02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

3. mál, launaskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur verið tekið fram, er þetta frv. að höfuðefni byggt á júnísamkomulaginu eða til staðfestingar á júnísamkomulaginu, einum þætti þess, þ.e.a.s. fjáröflun til húsnæðismálanna.

Ég held, að frá sjónarmiði okkar, sem stóðum að júnísamkomulaginu fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar, sé ekki annað um þetta frv. að segja en að það sé í öllum höfuðatriðum samkvæmt samkomulaginu, eins og það var gert. Að vísu var það ekki ýtarlegt, engin nákvæm útfærsla á þessu atriði, heldur einvörðungu það, að aflað skyldi fjár til húsnæðismálanna m.a. á þann hátt, sem fjallað er um í þessu frv.

Það eru þrjú atriði, sem komið hafa fram í þessum umræðum, sem ég vildi aðeins örlítið ræða. Það er í fyrsta lagi það, sem frsm. n. gat um varðandi vörubílstjórana. Ég er þar alveg sammála hv. 5. þm. Vestf., að það beri ekki í þessu tilliti að líta á vörubílstjórana sem atvinnurekendur. Það er staðreynd, að þeir selja sína vinnu ákveðnum atvinnurekendum. Það er nokkuð annað en það, sem hæstv. ráðh. kom aðeins að hér áðan. Þeir, sem hafa sjálfstæðan atvinnurekstur, selja vöru sína, tilbúna vöru, eða taka að sér einhver ákveðin verk eða þess háttar. Með þá verður náttúrlega að fara sem atvinnurekendur, enda þótt hægt væri að rekja það, hverjum þeir selja hverju sinni. Ég held, að það gegni hér allt öðru máli um vörubílstjórana og það væri rétt að athuga það mál nánar, áður en þetta verður endanlega afgreitt.

Þá liggja hér fyrir tvær brtt. Önnur varðandi greiðslu útgerðarmanna, þar sem lagt er til, að greiðslur þeirra miðist við kauptryggingu, en ekki við aflahlutinn. Ég verð að segja, að ég sé ekki ástæðu til, að greiðsla útgerðarmanna miðist við kauptrygginguna frekar en aflahlutinn. Grundvallaratriðið í samkomulaginu er það, að einn og hinn sami skattur sé greiddur af öllum launum, og því ætti í þessum atvinnuvegi að greiða annan skatt en gert er í öðrum greinum? Ég fæ ekki séð, að það séu nein rök fyrir því út af fyrir sig. Hitt er svo annað mál, að atvinnugreinar geta verið misjafnlega á vegi staddar til að standa undir þessum gjöldum sem öðrum, en ég vildi þá meina, að það væri annað mál út af fyrir sig að fara að ræða það.

Svo er önnur brtt. Hún er um, að af starfsfólki mjólkurbúa og vinnslustöðva landbúnaðarins sé ekki greiddur þessi skattur. Ég er alveg fullkomlega sammála þeirri skilgreiningu, sem hæstv. landbrh. gaf hér áðan á því, hvers vegna skatturinn tekur ekki til bændanna. En þar með er ekki sagt, að hann eigi ekki að taka til þessa atvinnurekstrar í bæjunum, sem rekinn er til þess að vinna úr landbúnaðarvörunum. Mér kemur það spánskt fyrir sjónir eða eyru, þegar hv. 2. þm. Sunnl. fullyrti hér áðan, að það lægi fyrir neitun á því varðandi verðlagningu landbúnaðarvara í sex manna nefnd að taka tillit til launaskattsins. Ég á sæti í þessari nefnd, og mig rekur ekki minni til, að þetta mál hafi sérstaklega borið á góma þar eða verið bornar fram sérstakar kröfur um varðandi launaskattinn. Að sjálfsögðu kemur launaskatturinn á margan hátt aftur til þeirra, sem eiga að njóta hans, þ.e.a.s. neytendanna, og ég reikna með, að á þessu sviði sem mörgum öðrum mundum við raunverulega fá að greiða hann. Varðandi mjólkurbúin og aðrar vinnslustöðvar landbúnaðarins er alltaf tekið tillit til afkomu þeirra hverju sinni við verðlagningu. Menn eru náttúrlega ekki alltaf sammála um, hve mikið þær þurfi til þess að standa undir kostnaði, rekstrarkostnaði, en allir eru sammála um það, að umsamið verð, sem bændurnir eiga að fá, eigi þeir að fá og vinnslustöðvarnar verði að geta greitt þeim þetta verð. Ég hef aldrei heyrt aðrar raddir í sex manna nefnd eða á öðrum stöðum, þar sem fjallað hefur verið um þessi mál. Sem sagt, ég kannast ekki við þá fullyrðingu, sem hv. 2. þm. Sunnl. hafði hér eftir formanni Stéttarsambandsins, sem, eins og hann sagði, á sæti í sex manna nefndinni.

Það mætti ýmislegt um þetta segja. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. En hér var í víðtæku samkomulagi varðandi kaup og kjör launafólksins einnig samið um úrlausnir á öðrum sviðum, þar sem um er að ræða húsnæðismálin. Það má sjálfsagt, bæði af okkar hálfu, sem fyrir verkalýðshreyfinguna höfum forsvar, og eins sjálfsagt af hinum einnig, mjög um það deila, hve langt á að ganga í þessu efni. Persónulega hefði ég haldið, að það væri frekar verksvið löggjafans að búa þessi mál svo í haginn, að það þyrfti ekki hverju sinni í vinnudeilum að vera að gera slíka samninga eins og þessa. Og það er engan veginn fyrir það að synja, að auðvitað þrengja svona samningar þá möguleika, sem verkalýðshreyfingin annars máske hefði til þess, að hið beina kaup hækkaði eitthvað meira. Það er enginn vafi á því, að launaskatturinn m.a. og slík afgreiðsla mála hefur áhrif á önnur atriði, sem verið er að semja um, auðvitað þau veigamestu, sem eru kaupgjaldið sjálft.