27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Flestir munu vera um það sammála, að iðkun leiklistar sé einn af hyrningarsteinum blómlegs menningarlífs. Það er að sjálfsögðu forsenda þess, að leikritun og leiksýningar nái fyllsta þroska og verði til sanns menningarauka, að til séu fullkomin leikhús og stétt vel menntaðra leikara, sem geta helgað sig leiklistinni að fullu og öllu. Víðast hvar næst þetta takmark ekki, a.m.k. ekki meðal fámennari þjóða, nema ríkisvaldið og einstakar borgir eða sveitarfélög láti leiklistarmálin til sín taka með því að veita til þeirra verulegt fé. Þetta hefur einnig átt sér stað hér á landi, fyrst og fremst síðan þjóðleikhúsið tók til starfa fyrir um það bil hálfum öðrum áratug. En það er leiklistarmálum og leikmenningu einnig mjög mikilsvert, að áhugamenn helgi sig leiklist og hafi aðstöðu til þess að gera það. Ógerningur hefði verið að koma á fót íslenzku þjóðleikhúsi árið 1950, ef hér í höfuðstaðnum hefði ekki þegar starfað í hálfa öld leikfélag áhugamanna, þ.e.a.s. Leikfélag Reykjavíkur, þar sem upp höfðu vaxið svo ágætir leikarar, að þjóðleikhús Íslendinga varð þegar í stað við stofnun sína leikhús fullmótaðra atvinnuleikara, sem reyndust færir um að efna til sýninga, sem stóðu fyllilega á sporði sýningum í gamalgrónum leikhúsum nágranna

landanna, þegar þeim var fengin til þess nægilega góð ytri aðstaða.

Skýringin á því, að hér á Íslandi er nú stunduð þroskuð leiklist, þótt íslenzkt þjóðleikhús sé ekki nema hálfs annars áratugs gamalt, er fyrst og fremst sú, að áhugamenn höfðu um hálfrar aldar skeið stundað leiklist af áhuga, kostgæfni og hæfileikum. Hin þroskaða atvinnuleiklist hefur m.ö.o. sprottið upp af leiklistarstarfi áhugamanna í áratugi. Þetta er heilbrigð og eðlileg þróun, og einmitt nú á þessu hausti er leikstarfsemi hins gamla áhugamannafélags, Leikfélags Reykjavíkur, að færast yfir á atvinnugrundvöll, þannig að nú má segja, að tvö atvinnuleikhús séu hér í höfuðstaðnum. Þannig þarf þróunin að verða víðar á landinu. Starfsemi hæfileikamikilla áhugamanna um leiklist þarf smám saman og fyrir tilstyrk aukinnar leikmenntunar að breytast í þroskaða atvinnuleiklist.

Alþingi hefur um langt skeið veitt í fjárl. fé til þess að styrkja leikfélög áhugamanna. Árið 1962 var Leikfélagi Reykjavíkur veittur 150 þús. kr. styrkur og Leikfélagi Akureyrar 30 þús. kr. styrkur, en öðrum starfandi leikfélögum var veittur 8 þús. kr. styrkur hverju. Á þessu ári, árinu 1962, námu heildarstyrkveitingar Alþingis til leiklistarstarfsemi áhugamanna 468 þús. kr. auk 125 þús. kr. styrks til Bandalags ísl. leikfélaga. Í fjárl. fyrir árið 1963 var styrkur til leikfélaga áhugamanna hækkaður úr 468 þús. kr. í 660 þús. kr. og menntmrn. falið að skipta þessum styrk milli starfandi leikfélaga áhugamanna, auk þess sem haldið var áfram styrkveitingu til Bandalags ísl. leikfélaga að upphæð 125 þús. kr.

Þegar Alþingi fól menntmrn. að skipta heildarfjárveitingunni milli leikfélaganna og það fór að reyna að gera sér grein fyrir því, með hverjum hætti styrknum yrði skynsamlegast skipt, kom tvennt í ljós. Í fyrsta lagi töldum við æskilegt, að til væru sem fastastar reglur, sem beita mætti ár eftir ár við skiptingu styrksins, og í öðru lagi sýndist okkur, að 660 þús. kr. fjárveiting væri ekki nægileg til þess að sinna algerlega réttmætum óskum leikfélaganna um fjárstuðning af opinberri hálfu. Þess vegna boðaði menntmrh. til ráðstefnu í Reykjavík um leiklistarmál dagana 16. og 17. maí 1963. Sóttu hana fulltrúar frá flestum starfandi leikfélögum á landinu og auk þeirra þjóðleikhússtjóri, útvarpsstjóri og fulltrúar frá menntmrn. Voru þar rædd helztu vandamál leiklistarstarfsemi áhugamanna og hvaða leiðir helzt væru farnar til úrbóta, ekki aðeins bein fjármál leikfélaganna, heldur einnig önnur viðfangsefni þeirra og vandamál, svo sem með hverjum hætti auðveldast væri að útvega leikfélögum hentug leikrit til sýningar, leiktjöld, búninga, leikstjóra o.s.frv. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að aðstaða til leiksýninga hefur víða um land batnað stórlega vegna hinna nýju félagsheimila; sem reist hafa verið hin síðari ár. Varð það ein meginniðurstaða ráðstefnunnar, að æskilegt væri, að sett yrði sérstök löggjöf um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna. Skömmu síðar, eða 7. júní 1963, skipaði ég því nefnd til þess að semja slíkt frv. Í n. voru skipaðir þeir Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, og var hann skipaður formaður n., Guðlaugur Rósinkranz þjóðleikhússtjóri, Helgi Skúlason, formaður Leikfélags Reykjavíkur, Valgeir Óli Gíslason, formaður Bandalags ísl. leikfélaga, og Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri. Síðan var Skúla Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Ungmennafélags Íslands, bætt í n., en í forföllum Helga Skúlasonar hafa starfað í n. Guðmundur Pálsson leikari og Sveinn Einarsson leikhússtjóri. Hefur n. þessi samið frv, það, sem hér er flutt.

Helztu atriði frv. eru þessi: Gert er ráð fyrir því, að fjárframlög ríkisins til leiklistarstarfsemi áhugamanna séu ákveðin í fjárl. árlega og skuli fjárhæðin eigi vera lægri en 1 millj. kr., sem menntmrn. síðan skipti milli leikfélaganna að fengnum umsóknum og áskildum upplýsingum. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1965, sem þegar hefur verið lagt fyrir hið háa Alþingi, er lagt til, að veitt sé 1 millj. kr. til styrktar leikfélögunum auk sérstaks styrks, sem Bandalag ísl. leikfélaga er veittur eins og áður, að upphæð 125 þús. kr. Eins og ég gat um áðan, var styrkur til leikfélaganna árið 1962 468 þús. kr., og mundi því styrkur ríkisins til leikfélaganna, ef þetta frv. yrði samþ. ásamt fjárlagatillögunni, verða rúml. helmingi meiri á næsta ári en hann var fyrir 2 árum. Í raun og veru er þó um enn meiri aukningu stuðnings við leikfélögin að ræða en kemur fram í þessum tölum, því að á árinu 1963 var samþykkt sú breyting á skemmtanaskattslögum, að leiksýningar skyldu undanþegnar skemmtanaskatti, en til þess tíma höfðu leiksýningar í þéttbýli, aðrar en leiksýningar þjóðleikhússins í Reykjavík, verið skemmtanaskattsskyldar og ýmis leikfélög greitt talsverðan skemmtanaskatt.

Frv. gerir ráð fyrir því, að leikfélögum verði skipt í tvo flokka, A-flokk og B-flokk. Til þess að leikfélag geti talizt í A-flokki, verður það að sýna a.m.k. tvö leikrit á ári, sem hvort um sig sé fullkomin kvöldsýning. Fullgildur leikstjóri verður að setja leikritið á svið, félagið verður að hafa ráð á húsnæði og sviðbúnaði, sem nægir til sýninga á þessum tveim leikritum, sem valin eru til flutnings, og félagið verður eingöngu að fást við leiklist og verja ágóða, sem verða kann af sýningum, eingöngu til leiklistarstarfsemi sinnar. Er gert ráð fyrir því, að styrkveitingar til félaga í þessum flokki geti numið frá 30—100 þús. kr. á ári.

Í B-flokki eru hins vegar þau félög, sem sýna a.m.k. 1 leikrit á ári sem sjálfstæða sýningu og sé það þó fullkomin kvöldsýning eða styttra leikrit ásamt öðru menningarlegu efni, upplestri, söng, hljóðfæraslætti o.fl. Er gert ráð fyrir því, að styrkur til leikfélaga í B-flokki geti numið frá 10 þús. til 30 þús. kr. á ári. Hafi félag hins vegar sýnt 3 leikrit eða fleiri á síðasta ári, er heimilt að veita því aukastyrk.

Sömuleiðis má styrkja sérstaklega barnasýningar. Enn fremur er heimilað að styrkja opinberar sýningar skólafélaga, t.d. með því að greiða hluta af kostnaði við leikstjórn. Þá gerir frv. ráð fyrir því, að séu tekin til sýningar ný íslenzk leikrit eða íslenzk leikrit, sem ekki hafa verið sýnd áður á leiksviði, sé heimilt að greiða þeirra vegna sérstakan aukastyrk.

Gert er ráð fyrir því, að á móti styrkveitingum í A-flokki skuli koma a.m.k. jafnhá framlög frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóði, en á móti styrkjum félaga í B-flokki komi a.m.k. 50% frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóði. Allmörg sveitarfélög munu þegar styrkja leiklistarstarfsemi innan vébanda sinna og þá fyrst og fremst Reykjavíkurborg, sem styrkir Leikfélag Reykjavíkur verulega. Heildarstyrkveitingar bæjar- og sveitarfélaga til leikfélaga sinna mundu þó eflaust aukast, ef frv. þetta nær fram að ganga, og virðist það vera í alla staði eðlilegt, að á móti auknum fjárframlögum frá ríkinu komi einnig aukin fjárframlög frá bæjar- eða sveitarsjóðum, og er gert ráð fyrir því, að þau séu jafnhá ríkisframlögunum á hinum stærri stöðum, en aðeins helmingur ríkisframlagsins á hinum minni stöðum.

Ég tel, að samþykkt þessa frv. og hinar auknu fjárveitingar, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, muni verða leiklistarstarfsemi áhugamanna mikil lyftistöng og þá um leið íslenzku menningarlífi, ekki sízt í dreifbýlinu, til mikillar eflingar. Það er einlæg von mín, að þetta frv. fái að meginefni til einróma stuðning hér á hinu háa Alþingi og það hljóti skjóta og góða afgreiðslu.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.