02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

3. mál, launaskattur

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég hef í samræmi við afstöðu Framsfl. til þessa frv. skrifað undir nál., en þó áskildi ég mér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Hið sama hefur hv. 4. þm. Reykn. einnig gert, og flytur hann með mér brtt. á þskj. 232, en brtt er. við 2. gr. frv., að við gr. bætist, eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Laun greidd starfsfólki mjólkurbúa og sláturhúsa.“

Eins og kunnugt er, greiða bændur skatt, 1%, af söluvörum búa sinna til stofnlánadeildar landbúnaðarins, en það jafngildir um 2% af þeirra launatekjum. Verðið fyrir söluvörur búanna, sem bændurnir fá í eigin hendur, er sá hluti vöruverðsins, sem eftir er, þegar búið er að borga öll vinnulaun og annan rekstrarkostnað, t.d. í mjólkurbúum og sláturhúsum. Ef bændur eiga líka að borga launaskatt þann, sem með þessum lögum er á lagður, eru þeir að dómi okkar flm. látnir bera þyngri byrðar en a.m.k. flestir aðrir atvinnurekendur, nema því aðeins að tekið sé tillit til hins nýja launaskatts við ákvörðun útsöluverðs landbúnaðarvaranna, þegar verðlagsnefndin úrskurðar það.

Ég spurði formann Stéttarsambands bænda, sem á sæti í sex manna nefnd þeirri, sem fjallar um verðlagsmál landbúnaðarvaranna, hvort tekið hafi verið tillit til launaskattsins á s.l. sumri, þegar verð þeirra vara var ákveðið, en þá höfðu brbl. gilt 2—3 mánuði: Hann tjáði mér, að fulltrúar bænda í n. hefðu farið fram á, að það yrði tekið tillit til þessa launaskatts í útsöluverði varanna, en það varð ekki samkomulag um, að þetta yrði gert. Þess vegna lít ég svo á, að vegna þessa launaskatts verði bændur að borga eða verði af, réttara sagt, nokkrum hluta þeirra tekna, sem þeir annars hefðu fengið og ættu að fá, og okkur fim. þessarar brtt. sýnist, að með brbl. séu þá ranglega af þeim teknar þær tekjur. Meiri hl. heilbr: og félmn. vildi ekki fallast á okkar sjónarmið í þessu máli, eins og hv. frsm. n. gat hér um áðan. Það reynir þess vegna nú á það hér í þessari hv. d., þegar brtt. okkar kemur til atkv., hvort þeir hv. þdm. eru í meiri hl., sem vilja bera ábyrgð á því, að bændur borgi bæði 1% af söluvörum búa sinna í stofnlánadeild landbúnaðarins, sem jafngildir 2% af þeirra kaupi, og síðan einnig 1% af greiddum vinnulaunum í mjólkurbúum og sláturhúsum, en þessar stofnanir, eins og kunnugt er, vinna úr vörum búanna og koma þeim á markaðinn.

Ég þykist hafa með þessum fáu orðum, gert grein fyrir skoðun okkar flm. þessarar brtt. og ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni.