02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

3. mál, launaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. getur náttúrlega svarað fyrir sig. En ég vil vekja athygli á því, að hv. fyrri flm. þessarar till. hefur algerlega misskilið hann hér áðan, þar sem hv. 3. landsk. sagði greinilega, að því hefði aldrei verið neitað í sex manna nefnd að taka tillit til skattsins. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að formaður Stéttarsambands bænda fari með rangt mál frekar en hv. 3. landsk. Ég ætla ekki heldur að halda því fram, að hv. 2. þm. Sunnl. fari vísvitandi skakkt með málið, heldur hlýtur hér enn að vera um leiðan misskilning að ræða, og ég vil leggja áherzlu á það og taka mark á því, sem hv. 3. landsk. þm. sagði hér áðan, að í sex manna nefnd væri leitazt við að láta af hendi þann dreifingarkostnað, sem vinnslustöðvunum nægði til þess að bændur gætu fengið sex manna nefndar verðið, grundvallarverðið, og þetta hefur oft tekizt, og ég vil leggja ákaflega mikið upp úr þessum vilja frá hendi neytenda og einmitt því samkomulagi, sem var gert á s.l. hausti í sex manna nefnd. Og þegar hv. 3. landsk. segir, að þessu hafi ekki verið hafnað, vil ég taka mark á því og fagna því, að frá hans hendi og ég vænti hinna fulltrúanna í n. sé þarna glöggur skilningur.