27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það voru aðeins eitt, tvö orð. Því miður hefur þetta frv. einhvern veginn farið fram hjá mér, og hef ég því lítið kynnt mér það, en var að hlaupa yfir það núna á fundinum, og þess vegna langar mig til þess að spyrja varðandi 1. gr. um flokkun leikfélaganna, hvort hæstv. ráðh. getur nokkuð upplýst um það, hvað mörg félög koma til með að vera í A-flokki og þá hvaða félög. Og eins sýnist mér í frv. ekki vera neitt ákvæði um styrk til leiklistarskóla í Reykjavik eða annars staðar. Mér er kunnugt um það, að t.d. á Akureyri hefur verið haldið uppi leiklistarskóla eða vísi að leiklistarskóla, og hann hefur verið styrktur sérstaklega á fjárlögum, en ég sé ekki, að það sé neitt ákveðið um þetta í frv. Ef það er rangt hjá mér, þá leiðréttir hæstv. ráðh. það. Ég man nú ekki, að það sé fleira, sem ég vildi spyrja um á þessu stigi.