19.10.1964
Neðri deild: 3. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

3. mál, launaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr. og ræða um það frv., sem hér liggur fyrir, frv, um launaskatt, sem er staðfesting á brbl., sem gefin voru út s.l. sumar, eftir að samkomulag hafði tekizt milli atvinnurekenda og launþega fyrir atbeina ríkisstj.

Þetta frv. er samkomulagsmál til þess að afla tekna, eins og kunnugt er. Ég hlustaði ekki nema að litlu leyti á ræðu hv. 1. þm. Austf. Meðan ég var í sæti mínu, heyrði ég, að hann var að tala um, eins og rétt er, að með þessu frv. er skatturinn lagður á fyrirtækin. Hér væri ólíku saman að jafna, sagði hann, og því, þegar bændur eru látnir borga af sínum launum 1% gjald til þess að byggja upp stofnlánadeildina. Ég hafði nú haldið, að hv. 1. þm. Austf. hefði lært það mikið í sambandi við lög um stofnlánadeildina og umr., sem fram hafa farið um það mál að undanförnu, að hann hefði nú áttað sig á því, að það eru ekki bændur einir, sem greiða gjald til stofnlánadeildarinnar í því skyni að byggja hana upp. Bændur greiða 1% gjald af búvöruverðinu, því verði, sem þeir fá, en launþegarnir greiða 0.75% gjald af heildsöluverði, sem getur verið allt að 0.9%, miðað við það verð, sem bændurnir fá. M.ö.o.: launþegarnir greiða til stofnlánadeildarinnar hér um bil jafnmikið og bændur, og launþegarnir greiða þetta af sínum launum. Það er rétt, það er dálítið óvenjuleg aðferð höfð við það að afla stofnlánadeild landbúnaðarins tekna. Hún er dálítið óeðlileg að því leyti, að það eru lagðar byrðar á alla landsmenn með þeim lögum til þess að afla fjár landbúnaðinum til handa. Það hefur ekki verið gert áður. En maður hefði ekki átt von á því af þeim, sem öðrum þræði teljá sig frekar málsvara landbúnaðarins, að þeir væru að finna að því að byggja lánastofnun landbúnaðarins upp með þeim hætti, að byrðarnar væru lagðar á launþegana og ekki síður en bændur í því skyni. Stofnlánadeild landbúnaðarins er byggð upp með því, að ríkissjóður leggur henni árlega fé, að bændur leggja henni árlega nokkurt fé og launþegarnir, um leið og þeir kaupa vöruna í búðunum, leggja henni einnig nokkurt fé. Og einmitt vegna þess, að stofnlánadeildin fær tekjur árlega með þessum hætti, má vænta þess, að hún geti orðið öflug lyftistöng fyrir landbúnaðinn, þegar fram í sækir.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi enn einu sinni taka fram, og það er leiðinlegt, að þessi hv. þm. skuli ekki enn hafa áttað sig á því, að einmitt þessi leið til uppbyggingar stofnlánadeildar landbúnaðarins er nauðsynleg. Hún er nauðsynleg fyrir bændur. Og það er illt verk, sem er unnið með því að vera að reyna að rífa þetta niður. Það er skoðun mín, að þeim bændum fari fækkandi, sem hafa ekki gert sér grein fyrir því, að þetta er ekki góðverk.

Hv. þm. var að tala um, að það, sem gerðist í sumar með samkomulaginu, þegar ákveðið var að lækka vexti íbúðarlána og hækka lán til íbúða í kaupstöðum og kauptúnum, gæfi tilefni til þess, að það ætti að lækka vexti til landbúnaðarins og þá náttúrlega líka að álíti þessa þm. að taka upp vísitölubindingu á lánunum, því að úr því að hann vill hafa þetta mál til fyrirmyndar og segir, að í tilefni af því beri að lækka vexti til landbúnaðarins, verður hann að hafa það að einu og öllu til fyrirmyndar, um leið og hann leggur þessa kröfu fram. En það er gott að vita það, að það er stefna þessa hv. þm. að taka vísitölulán til landbúnaðarins og lækka vextina nokkuð gegn því, að það verði gert. Ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt bændur fái nú 150 þús. kr. lán, þegar þeir byggja íbúðarhús, og flestallir 60 þús. kr. styrk að auki og lánin séu til 40 ára og vextirnir 6%, þá sé æskilegt og það sé nauðsynlegt að hækka þessi lán nokkuð þegar á næsta ári, um leið og hækkun íbúðarlána í kaupstöðum og kauptúnum tekur gildi. En ég er ekki viss um það, að bændurnir, um leið og þeir óska eftir hækkun þessara lána, óski þeir einnig eftir því, að þau verði vísitölutryggð, eins og hv. 1. þm. Austf. gaf í skyn áðan með kröfunni um það, að vextirnir væru lækkaðir. Og þá á þetta náttúrlega ekki að hans álíti eingöngu við um íbúðarlánin, heldur önnur lán til landbúnaðarins.

Það var aðeins þetta, sem ég vil ekki láta vera ómótmælt í þingtíðindum eða annars staðar, þessi misskilningur, sem hv. þm. virtist enn vera haldinn í sambandi við stofnlánadeild landbúnaðarins og að mörgu leyti um landbúnaðinn almennt talað, þegar hann tekur sér það fyrir hendur að ræða um hans mál.