02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

3. mál, launaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að blanda mér í umr. um þetta mál, því að það er rétt, sem sagt hefur verið, að frv. er byggt á samkomulagi, sem gert var í júnímánuði s.l., og þess vegna ekki rétt að breyta efni frv. En ég tel eðlilegt og sjálfsagt að leiðrétta þann misskilning, sem kom hér fram hjá hv. 2. þm. Sunnl., þegar hann sagði, að það væri ætlazt til þess, að bændur greiddu launaskatt samkv. þessu frv. ofan á það gjald, sem þeir greiða til stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þetta er algerlega á misskilningi byggt. Ég hef rætt þetta mál við framleiðsluráð landbúnaðarins, og ef sláturhús og mjólkurbú verða krafin um þetta gjald, þá er það vitanlega innifalið í dreifingar- og vinnslukostnaði vörunnar. Bændur greiða gjald til stofnlánadeildarinnar til framkvæmda í landbúnaðinum, og þess vegna er það, að frv. er úr garði gert eins og það er. Hv. þm. hefur flutt brtt. á þskj. 222 ásamt öðrum hv. þm. Við því er ekkert að segja. En ég vildi aðeins leyfa mér að leiðrétta þau ummæli, sem hv. fyrri flm. flutti hér áðan, og auðheyrt er, að till. er á misskilningi byggð.