01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

3. mál, launaskattur

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hélt því fram í sinni fyrri ræðu, og það var hans meginádeila á ástandið í húsnæðismálunum nú, að íbúðalánin hefðu ekki hækkað sem svaraði hækkun byggingarkostnaðar, ástandið væri í þessu efni lakara núna en þegar ríkisstj. tók við. Ég svaraði þessu og sagði honum, að á sama tíma og byggingarvísitalan hefði hækkað um 64.2%, þá hefðu lánin hækkað um 114.2%, og ef við miðum þetta við lánin, sem verða núna 280 þús., þá um 300%. Þessi ágæti þm. tekur greinilega rökum í þessu máli. Hann heldur ekki lengur áfram við þessi meginrök sín. En þá fer hann á annan vettvang í þessu máli. Þá segir hann: Við skulum líta á annað. Nú skulum við líta á það, hvað hefur verið byggt. Og þá kemst hann að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið byggt minna í tíð núv. ríkisstj. en var áður og þess vegna hafi núverandi ríkisstj. staðið sig verr í þessum málum en fyrri ríkisstj.

En lítum nánar á þetta. Við megum ekki gína við þessum röksemdafærslum. Við verðum að athuga, hvernig málið liggur fyrir í raun og veru. Við verðum að hafa í huga, að á árunum 1952 og 1953 og á árunum þar á eftir reis mikil byggingaralda í landinu. Á áratugnum 1953—1962 voru fullgerðar 13000 íbúðir. Miðað við meðalfjölda fólks á hverja íbúð svarar það til þess, að byggt hefði verið á þessu tímabili fyrir 58 þús. manns, en á sama tíma nam fólksfjölgun þjóðarinnar um 34500. Það var því byggt umfram fólksfjölgun fyrir sem svarar 23—24 þús. manns. Það leiddi auðvitað til stórbætts ástands í húsnæðismálunum. Þessi byggingaralda hafði mikinn kostnað í för með sér. Hún hafði svo mikinn kostnað í för með sér, að þegar mest var, nam fjárfestingin í íbúðarhúsabyggingum allt að 40% af heildarfjárfestingunni og um 10% af þjóðarframleiðslunni í heild. Eftir að svo vel hafði verið séð fyrir húsnæðisþörfinni, hlutu íbúðarhúsabyggingar að dragast nokkuð saman og þjóðin að beina atorku sinni meir að öðrum þörfum, sem voru orðnar brýnni. Og hvað skeður? Þess vegna lækkaði fjárfesting í íbúðarhúsum árið 1957 um 7% frá árinu 1956 og lækkaði enn um rúm 13% á árinu 1958. Ákaflega hefur nú vinstri stjórnin staðið sig illa í þessum málum, ef við ættum að leggja þetta sem algildan mælikvarða á það, hvað gert er í húsnæðismálunum. En ég er ekki að deila á vinstri stjórnina fyrir þetta. Þetta var ósköp eðlilegt, miðað við það, sem hafði skeð á síðustu árum áður. Og svo verður í þessu efni að hafa í huga, að ríkisstj. verður ekki dæmd af fyrirgreiðslu sinni við íbúðarhúsabyggingar miðað við það, hvað er byggt mikið. Sjálfar íbúðabyggingarnar eru ekkí á vegum ríkisins. Hins vegar er það hlutverk ríkisstj. að marka stefnuna í peningamálunum og gera ráðstafanir í lánamálum til íbúðarhúsabygginga. Og þegar við berum það saman, hvað hefur verið gert í þessum efnum í tíð núv. ríkisstj. og í tíð vinstri stjórnarinnar, þá þurfum við ekki að deila lengi um það, hvor ríkisstj. hefur gert meira til úrlausnar í þessum málum.

En mér, eins og ég sagði áðan, finnst það heldur ófrjóar deilur að ræða um það, hvor hafi gert meira. Það er þetta, sem framsóknarmenn koma stöðugt inn á í umræðum um þessi mál. Það er aldrei hægt að ræða þessi mál eða bera fram uppbyggilegar till. í þeim öðruvísi en að framsóknarmenn komi með einhvern samanburð við vinstri stjórnina. En þó að slíkt tal sé ekki frjóar umræður, þá er nauðsynlegt að svara mestu firrunum, sem fram koma, hvenær sem tilefni gefst til. Og það er það, sem ég geri núna.

Nú er það, að hv. 1. þm. Norðurl. e. var miklu hógværari í sinni síðari ræðu en í þeirri fyrri, og það er skynsamlegt að sjálfsögðu af svo vitrum manni sem þessum þm. Og hann lagði megináherzlu á það, að nú ættum við allir að taka saman höndum um það að efla íbúðalánakerfið. Ég tek mjög undir þetta. Nú skulum við láta þetta tilefni, þessar umr. verða til þess, að við tökum höndum saman að vinna að eflingu íbúðalánakerfisins eins og mögulegt er. Og ég vildi stinga því að hv. 1. þm. Norðurl. e., hvort ekki færi vel á því, að hann sýndi nú þetta nýja viðhorf sitt í verki með því að draga til baka þá brtt., sem hér liggur fyrir og er greinilegt að mundi skerða tekjur byggingarsjóðsins og ekki hafa neina aðra þýðingu.