25.02.1965
Efri deild: 46. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

3. mál, launaskattur

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur athugað frv. til l. um launaskatt, sem hér liggur fyrir á þskj. 237. N, hefur skilað áliti og mælir með því, að frv. verði samþykkt. Tveir nm., þeir Ásgeir Bjarnason og Karl Kristjánsson, áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja.

Frv. þetta er til staðfestingar á brbl., sem voru gefin út 30. júní s.l. Í forsendum fyrir þessum brbl. segir að það hafi verið í samkomulagi, sem gert var hinn 5. júní s.l. milli ríkisstj., Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, lýst yfir, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir ráðstöfunum til úrlausnar í húsnæðismálum, er hafi þann tilgang annars vegar að létta efnalitlum fjölskyldum .að eignast íbúðir, en hins vegar að tryggja nægar og stöðugar íbúðabyggingar í landinu. Ein af forsendum þess, að þetta mætti takast, væri, að lagður verði á launagreiðendur almennur launaskattur, að upphæð 1% af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum öðrum en tekjum af landbúnaði, og renni skatturinn til byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag. Þetta segir í forsendunum fyrir brbl. Og þar sem byggingarsjóður ríkisins þurfti þegar á auknum tekjum að halda, þótti fullkomin ástæða eða brýn nauðsyn til þess að setja brbl.

Í 1. gr. þessa frv. er kveðið á um það, að leggja skuli á launagreiðendur almennan launaskatt, eins og um getur í forsendum fyrir brbl.; sem ég hef þegar greint frá.

Í 2. gr. frv. eru nánari ákvæði um það, hverjir eru skattskyldir. En það eru, eins og segir í gr.: „allir launagreiðendur, svo sem einstaklingur, félög, sjóðir og stofnanir, sveitarfélög og stofnanir þeirra, ríkissjóður, ríkisstofnanir, erlendir verktakar og aðrir þeir aðilar, sem greiða laun eða hvers konar þóknun fyrir starf. Enn fremur hver sá, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða stundar sjálfstæða starfsemi.“

Í 3. gr. frv. er ákvæði um það, að launaskatturinn greiðist ársfjórðungslega innan 15 daga eftir lok hvers ársfjórðungs af þeim launum, sem greidd hafa verið á ársfjórðungnum.

Í Nd. var gerð sú breyting á þessu ákvæði, að það voru sett sérákvæði varðandi aflahlut, þannig að launaskattur af aflahlut greiddum í peningum greiðist hálfsárslega innan 15 daga eftir 30. júní og 31. des. ár hvert.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um launaskatt af launum þeirra, sem hafa atvinnu við eigin atvinnurekstur, launaskatt af launum, sem ekki eru greidd í peningum, og launaskatt þeirra gjaldenda, sem ekki greiða samtals hærri laun til annarra en sjálfs sín en 500 þús. kr. Það er gert ráð fyrir því, að skattstjóri ákveði árlega launaskatt þessara aðila.

Í 5.—9. gr. frv. eru svo nákvæm ákvæði um það, hvernig fara skuli með innheimtu skattsins.

Þetta hefur þá þýðingu til tekjuöflunar fyrir byggingarsjóð ríkisins, að áætlað er, að tekjur byggingarsjóðs af skattinum muni nema um 50 millj. kr. á ársgrundveili. Þetta hefur þess vegna verulega þýðingu fyrir byggingarsjóð ríkisins og styður mjög að því að efla þá lánastofnun, en þetta er aðeins einn liður í víðtækum aðgerðum, sem yfirlýst er að ríkisstj. er að vinna að til þess að efla byggingarsjóð ríkisins með það fyrir augum, að hægt sé að hækka íbúðalán og auka stórlega útlán til íbúðarhúsabygginga. Á síðasta þingi var samþ. að hækka skyldusparnaðinn úr 6% upp í 15% í því skyni að auka tekjur byggingarsjóðsins, og munar verulega um þá aðgerð. Á síðasta þingi voru enn fremur samþ. lög um ávöxtun fjár tryggingafélaga, þar sem gert var ráð fyrir, að 25% af ráðstöfunarfé tryggingafélaga gengju til kaupa á íbúðalánabréfum húsnæðismálastjórnar og til að efla veðlánakerfið. Þessi aðgerð hefur einnig verulega þýðingu til þess að efla útlánastarfsemina. Þá má geta þess sem eins liðar í þessum heildaraðgerðum, að á s.l. sumri var lánum húsnæðismálastjórnar ríkisins breytt úr svokölluðum A- og B-lánum, en A-lánin voru til 25 ára með 8 1/2% vöxtum, en B-lánin til 15 ára með 5 3/4% vöxtum, en vísitölubundin, — á s.l. sumri var þessu skipulagi breytt þannig, eins og kunnugt er, að öll lánin voru gerð að vísitölubundnum lánum með 4% ársvöxtum. En í þeim heildaraðgerðum, sem gert hefur verið ráð fyrir, eru enn þá eftir vissir, veigamiklir hlutir. Það er von á því, að það verði lagt frv. fyrir þetta þing, sem kveður á um frekari tekjuöflun fyrir byggingarsjóð ríkisins, og er þar gert ráð fyrir a.m.k. 40 millj. kr. nýjum tekjustofni, sem hefur verið gert ráð fyrir að kæmi sem óafturkræft framlag frá ríkinu eða með öðrum hætti. Þá er einn liður í þeim heildaraðgerðum húsnæðismálanna, sem um hefur verið talað og gert hefur verið ráð fyrir, að það verði komið á fót nýju kerfi íbúðalána fyrir lífeyrissjóðina, þannig að útlánastarfsemi þeirra verði færð til samræmis við þær reglur, sem gilda um lán húsnæðismálastjórnar. Þá hefur verið ákveðið enn fremur, að ríkisframlag til atvinnuleysistryggingasjóðs gangi árlega til kaupa á íbúðarlánabréfum húsnæðismálastjórnar, til þess að efla veðlánakerfið, en þessi tekjustofn gefur um 40 millj. kr. á ári.

Ég hef hér drepið aðeins á það helzta, sem gert er ráð fyrir að verði gert og þegar hefur verið gert sumt til þess að koma íbúðalánastarfseminni á traustari grundvöll og auka íbúðalánin frá því, sem verið hefur. Þetta eru ráðstafanir, sem eru hugsaðar til frambúðar. En auk þess var gert ráð fyrir í júnísamkomulaginu s.l. sumar, að ríkisstj. tryggði, að það yrðu veitt íbúðalán að upphæð 250 millj. kr. síðari hluta ársins 1964 og fyrri hluta þessa árs. Þetta var gert í þeim tilgangi að vinna upp þann mikla fjölda lánaumsókna, sem lágu fyrir á s.l. sumri, áður en þetta nýja frambúðarkerfi yrði algerlega tekið upp.

Ég get getið þess hér, að nú þegar hafa verið veitt íbúðalán af þessum 250 millj., sem nemur rúmum 180 millj. kr., og það er gert ráð fyrir, að 250 millj. kr. muni örugglega duga til þess að fullnægja öllum lánaumsóknum, sem höfðu borizt húsnæðismálastjórn 1. apríl 1964.

Mér hefur þótt rétt aðeins að vekja athygli á þessu, sem er að gerast og fyrirhugað er að gera í húsnæðismálunum, vegna þess að það eru meiri aðgerðir en nokkru sinni áður hafa verið gerðar í þessum málum. Það sýnir vel, hve mikla áherzlu ríkisstj. leggur á þennan þátt málanna, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins einn liður í þessum heildaraðgerðum. En ég vænti þess, að málið hljóti góða og skjóta afgreiðslu eins og það er.