08.02.1965
Neðri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

3. mál, launaskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég tel það vel farið, að hæstv. ríkisstj. hefur nú fallið frá fyrri skilningi sinum um það, hvernig túlka beri júnísamkomulagið svonefnda varðandi launaskattinn og hvernig honum skuli háttað gagnvart vörubílstjórum. Það lá raunar strax í augum uppi, að hæstv. ríkisstj. hafði hér rangt fyrir sér, vegna þess að augljóst er, að vörubílstjórar, þótt þeir eigi bílana sjálfir, eru ekki atvinnurekendur, heldur launþegar. En samkv. júnísamkomulaginu er ekki annað sjáanlegi: en launaskatturinn eigi eingöngu að greiðast af atvinnurekendum. Ákvæði júnísamkomulagsins varðandi þetta atriði er að finna í fskj. þessa frv. og það hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagður verði á launagreiðendur almennur launaskattur að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum en tekjum af landbúnaði. Renni skatturinn til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag.“

Það kemur alveg greinilega fram hér, að bað eru aðeins launagreiðendur, sem eiga að greiða skattinn, og skatturinn á ekki að greiðast af öðru en greiddum launum. Þar af leiðandi er það augljóst, að maður, sem selur vinnu sína, á ekki að greiða launaskatt, heldur eingöngu sá maður, sem kaupir vinnu og greiðir fyrir hana, og þar af leiðandi var frá upphafi augljóst, að vörubílstjórar, sem selja vinnu sína, áttu ekki að greiða þennan skatt, og á þann skilning hefur hæstv. ríkisstj. líka fallizt, þ.e. að hér hafi júnísamkomulagið verið rangtúlkað.

En mér virðist, að bílstjórar, sem eiga fólksbifreiðar og annast akstur á bifreiðastöðvum hér í bænum, séu í nákvæmlega sömu sporum og vörubílstjórar í þessum efnum. Þeir eiga sina bifreið eins og vörubílstjórarnir, og þeir selja sína vinnu alveg eins og vörubílstjórarnir. Það var að vísu í ræðu hæstv. ráðh. reynt að fara á þak við þetta á þann hátt, að það séu ekki beinir samningar á milli atvinnurekenda og bifreiðastjóra á fólksbílum. En nú er það þannig í lýðræðisþjóðfélögum, þar sem kaupgjald er ekki bundið með lögum eða gerðardómum, að þar er kaupgjaldið ákveðið með tvennum hætti. Annaðhvort er það ákveðið með frjálsum samningum milli atvinnurekenda og launþega ellegar það er ákveðið á þann hátt, að viðkomandi launþegafélag auglýsir ákveðinn taxta og þeir, sem vinnuna kaupa, viðurkenna hann svo í framkvæmd. Þetta á sér stað einkum 3 þeim tilfellum, þar sem vinnukaupendurnir eru kannske margir og smáir og hafa ekki nein sérstök samtök með sér, eins og t.d. þeir, sem kaupa vinnu af fólksbifreiðastjórum. Það er með þessum hætti, sem kaup leigubílstjóra á fólksbílum hefur verið ákveðið. Ég tel, að í þessum efnum sé auglýstur taxti, sem ákveðinn er með þessum hætti, alveg jafnrétthár og samningur, sem kann að hafa verið gerður á milli bilstjóra og atvinnurekenda. Ég get ekki séð, að það sé neinn munur á þessum tveimur stéttum í þessum efnum. Eða að hvaða leyti á að telja manninn, sem á vörubíl og rekur hann, launþega frekar en hinn manninn, sem á fólksbifreið og rekur hana með mjög svipuðum hætti eða svo að segja alveg sama hætti? Þessir menn eiga þess vegna áreiðanlega að vera á sama bátnum. Og ég trúi ekki öðru en við nánari athugun þessa máls fallist hæstv. ríkisstj. á þessa skoðun.

Annars virðist mér það hafa komið fram við þessar umr., að það sé nokkuð óljóst, hverjir það eru, sem raunverulega eigi að borga þennan skatt.. En samkv. samkomulaginu hafði ég litið þannig á — og ég býst við, að það gildi um fjölmarga, — að hér væri um skatt að ræða, sem atvinnurekendur ættu að borga og ekki ætti að koma inn í verðlagið, þannig að atvinnurekendur hefðu með júnísamkomulaginu tekið á sig, — launagreiðendur, eins og þar stendur, — að greiða þennan skatt, án þess að hann kæmi inn í verðlagið. Mér virðist hins vegar, að við þær umr., sem hér hafa farið fram, hafi komið fram bæði hjá hæstv. ráðh. og raunar fleirum, sem fjölluðu um júnísamkomulagið, að það kæmi til greina, a.m.k. í sumum tilfellum, að þessi skattur gengi inn í verðlagið. Mér skildist t. d., að það kæmi fram hjá hæstv. landbrh. og hv. 3. landsk. þm., að sá launaskattur, sem væri greiddur af vinnslustöðvum landbúnaðarins, ætti að ganga inn í verðlagið, hann ætti að vera reiknaður sem vinnslukostnaður og þess v egna ekki að lenda neitt á bændum. Þetta þýðir það, að hann á þá að ganga inn í verðlagið og verða borgaður af neytendum. Ég vildi í því sambandi gjarnan fá það upplýst hjá hæstv. félmrh., hvort það sé ætlunin, að þessi skattur eigi almennt að ganga inn í verðlagið og vera þar af leiðandi raunverulega greiddur af neytendum, en ekki af atvinnurekendum.

Ef þetta er rétt, er auðsjáanlega líka verið að mismuna atvinnugreinum, vegna þess að þeir, sem framleiða útflutningsvörur, geta ekki látið skattinn ganga inn í verðlagið, heldur eingöngu þeir, sem framleiða vörur fyrir innlendan markað. Þar af leiðandi bitnar þessi skattur allt öðruvísi á útflutningsatvinnuvegunum heldur en öðrum atvinnugreinum, ef það er sem sagt réttur skilningur hjá mér á því, sem sagt var við 2. umr., að það væri leyfilegt að láta þennan skatt ganga inn í verðlagið.

Ég vildi í framhaldi af þessu fá það upplýst hjá hæstv. félmrh., hvort það sé ætlunin að einhverju eða öllu leyti að heimila það, að þessi skattur gangi inn í verðlagið, þar sem því verður við komið, eða hvort hann á fyrst og fremst að vera greiddur af atvinnurekendum einum, án þess að hann sé tekinn inn í verðlag viðkomandi vöru eða þjónustu.