04.02.1965
Neðri deild: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

3. mál, launaskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um það smávægilega ágreiningsatriði, sem rætt var hér við 2. umr. þessa máls, varðandi það atriði, hvort rétt væri samkvæmt niðurstöðum samkomulags, sem gert var í júní s.l. milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna og vinnuveitendasamtakanna að taka launaskatt af vörubifreiðastjórum. Ég gerði grein fyrir þeirri skoðun minni í gær, að ég teldi þetta ekki réttmætt, teldi, að launaskattinn ætti að taka af þeim atvinnurekanda, sem vörubifreiðastjórinn ynni hjá, því að vörubifreiðastjórinn gerði með þeim viðskiptum þetta, að selja sína eigin vinnu, eins og hver verkamaður gerir, en eigi annarra vinnu, og leigði jafnframt tæki, sem hann hefði, til að inna hið umsamda starf af hendi. Hann væri því greinilega launþegi, en ekki atvinnurekandi. Þessa skoðun styður líka það, að það hefur áður verið úrskurðað, að vörubifreiðastjórar skuli ekki greiða söluskatt af þeim viðskiptum, sem þeir reka. En það, sem mér finnst skera úr, er það, hvort um sé að ræða heildarupphæð fyrir vinnu bílstjórans og tækisins og þar sé ekki auðvelt að greina á milli, þessi upphæð sé ein og óskiptileg í viðskiptunum.

Ef hún væri það, játa ég, að það væri nokkrum erfiðleikum bundið að finna út, hvert væri kaup starfsmannsins, bílstjórans. En nú er þetta ekki svo, þetta skapar engin vandkvæði, því að í samningi milli vörubílstjórafélagsins Þróttar í Reykjavík og Vinnuveitendasambands Íslands segir í 10. gr.:

„Af leigugjaldi fyrir bifreiðar, því er um ræðir í 1. gr., eru kr. 24.99 reiknaðar sem kaup bifreiðastjóra í dagvinnu, og er orlofið þar innifalið. Fyrir eftirvinnu greiðist kaup bifreiðastjóra með 50% álagi og nætur- og helgidagavinnu með 100% álagi.“

Síðan segir enn fremur:

„Kaup bifreiðastjóra skal á hverjum tíma breytast í réttu hlutfalli við breytingar á kaupi bifreiðastjóra samkv. Dagsbrúnarsamningi.“

Þetta finnst mér skera alveg úr um það, að hér er um hreinan launþega að ræða, nákvæmlega með sömu stöðu gagnvart atvinnurekanda eins og hver annar verkamaður, og það finnst mér skera úr um það, að ekki nái nokkurri átt að heimta af honum launaskatt. Allt annað er með fólksbifreiðastjórann, sem hefur engan stéttarfélagssamning um framkvæmd sinnar vinnu, og undir ákvæði í lögunum um mann, sem rekur eigin atvinnurekstur, þar eigi að áætla hans vinnu og leggja launaskattinn á hina áætluðu upphæð, sem ætla mætti að honum yrði greidd, ef hann væri í þjónustu annarra. Hér þarf ekkert slíkt að áætla, því að kaup vörubifreiðastjórans er ákveðið upp á krónu og aura og sagt, hvernig það eigi að breytast, ef bílstjórakaup samkv. Dagsbrúnarsamningi breytist, þannig að það liggur ávallt fyrir, hvert kaup þessa daglaunamanns skuli vera. En það er ástæðulaust að deila um þetta nú, því að ég hef rætt þetta við félmrh. og hann hefur fallizt á, að meðan þetta væri athugað nánar, væri meðferð málsins frestað. Og ég mælist til þess við hæstv. forseta, og það er í samráði við hæstv. ráðh.