04.02.1965
Neðri deild: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

3. mál, launaskattur

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég leyfði mér að flytja brtt. ásamt 4. þm. Reykn., en ég var ekki við á mánudaginn v ar, þegar sú till. var til umr., og hún var felld, svo að ég kom með aðra, sem nær raunar skemmra og nær aðeins til þess atriðis, að það sé ekki greiddur launaskattur af kaupi skráðra sjómanna á fiskiskipum, sem eru innan við 100 tonn.

Ástæðan fyrir því, að við flytjum þessa till., er í aðalatriðum þrenns konar. Í fyrsta lagi álít ég þetta ósanngjarnan skatt á kaup sjómanna. Í öðru lagi tel ég óviturlegt að leggja þennan skatt á kaup sjómanna. Og í þriðja lagi álít ég, að hægt sé að fara aðrar leiðir til að leysa það vandamál að lána þeim, sem byggja hús, þessa fjárhæð með þeim vöxtum, sem um er talað, það ætti að fara aðra leið en að skattleggja atvinnuvegina á þennan hátt. Ég veit, að ríkisstj. heldur því fram, að það hafi verið um þetta samið og þess vegna sé engu hægt að breyta. Mér hefur aldrei dottið það í hug, að ekki yrði staðið við þann samning, sem snýr að húsbyggjendum, hvað snertir vexti og lánsfjárupphæðina, — aldrei hugkvæmzt það. En hitt gefur auga leið, að þeim, sem að samningunum stóðu fyrir hönd launþega, er alveg sama, það er ekkert betra fyrir þá, að þetta sé tekið af útgerðinni heldur en á einhvern annan hátt, heldur einmitt það gagnstæða. Við vitum, að það er útgerðin, það eru útflutningsafurðirnar, sem hindra það fyrst og fremst, að hægt sé að hækka kaupið í landinu. Iðnaðarmennirnir leggja kauphækkunina á iðnaðarvöruna, og henni er dreift um landið og fólkið borgar. Verzlunin leggur það á vörurnar, sem fólkið kaupir líka. Ríkið leggur það á skattþegnana. En það er útgerðin, það eru réttara sagt útflutningsatvinnuvegirnir, sem hindra það, að hægt sé að borga nema ákveðna upphæð í kaup. Og þetta vita þeir, sem samið hafa fyrir hönd launþeganna. Það er alltaf það, sem strandar á, aðalútflutningsatvinnuvegurinn lýsir því yfir, að það sé ekki hægt að borga meira. Það getur því ekki verið neitt áhugamál fyrir fulltrúa launþega, að þrengt sé að þessum atvinnuvegi. En það er ekki nema sjálfsagt að standa við þá samninga, sem gerðir voru, og ég vil engan veginn vera að gera lítið út verkum þeirra manna, sem unnu að því að leysa þessi mál í vor, hvorki ríkisstj. né þeirra, sem unnu að því fyrir hönd launþeganna, það er fjarri mér.

Árið 1960 voru vextirnir hækkaðir, eins og þið vitið, af föstum lánum í fiskveiðasjóði úr 4% og upp í 6 1/2%. Það er nálægt 60%, sem vextirnir hækkuðu um. Aðrir vextir voru hækkaðir eitthvað hlutfallslega. Nú er búið að lækka aðra vexti um 3%, en það hefur ekkert verið lækkað af föstum lánum í fiskveiðasjóði og ekki heldur af bændalánunum, og ég verð að segja, að mér finnst þetta ekki rétt og ekki sanngjarnt, ef aðrir vextir eru lækkaðir, að lækka ekki þessa vexti, og þó að þetta séu samningsbundnar skuldir, færi enginn að telja það samningsrof, þótt vextirnir væru lækkaðir.

Ég hef alltaf viljað þessari ríkisstj. vel, — enda vil ég öllum vel, því að það er enginn neitt fyrir mér í lífinu, og ég þarf ekki að vera gramur við einn eða neinn, — og ég réð henni heilræði 1960 og það var að fella gengið minna og hækka vextina minna, og ef hún hefði farið eftir þessu, þætti öllum vænt um stjórnina í þessu landi og þeir stæðu mjög vel að vígi, í staðinn fyrir að hleypa þessari verðhækkunaröldu af stað, sem vextirnir voru valdir að og þessi mikla gengislækkun, sem var aftur endurtekin eða aukin 1961. Þetta hefur valdið verðhækkunum, og þetta hefur valdið því, að fólkið þurfti að fá hærra kaup, og þetta hefur verið undirstaðan undir allri þessari miklu þenslu. En ef ríkisstj. hefði nú bremsað hvað gengið snerti og ekkert hækkað vextina, hefðu kröfur fólksins orðið miklu minni. Þið hélduð, að ég væri flón, þegar ég kom þá inn í þingið, sem kannske var nú von, en þá var ég bara vitrari en ég er nú, því að

ég er heimskari, ef ég er ekki í hinu lifandi starfi. Þá var ég búinn að fást við verzlun og búskap og útgerð og var inni í hlutunum. En hér má maður vara sig á því að heimskast ekki. En stjórnin vildi ekki fara eftir þessu. Það var fjármálalegt met, sem þessir hagfræðingar okkar gerðu. Þeir réðu mestu þá, því að ríkisstj. var þá að byrja og hafði ekki eins mikið sjálfstraust og hún hefur nú, en ég hef grun um það, að hún sé óþægari við hagfræðingana nú en þá. Ég las það í jólafríinu mínu, að Brahe, mikill stjörnufræðingur danskur, sagði um ríkisráð kóngsins, þegar Kristján IV var kóngur, að þeir hefðu vitsmunina í munninum, en ekki í höfðinu, og eiginlega hefur mér dottið það í hug í sambandi við þessa blessaða hagfræðinga frá 1960, að þeir hafi verið snjallari að orða hlutina, skrifa og tala, heldur en að hugsa af viti. Það er algert met að gera hvort tveggja í einu að lækka gengið jafnmikið og gert var og hækka vextina, því að það verkar hvað á móti öðru. Og hvaða gagn hefur orðið af þessari blessaðri vaxtahækkun? Hún á að vera til þess að auka sparifjársöfnun og hindra, að fólkið biðji um lán. En það hefur aldrei verið beðið meira og ákafar um lán en síðan þetta var gert, af því að fólkið þurfti fleiri krónur, þegar búið var að auka þensluna svona. Það gefur auga leið. Þetta gerir engin þjóð, sem hefur fjármálavit, að gera þetta tvennt í einu, því að vaxtahækkunin á að vera til þess að tryggja gengið, gera hverja krónu verðmeiri. En þegar þetta er gert svona, þá er það eins og ef menn ætla að draga hest upp í dýi og annar togar í faxið, en hinn togar í hina áttina í taglið. Þetta er fjármálavitleysa.

En það er mikil ánægja fyrir mig, að nú er ríkisstj. farin að tala alveg á sömu nótum og ég gerði 1961 í gengismálinu, og ég gleðst sannarlega yfir hennar fjármálaþroska og vona, að hann eigi eftir að aukast frekar en hitt, og er ég henni algerlega sammála um það, þegar þeir eru að halda ræður um, hve áríðandi það er að treysta gengið. Þeir eru líka búnir að lækka vextina um 3% af víxlum, og ég vil bara, að þetta komi á samningsbundnu skuldirnar líka, og ef þeir gerðu það með lán til húsbygginga, þá þyrftu þeir ekki svona mikið fé til þess að borga þennan vaxtamismun. Mér finnst ekki sanngjarnt gagnvart okkur, sem erum nú að basla við að gera út báta; að hækka vexti af lánum um 60%, upp í 6 1/2 úr 4, og í ofanálag að fara að láta okkur borga vexti fyrir þá, sem byggja hús, borga niður vexti fyrir þá, sem sagt að borga niður vitleysuna, sem þeir gerðu 1960. Það er nóg að greiða einfaldlega fyrir þessar vitleysur þeirra, þótt maður þurfi ekki að greiða þetta tvöfalt. Það eru nefnilega engar smáupphæðir, sem við verðum að greiða. Ég efast um, að margir hafi gert sér það ljóst, hve mikið að þessu kemur á útgerðina. Það er meira en það, sem greitt er af kaupi sjómannanna, það eru fiskvinnslustöðvarnar líka, og það er ámóta upphæð. Það er svipuð upphæð, sem fer í það að ganga frá fiskinum, eins og fer til sjómannanna í kaup. Og svo er það vélaviðgerðaverkstæðin, nótaviðgerðarverkstæðin og öll þessi blessuð verkstæði, og þau munu ekki gleyma að reikna okkur þetta og jafnvel reikna ríflega heldur en hitt, ef ég þekki þá rétt, þannig að þetta er óhætt að margfalda með 2 1/2. Og þegar blessað orlofið kemur ofan á þetta líka, svarar það til 5% kauphækkunar.

Einn af stórútgerðarmönnum var að segja mér það, — hann heitir Baldur og er Guðmundsson, hann bað mig ekkert fyrir það, og það er því ekkert leyndarmál, — hann sagði mér, að þetta 1% svaraði til 85 þús. af nýja bátnum sínum, sem hann gerir sennilega ráð fyrir að fiski fyrir 17 millj., og þá er kaup sjómannanna allt að 8 1/2 millj., — þetta 1% svaraði 85 þús. Þið vitið, að það, sem fiskvinnslustöðvarnar þurfa að greiða, hlýtur að koma á hráefnið, og eins það, sem vélaverkstæði og nótaviðgerðarverkstæði og öll þjónustustarfsemi þarf að greiða, það kemur allt á hráefnið. Það er óhætt að margfalda þetta með 5, og þá þarf Baldur Guðmundsson að borga 425 þús. yfir árið beint og óbeint í orlof og launaskatt.

Nú voru útgerðarmenn ekkert að biðja um að semja fyrir sína hönd í vor. Það var ekkert samið fyrir þeirra hönd, hreinlega ekki, enda samningum sagt upp og verkfall hefur verið hjá sjómönnum nú. Og svo kemur stór kauphækkun. Nú hækka hlutaskiptin, þannig að það svarar til 5% á línubáta, á þorsknótabáta svarar það til u. þ. b. 20%, miðað við, að það verði gert upp með sömu kjörum og á línu í fyrra, og sú kauphækkun kemur líka, þannig að þessi kauphækkun svarar til 10—12—14% af útgerðinni, þegar þetta er allt lagt saman. Og þarna er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Við skulum taka litlu bátana, sem greiða ca. 2 millj. í vinnulaun. Það eru 20 þús., þetta 1%, og margfaldað með 5, eins og má gera ráð fyrir, er það um 100 þús. Nú væri þetta allt í lagi, ef þetta væru einhverjir auðmenn, sem þarna stæðu að, sem gætu vel staðið í skilum og allt væri í góðu lagi hjá þeim. Ég var í fiskveiðasjóði í morgun, og það er óborgað þar í vexti og afborganir hjá skipaflotanum um 120 millj. kr., og af því er helmingurinn eða liðlega það hjá bátum innan við 100 tonn. Þannig eru nú ástæðurnar og þetta hefur aukizt um 30 millj. á þessu ári. Ég dreg mjög í efa, að menn yfirleitt dragi að borga, ef þeir geta borgað.

Það er fleira, sem þrengir að og einkum hjá bátum innan við 100 tonn, og það er hreint ekki úr vegi að minnast á það. Ég hef oft talað um þetta bæði hér í þinginu og einslega við þá menn, sem forráð hafa í sjávarútvegsmálunum. Það eru t.d. tryggingamálin. Ég hef oft minnzt á þau hér. Það er frjáls trygging á bátum yfir 100 tonn, en skyldutrygging á hinum. Ég hef með báta að gera, sem bæði eru yfir 100 tonn og undir, og þess vegna veit ég ósköp vel um muninn. Sé bátur yfir 100 tonn, er hann í raun og veru kaskótryggður. Það eru borgaðar viðgerðir á öllum tækjum og öllu, sem bilar. Ef hann er undir 100 tonnum, er sáralítið borgað, nema alveg bein tjón. Ég hef fengið á s.l. ári upp undir 400 þús. kr. bara fyrir bilanir og viðgerðir á stærri bátinn, en árlega hef ég orðið að borga af minni bátnum frá 200 og upp í 300 þús. í viðgerðir, og hef fengið í 6 ár, ekki talið með árið 1964, einar 60 þús. bættar úr Samábyrgðinni. Þannig eru þessi misjöfnu tryggingarkjör, og ég hygg, að það sé ekki gert of mikið úr því, á bátum milli 40 og 100 tonn, þótt það séu að meðaltali 200—250 þús. á ári, og þetta nær engri átt. Tryggingagjöldin eru greidd af sameiginlegum sjóði óbeint eða tekin af útflutningsverðinu.

Það er margt, sem þrengir að hjá bátum af þessari stærð, það vita þeir, sem að þessum hlutum standa. Annað óréttlátt atriði er með aflatryggingasjóð. Landinu er skipt í svæði, og það er tekið meðaltal, og ef veiðist illa og mikill munur er á veiði, eins og er hér á landi, Norðurlandið hefur farið verst út úr því undanfarið, þá er miðað við 5 ára meðaltal, þannig að þetta fer sílækkandi og er sama og ekkert, sem þeir fá úr sjóðnum. Einn aðalútgerðarmaðurinn á Ólafsfirði sagði mér það, að hann sagðist hafa fengið á bát sem hann gerði út í fyrra heima, 50 þús. kr. úr hlutatryggingasjóði, en ef hann hefði gert út í Sandgerði, hefði hann fengið 250 þús. Og sömu sögu get ég sagt um bát, sem ég á dálítið í og var gerður út hér fyrir sunnan í fyrra og fékk 100 þús. kr., lítill bátur, en fékk aldrei nema 20—30 þús. fyrir norðan með svipaðri veiði. Það er gersamlega útilokað að hafa þetta svona áfram. Það er ekki hægt að gera út bátana á þennan hátt.

Nú gæti skeð, að einhverjir segðu: Það er ekki rétt að vera að gera þessa báta út, fyrst þeir bera sig verr en önnur skip. — En þá vil ég bara benda á það, að stóru skipin eru aðallega miðuð við síldveiðar, en við eigum síldina ekki alltaf vísa. Og það eru fyrst og fremst þessi skip, minni bátarnir, sem halda við atvinnulífinu í sjávarþorpunum víðs vegar í kringum landið. Og ég tel, að það sé dálítið vafasamt að íþyngja þessum bátum með útgjöldum og óhagstæðum tryggingagjöldum, vitlausum reglum um aflatryggingasjóð, þannig að það sé mögulegt að gera þá út, því að það eru fyrst og fremst þessi skip, sem skapa hina jöfnu atvinnu, og ég held, að það sé dálítið vafasamt að fleygja íleiri milljónum í togara, sem sigla með allan fiskinn eða megnið af honum og veita tiltölulega litla vinnu í landinu, en gera þessum tækjum ómögulegt að starfa, bæði fyrir óhagstæða löggjöf og of mikla skatta, sem eru aðalatvinnuveitendurnir eða skapa aðalatvinnuna í sjávarþorpunum og þar að auki framleiða langbeztu vöruna, sem við framleiðum, þannig að það er ekki sambærilegt. Netafiskurinn er ekki betri en það, að okkur mundi ekki detta í hug að borða hann sjálfir, og sama er að segja um nótafiskinn. En línufiskurinn er sennilega einhver bezta vara, sem er hægt að framleiða, e.t.v. í öllum heiminum, því að það er mjög góður fiskur hér í kringum landið.

Það er fleira viðvíkjandi þessari tryggingalöggjöf, sem er fáránlegt. Það sagði mér einn útgerðarmaður í gær. Hann gerði út bát norður á Sauðárkróki hálft árið eða varla það, en þá var honum sagt, að hann ætti að borga tryggingagjöldin sjálfur, og það nam 87 þús., sem hann átti að borga, þannig að við erum tilneyddir að gera út þessa báta allt árið, þó að það sé gert með stórtapi, til þess að þurfa ekki að borga þessi tryggingagjöld. Bátarnir þurfa að vera 270 daga á veiðum, til þess að það séu borguð tryggingagjöld fyrir þá. Þetta sjá allir, að er fáránlegt, því að úti á landsbyggðinni gæti verið hentugt að gera út báta af vissum stærðum hluta úr árinu, þó að það sé ógerlegt allt árið, þannig að þessu atriði þyrfti líka að breyta. Ég held, að þetta sé hrein ósanngirni og raunar fáránlegur hlutur að fara að leggja þennan blessaða launaskatt á útgerðina, hækka fyrst vextina hjá útgerðarmönnum um 60%, segja þeim svo að borga niður vexti fyrir allt aðra aðila og alveg óskylda aðila. Og þetta nemur nefnilega engri smáupphæð. Þessar ráðstafanir nema eins miklu og 2 1/2% hækkun, sem var gerð á vöxtunum 1960, í flestum tilfellum, þannig að þetta er að tvöfalda hlutina, en í öðru lagi er þetta lagt á óraunhæfar tekjur með því að leggja þetta á útgerðina, því að mjög víða, a.m.k. norðanlands, er það þannig, að bátarnir fiska ekki fyrir tryggingu, línubátarnir, megnið af árinu, þannig að útgerðin þarf að borga af tekjum, sem hún hefur í raun og veru ekki. Og það er engan veginn réttlátt.

Það er ótalmargt, sem veldur því, að aðstaða skipa af þessum stærðum er erfið, og fyrst og fremst það, að stærri skipin hafa tekið betri skipstjórana. Þessi minni skip gætu borið sig ágætlega á síldveiðum, ef þau hefðu góða skipstjóra, því að þau standa flest í tiltölulega litlu verði. En það er ekki því að heilsa. Aflamennirnir fara á stærri skipin og hinir verða að vera með viðvaninga óg það veldur m.a. því, að aðstaðan verður þetta slæm. Þar sem er gert út á línu með tapi og gert út á síldarvertíð með tapi, vinnst það ekki upp, þótt hægt sé að gera út á vertíðina í marz og apríl með hagnaði.

Það hefur verið minnzt á það af sumum aðilum, að það væri rétt að leyfa þessum bátum togveiðar í landhelgi. Ég er ekki fiskifræðingur og skal ekkert fullyrða um það. En satt að segja finnst mér dálítið varhugavert að gera allt of mikið að því að veiða með dragnót eða botnvörpu í landhelgi, þó að það sé útilokað með minni bátana annað en leyfa það, og ég álít, að norðanlands a.m.k. muni í framtíðinni v erða aðalatvinnan í sjávarþorpunum af minni bátum, sem veiða í dragnót að sumrinu og á línu að vetrinum, t.d. 36—40 lesta bátar, og sjómennirnir eigi þá sjálfir. Sú útgerð getur borgað sig.

Nú er það ekki þannig, að við eigum það víst, að síldin hagi sér eins og hún hefur gert, þannig að atvinna í þeim fjórðungum, sem hafa orðið illa úti með síldarafla síðustu tvö árin, þeirra hagur getur orðið betri. Annað það, sem ég er þakklátur ríkisstj. fyrir og mér virtist koma fram í fjárl., er, að það eigi að gera ráðstafanir til þess að flytja síldina miklu meira en gert hefur verið, og ég veit og er sannfærður um, að það yrði mjög hagkvæmt. Við þurfum einungis að hafa hentug skip til þess. Þá er hæl;t bæði að nýta verksmiðjurnar betur en gert hefur verið og nýta vinnuaflið betur í landinu. Ég álít, að sé framtíðarmál að reyna að flytja síldina meira en gert hefur verið, til þess að geta bæði nýtt verksmiðjurnar og vinnuaflið betur og jafnað þannig kjör fólksins.

Ég get bara sagt ykkur sem dæmi upp á afkomu þessara. báta, að síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði gerði út línubáta í fyrra og reiknar tapið af þeim 1200 þús. kr., en telur sig hafa tapað á frystihúsinu ca. 1 millj. og fengið í afskriftir af síldarverksmiðjum og í hagnað um 30 millj. Þið sjáið, hve ranglátt þetta er. Mér finnst það satt að segja, þegar einstaklingar eru að basla við að gera þessa báta út, m.a. til þess að einhver atvinna sé og hægt sé fyrir fólkið að lifa í kauptúnunum, þá sé dálítið hlálegt að ætla að fara að láta þá borga fyrst og fremst sína eigin vaxtahækkun og svo borga niður vexti fyrir aðra. Ég get ekki séð, að það sé sanngjarnt.

Ég get enn fremur ekki séð, að það sé viturlegt að leggja skattabyrðar á útgerð, sem ekki getur staðið í skilum. Menn eru hættir að fara lestaferðir, en það þóttu ekki hyggnir lestamenn, sem þyngdu baggana, ef klárarnir voru komnir að því að leggjast niður undir böggunum. Ég hef ekki heldur nokkra trú á, að þessi skattur verði borgaður. Ég er kunnugur því, að hann verður óvinsæll hjá útgerðarmiönnum og á eftir að verða óvinsælli en hann er nú, þegar þeir eru búnir að hugsa málið og eiga að fara að borga, þegar þeir gera sér grein fyrir, hvað hann verður hár, þegar tillit er tekið til alls. Mér þykir ekki ólíklegt, að af launum sjómanna á fiskiskipaflotanum verði hann 10—12 millj. og ámóta mikið á fiskvinnslustöðvunum, og svo bætist við viðgerðaþjónusta við skipin og frystihúsin og þetta kemur allt á hráefnið. Það sjá allir menn, að þá verður sú upphæð, sem kemur beint á útgerðina, 25—30 millj. kr. eða helmingur heildarskattsins.

Það er þægilegt að koma með einhverjar till. um að létta skatta til þess að koma sér vel við einhvern. En ég er nú ekki á neinum atkvæðaveiðum, og mér finnst satt að segja, að útvegsmenn hafi heldur fáa málsvara hér, ég verð að segja það. Mér finnst það. Það getur skeð, að það gerist í flokksherbergjunum, en hér í ræðustólnum hefur lítið verið bent á erfiðleika þeirra að greiða auknar útgjaldabyrðar. Mér finnst satt að segja alveg nóg að leggja á aðstöðugjald, sem gert er í sveitarfélögunum, á óraunhæfa tekjustofna, því að það er lagt á útgjöldin. Bátar, sem tapa, geta fengið hátt aðstöðugjald. Ég hygg þó, að það sé þannig víða í þessum kauptúnum, að það sé ekki gengið ríkt eftir því, ekki beðið um lögtak á þessa báta, því að fólkinu er ljóst, að afkoma þess er undir því komin, að þessi atvinnutæki séu starfrækt. Ég gæti vel trúað því, að það yrði dráttur á því, að sumir af þessum bátum greiddu þennan launaskatt. Ég geri ráð fyrir, ef ekki verða undanþegnir launaskatti nema bátar innan við 100 tonn, þá yrði þetta ekki gífurlega há upphæð, sennilega ekki yfir 3 millj., ég get ekki fullyrt það, en mér þykir það ólíklegt, og þá er ég sannfærður um, að það verður hægt að fara einhverja aðra leið til að ná því. Ef fyrri till. mín og hv. 4, þm. Reykn. hafði verið samþ., hefði þetta orðið 10—12 millj. Það væri nú sjálfsagt hægt að ná þessu með því að lækka bara um 1% vextina, hina raunverulegu vexti af þessum lánum, lækka almennt vexti af föstum lánum í landinu, og svo er hægt að fara aðrar leiðir.

Eins og ég gat um áðan, virðist ríkisstj. tala fyrir því nú og jafnvel vinna að því, að gengið falli ekki meira, og ef fólkið fær traust á genginu, þá safnast meira sparifé. Það er fyrst og fremst traustið á peninga, sem veldur því, að sparifé safnast. Þegar vextirnir voru hækkaðir, hafði það ekkert að segja, menn reyndu að festa fé í því, sem þeir gátu, og það vissi ríkisstj. Það, sem fyrst og fremst getur komið fólki til að safna sparifé, er, að það hafi traust á því, að verðgildi sparifjárins sé tryggt, en ekki, hvort vextirnir eru prósentunni hærri eða lægri, enda varð það svo s.l. kjörtímabil, að krónan lækkaði um ca. 40% eða ámóta og blessað fólkið fékk í vexti af þessum háu sparifjárvöxtum, þannig að það átti sína peninga í raun og veru vaxtalausa þetta tímabil. Ætli það hefði þá ekki verið betra fyrir það, þótt það hefði fengið 2—3% lægri vexti og verðgildi peninganna hefði haldið sér nokkurn veginn?

En ríkisstj. gat farið allt aðrar leiðir. Ég benti á það áðan, að hækkað orlof og launaskatturinn muni svara beint og óbeint til 5% kauphækkunar, svo er 5% hækkun á kaupi bátasjómanna, þannig að þar hefur útgerðin orðið fyrir sem svarar 10% kauphækkun. Þar að auki eru tekin af henni þessi hagræðingargjöld og þessi 6%, sem greidd voru í fyrra, sem var alls allt að 100 millj. Samanlagt er þetta yfir 200 millj. kr., sem beint og óbeint hefur verið tekið af útgerðinni í ár. Upp í þetta má vera að komi eitthvað aftur. Ég skal ekki fullyrða, hvað ríkisstj. gerir. Það er talað um einhverja 25 aura, sem menn eigi að fá á hvert kg af línufiski. Það segir lítið, ef lítið aflast. Það má segja, að það sé betra en ekki neitt. Ríkisstj. gat leyst þetta án þess að hækka kaupið og á hagkvæmari hátt fyrir sjómennina með því að láta þá hafa meiri persónufrádrátt en þeir hafa nú. Þetta eru menn, sem oft eru fjarri heimilum sinum, og peningar eru ódrjúgir hjá þeim. Fæðið eitt kostar allt að 100 kr. á dag. Þar að auki vitum við það, að þegar menn eru ekki heima hjá sér, þá eyða þeir miklu meira en ef þeir geta verið á sínum eigin heimilum, þannig að það er sanngirni að láta sjómenn hafa meiri persónufrádrátt en þá menn, sem geta aflað sér atvinnu eða stundað sína atvinnu á sínu eigin heimili eða þannig, að þeir séu heima daglega. Sjómenn, sem eru á skipum, sem hafa háan hlut, og eins yfirmenn á skipum, sem hafa miklar tekjur, eru farnir að segja, að það sé ekki til neins að vera að vinna allt árið, þetta sé allt tekið í útgjöld, enda liggur straumurinn frá útgerðinni og beint í ríkissjóðinn og bæjarsjóðina. Með því að lækka skattana á þessum mönnum, — það hefði verið hægt að semja um það við þá, — þá er hægt að fá þá til þess að falla frá hækkuðum kröfum á hendur útgerðarinnar, og þá hefði verið hægt að leysa þetta verkfall undireins. Í stað þess var þessi aðferð ekki reynd. En þessi aðferð er bæði hagkvæmari fyrir sjómenn og yfirmenn á skipunum, og eins er hún hagkvæmari fyrir útgerðina og sanngirnismál þar að auki, því að þegar búið er að taka í bæjarsjóðina og til ríkisins 40—60% af tekjum sjómanna og 15% í þennan sparnaðarbauk, sem ég hef nú raunar ekkert út á að setja og hefði jafnvel verið meira vit í að hækka það eitthvað, þá er ekki orðið ýkjamikið, sem þeir hafa eftir, enda ekki til neins fyrir menn að vinna og vinna og meginið af því tekið í útgjöld.

Annað, sem ríkisstj. hefði getað gert, var að vinna að því að lækka útsvörin. Það er ekki hægt að lækka útsvörin nema með samstarfi milli ríkis og bæja. M.a. er nú greitt til atvinnuleysistryggingasjóðs um 100 millj. á ári, sem fyrirtæki, bæjarsjóðir og ríkissjóður verða að borga, og þar að auki hefur sjóðurinn vexti af 600 millj., þannig að þessi sjóður hlýtur að aukast um allt að 150 millj. kr. á ári. Mér finnst nú, að þessi sjóður gæti hlaupið eitthvað undir bagga með að lána til húsbyggjenda án þess að okra á vöxtum. Það þyrfti þá ekki að vera að pína gjaldþrota báta til þess að borga meira en eigin vaxtahækkanir, heldur vaxtalækkanir fyrir aðra.

Sama má segja um orlofið. Ég minntist á það hér áðan. Það er fáránlegur hlutur að fara að borga mönnum, sem hafa 800—900 þús. kr., 7% orlof á alla þessa summu. En ef einhvern tíma kemst einhver vitleysa inn, fæst enginn til þess að breyta henni, ef á að koma eitthvað pínulítið við vasa einhvers manns, Og það er líka hálfhlægilegt að vera að láta útgerðarmenn borga sjúkrasamlagsgjald fyrir hæst launuðu menn á Íslandi, eins og skinstjórarnir eru og flestir yfirmenn t.d. á síldarflotanum. Það er spaugilegur hlutur. Þetta skiptir kannske ekki öllu máli, en þetta er hlægilegur hlutur. Það var allt í lagi að gera þetta fyrir hásetana, meðan þeir voru lágt launaðir, eins og þeir voru yfirleitt á línuveiðum. Það var ekkert við það að athuga. Ég hef ekkert við það að athuga að borga 7% orlof á venjulegar tekjur. En að borga 7% orlof á margfaldar tekjur og 60% af því fari beint í bæjarsjóðina og ríkissjóðinn, það finnst mér ekki nema til að íþyngja atvinnurekstrinum. Og svo koma fulltrúar launþeganna, heimta af atvinnuvegunum, að þeir borgi hærra kaup, og svo eru svona fáránlegir hlutir í gangi. Ef þeir tækju þetta réttum tökum, þeir sem semja fyrir hönd verkalýðsins, þá ættu þeir að beita sér fyrir því, að það sé borgað orlof á venjuleg árslaun. Það getur verið deiluatriði, hve þau eigi að vera há, hvort það eigi að vera 150, 200 eða 250 rús. Það er sjálfsagt að miða það við sómasamleg laun, og ef útgerðarmenn væru ekki píndir til þess að borga á þessar háu upphæðir, stæðust þeir betur við að borga hásetunum hærra kaup. En hásetunum hefur aldrei veitt af sínu. Þeir hafa ef til vill óþarflega mikið á þeim bátum, sem mest afla, en á línubátum og netabátum hefur þeim ekki veitt af sínu. En svona fáránlega hluti þarf að laga.

Það verður eitthvað að gera í þessum útgerðarmálum viðvíkjandi þeim bátum, sem verri aðstöðuna hafa. Við megum ekki missa þessi atvinnutæki, og það er óskynsamlegt, því að ef síldin bregzt eitt ár, hvar stöndum við þá? Það verður fyrst og fremst að breyta löggjöfinni þannig, að það sé ekki níðzt á þessum bátum, eins og gert er með báta, sem eru í Samábyrgðinni. Það nær ekki nokkurri átt að skylda menn eða báta neðan við 100 tonn til að vátryggja bátinn á einhverjum vissum stað og með kjörum, sem þeir ráða engu um, og svo fá þeir um það bil engar bætur. En ef skipið er 101 tonn, þá eru þeir frjálsir. Auðvitað eiga allar þessar tryggingar að vera frjálsar. Það er það eina, sem vit er í. Og þessu er ekki beitt nema við bátana. Þetta er eitt það allra versta. Það minnsta, sem hægt er að gera til að bæta aðstöðu þessara skipa, er, að þau hafi hliðstæð kjör hvað snertir aflabætur, ef um aflaleysi er að ræða og tryggingar. Það er það minnsta. Og í öðru lagi er það lágmarkskrafa, að það sé ekki verið að dyngja á þá útgjöldum að óþörfu, því að það er algerður óþarfi að leggja þennan launaskatt á þá. Við minni bátana kemur ekki orlof á miklar fjárhæðir. Þetta er líka eins og hver önnur vitleysa. Það er beinn skattur til bæjarfélaga og ríkis, en fer minnst af því í vasa þeirra. Þó að launaskattinum hefði verið sleppt á allri útgerðinni, eru það ekki nema 10—12 millj. Það voru ótal leiðir til að leysa það mál, þótt honum hefði verið sleppt. Það er engin sanngirni að láta útveginn borga þetta, en landbúnaðinn ekki. Ég er ekki að segja. að ég sé með því að leggja þennan skatt á landbúnaðinn. Það þarf enginn að halda það um menn, sem vinna við landbúnaðinn, að það geti ekki skeð, að þeir þurfi einhvern tíma að byggja hús í kaupstað eða kauptúni. En ég álft, að þessir atvinnuvegir mættu gjarnan sleppa við þennan skatt.

Auðvitað var hægt að leysa allt þetta mál án þess að leggja nokkurn tíma á þennan blesaða launaskatt. Þetta er furðulegt fyrirbrigði. Það var hægt að afla fjárins að ótal leiðum öðrum. Ef vextirnir eru hóflegir í landinu, þá er hægt að taka þetta af venjulegu sparifé. Það er ekkert meira að lána til húsa og betra en í flesta aðra hluti. Það eru ýmsar raunir, sem þessir blessaðir útgerðarmenn verða að búa við. Það er hér nokkurs konar svæðaskipting á útlánastarfseminni. Þetta er líkt og var hjá einokunarkaupmönnum hér áður. Það eru tveir bankar, sem lána til útgerðarinnar. Svo skipta þeir svæðunum á milli sín. Það er farið með útgerðarmenn, eins og gert var við menn, — þeir eru raunar ekki hýddir, — eins og gert var við menn á einokunartímanum. Þeim er bara sagt: Þarna verðurðu, hvort sem þér líkar vel eða illa. — Það er svæðaskipting. Sumir eiga að vera í Landsbankanum, aðrir í Útvegsbankanum, svo er ekki hægt að færa sig á milli. Það eru beztu menn, þessir bankastjórar. Útgerðarmenn snúa sér fyrst og fremst til þeirra manna, sem hafa með útgerðarlán að gera í bönkunum. Ég sé ekki, að það væri auðvelt að finna leiðinlegri og óaðgengilegri menn í þjóðfélaginu til að sjá um þetta. Einn bankastjórinn sagði við mig: Þið eigið bara að koma til okkar, við gerum þetta allt gott. — Og ég sagði honum eins og satt var; að það væri ekki víst, að allir hefðu geð til þess. Ég yfirgaf alla þessa þrælaklíku. Hvað sem fyrir kann að koma í lífinu, ætla ég að vera frjáls maður og ráða, hvar ég skipti. Ég vil ekki láta fara þannig með mig, svo að ég sagði þessum herrum að verá sælum. Þetta er nefnilega alveg furðulegt. Þarna verða þessir blessaðir útgerðarmenn að sitja kengbognir. Þeir geta ekkert farið. Ég hef spurt þá að því, þegar þeir hafa verið að kvarta um þetta við mig: Því farið þið ekki? Og þeir hafa sagt við mig: Við getum ekkert farið — Það er það minnsta, held ég, að sjútvmrh. og bankamrh. hlutuðust til um, áð það væri ekki hér þrælakerfi í útlánastarfseminni. Það eru margar þeirra raunir, og svo eiga þeir að fara að borga launaskatt, borga niður vexti fyrir aðra og borga sína eigin vaxtahækkun og hafa svo ekkert til að borga með.