18.12.1964
Neðri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

52. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed., en var flutt þar sem eitt af tveimur fylgifrv. með frv. til laga um laun hreppstjóra. En eins og fram kemur í aths., er ákvæði um stefnuvotta að finna í l. um laun hreppstjóra og aukatekjur með fleiru, en þegar verið var að endurskoða hreppstjóralaunin, þá varð úr að semja nýtt frv. til laga um hreppstjóra. Það hefur ekki enn þá komið frá Ed., en eins og ég sagði áðan, er þetta í raun og veru þáttur af því máli, og þegar kemur til endanlegrar afgreiðslu þessa máls hér, verður að hafa hliðsjón af því, að það er að sjálfsögðu ekki eðlilegt, að það nái fram að ganga, nema hitt frv. verði samþ. hér, þegar þar að kemur, um hreppstjórana. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að skýra málið frekar, en legg til, að að þessari umr. lokinni verði því vísað til 2. umr. og allshn.