér er í raun og veru gengið skrefi lengra varðandi þessi bréf að þessu leyti en gert er varðandi venjulegt sparifé, því að þau ákvæði eru í núgildandi skattalögum, að innlánsstofnanir eru skyldar til þess að gefa skattayfirvöldunum upplýsingar á hverjum tíma um innstæðu manna, ef rannsaka þarf feril þeirra í skattamálum. Og það er þannig hægt a.m.k. að verulegu leyti að hafa eftirlit með því, hvernig eignir manna hafa orðið til á löngu tímabili, gegnum slíka heimild. En í þessu tilviki er ekki um neitt slíkt að ræða. Ef bréfin eru ekki framtalsskyld, er þar enginn annar aðili en sjálfir eigendurnir, sem gæti gefið einhverjar upplýsingar, engar stofnanir, sem þær gætu gefið, þannig að frelsið yrði að þessu leyti miklu meira en það hefði nokkurn tíma verið varðandi sjálft spariféð. Og ég hefði a.m.k. haft mjög gaman af því í sambandi við þetta, að fyrir hefði legið álit skattayfirvalda og þeirra, sem eiga að annast skattaeftirlit, á þessu atriði, og það er skoðun mín a.m.k., að vísu að óreyndu, að þeir mundu eindregið mæla á móti því, að farið væri að leyfa sölu verðbréfa með þessum skilmálum, sem hér er um að ræða, af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt. Hv. frsm. meiri hl. vildi álíta, að till. mín um það að fella niður framtalsskylduna væri ekki samboðin hv. Alþingi. Það voru ekki stærri orð, sem hann hafði um það, heldur en þau. En ég vil þá spyrja hv. frsm. meiri hl.: Telur hann þá samboðið Alþingi í sambandi við útboð á skuldabréfaláni að binda raunverulega hendur löggjafans um skattalagaákvæðið í sambandi við slíkt mál sem þetta um 10 ára skeið, því að ef það verður samþykkt hér í sambandi við þetta frv., að þessi bréf skuli ekki vera framtalsskyld, þá tel ég líka útilokað, að hv. Alþingi geti komið rétt á eftir og sagt: Þau skulu vera framtalsskyld, — jafnvel þó að það yrði þá ofan á hér á hv. Alþingi að hafa bæði verðbréf og sparifé framtalsskyld.

Það má svo vel vera, að það sé rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að það skorti þarna á hegningarákvæði í sambandi við framtalsskylduna. Ég skal ekki deila um það við hann, og ég geri ráð fyrir því, að hann hafi þar kannske lög að mæla, og eftir stæði þá það sem sagt, að þetta ákvæði væri án þess að ljóst væri, hvort við því væru stór viðurlög. En sé svo, sem ég ætla ekki að svo stöddu að vefengja, þá yrði það auðvitað opið mál strax eftir samþykkt till. minnar að koma slíku viðurlagaákvæði inn í skattalög. En ég tel þau alls ekki eiga heima í sambandi við þetta lagafrv., heldur ættu þá heima í skattalögum, og það sé ákaflega óeðlilegt, einmitt eins og hér er gert, að koma þannig með skattalagaleg nýmæli í sambandi við útgáfu á sérstökum skuldabréfalánum, sem er þó ekki stórvægilegri en hér er um að ræða. Ég held þess vegna, að ásakanir hans til mín út af þessari till. hitti þá frekar fyrir, sem að þessu frv. hafa staðið.