16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

58. mál, innlent lán

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. í tilefni af frv. um heimild til lántöku fyrir ríkissjóð, sem ég ætla að leyfa mér að koma hér á framfæri nú við 1. umr., en málið fer til fjhn., og þar mun ég eiga kost ú að fjalla um það, svo að ég tel ekki þörf á því að tala hér langt mál að þessu sinni.

Ég vil þá í fyrsta lagi segja það, að ég tel, að ástæðulaust sé að vera á móti þeirri tilraun, sem hér á að gera með að bjóða út vísitölutryggt lán fyrir ríkissjóð. Það er alkunna, að sparifjáreigendur hafa borið mjög skarðan hlut frá borði í þeirri verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað hér að undanförnu, og því meira en tímabært, að eitthvað sé gert til þess að rétta þeirra hlut. En þessi heimild vekur til umhugsunar um það, hvort ekki sé nauðsynlegt að taka upp verðtryggingu á spariféð allt, eins og till. hafa legið fyrir hv. Alþingi um.

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, hafa þm. Framsfl. borið fram margsinnis till. um, að upp yrði tekin ýtarleg athugun á verðtryggingu sparifjár, hvort ekki sé hægt að koma henni við, og ég tel, að svo mikil nauðsyn sem er á, að ríkissjóður geti tekið lán með þessum kjörum og spariféð sé þannig tryggt, þá sé ekki síður nauðsyn að taka upp verðtryggingu sparifjár almennt, því að augljóst er, að þessi bréf, sem í fyrsta lagi fást endurgreidd eftir 3 ár og sum eftir lengri tíma, koma ekki að notum fyrir nálægt alla sparifjáreigendur í landinu, þótt þeir vildu njóta góðs af þeim ákvæðum. Hér verður aðeins um að ræða þá menn, sem geta bundið sparifé sitt til þetta langs tíma, en sparifé t.d. eldra fólks og ungs fólks, sem er að búa sig undir nám, er hætt við að falli ekki þarna undir, þ.e.a.s. að fólk geti ekki séð af sparifénu eða þori ekki að binda það, þótt ekki sé nema í þetta langan tíma, og eins og er a.m.k. er hér engin trygging fyrir því, að hægt sé að framselja bréfin, þegar fólk þarf á því að halda.

Þá vil ég leyfa mér að inna hæstv. ráðh. eftir því, annaðhvort bankamálaráðh. eða hæstv. fjmrh., hvernig verði með notkun á þeirri heimild, sem Seðlabankanum var veitt með l. frá Alþingi í maí s.l. um útgáfu gengistryggðra skuldabréfa, en eins og hv. þm. muna, voru samþ. hér í þinglokin í vor lög um það, að Seðlabankinn fengi heimild til þess að gefa út gengistryggð bréf, ótiltekið að upphæð. Það gefur að skilja, að svar við þessari spurningu hefur geysimikil áhrif á rekstur viðskiptabankanna, því að ef haldið verður langt áfram á þeirri braut að veita aðeins einum eða nokkrum aðilum heimild til þess að gefa út vísitölutryggð bréf, þá er augljóst, að spariféð leitar þangað, og að sama skapi rýrnar þá hlutur viðskiptabankanna og þeir verða enn þá ófærari um að gegna hlutverki sínu heldur en þeir þó eru nú, og má þó sannarlega ekki á það bæta.

Hæstv. fjmrh. lét hér áðan í ljós þá von, að nokkuð mundi koma af sparifé inn til kaupa á þessum bréfum, því sem ekki væri í bönkum nú, eða því, sem að öðrum kosti mundi verða varið til byggingarframkvæmda, sem mundu þá bíða. Það kann vel að vera, að einhverjir vilji alveg eins kaupa sér þessi bréf eins og byrja á byggingarframkvæmdum, — ég er ekki frá því, að það geti orðið, — en þá er bara hitt: Megum við við því að draga úr byggingarframkvæmdum, vantar ekki alltaf húsnæði, og verður ekki að halda áfram að byggja, hvernig sem þessu er varið?

Ég hefði talið æskilegt, að í sambandi við afgreiðslu þessa máls, það er ekki nauðsynlegt á þessum fundi, en við skulum segja í meðferð fjhn. á málinu, þá lægju fyrir upplýsingar um það, hvað fyrirhugað sé um not á þeirri heimild, sem, ég áðan nefndi, um útgáfu gengistryggðra verðbréfa af hendi Seðlabankans. Og ég verð að segja það, að þegar það var til umr. hér í vor, var ég ákaflega mikið á móti því ákvæði, að einum aðila væri veitt sú heimild og alveg ótiltekið. Og ég get miklu betur fellt mig við þetta form, sem þó er hér, þ.e.a.s. að hér er þó ekki nema tiltekin fjárhæð, sem safna á, svo að menn vita þá, hvar þeir standa, hvað þeir eru að samþykkja, en í hinu tilfellinu liggja engar upplýsingar fyrir um það.

Þá finnst mér í þriðja lagi nokkuð athugavert við það, hvernig fjármagnið verði notað. Ég hefði talið eðlilegra, að fyrir lægi ákveðin grg. um það, sem Alþingi féllist á, hvað ætti að gera við það fjármagn, sem ríkissjóði er aflað með þessum hætti, alveg á sama hátt og allar greiðslur ríkissjóðs aðrar eru ákveðnar með fjárlögum. Nú stendur svo vel á, að fjárlög eru ekki fullgerð fyrir árið 1965, þannig að vandalaust er að bæta þar inn í þeim gjaldaliðum, sem rúm verður fyrir vegna þessara peninga.

Svo segir í grg. með frv., og það sagði hæstv. fjmrh. einnig í framsöguræðu, a.m.k. í Ed., ég tók ekki eftir því hér, að það, sem yrði afgangs, þegar búið væri að greiða þær framkvæmdir, sem hann tiltók, hafnarframkvæmdir, raforkuframkvæmdir, og eitthvað var það meira, þá mundi það, sem afgangs yrði, ef eitthvað yrði, geta gengið til þess að greiða skuldir ríkissjóðs. Nú hefði mig langað til þess að fá upplýsingar um það hjá hæstv. fjmrh., hvaða skuldir ríkissjóðs það eru, sem áætlað er að greiða með þeim afgangi, sem þarna verður, ef einhver verður. Eru það fastar, umsamdar skuldir ríkissjóðs, sem stendur til að greiða niður, og er það rétt að gera það, ef svo er, eða eru það kannske lausaskuldir ríkissjóðs, sem stendur til að borga með þessu fjármagni, og ef svo er, þá hvaða lausaskuldir eru það? Ég spyr að þessa vegna þess, að mér hefur skilizt, að við undanfarin reikningsskil hjá hæstv. fjmrh, hafi það verið svo, að lausaskuldir ríkissjóðs væru engar, og ég minnist þess, að í fjárlagaræðu, sem hæstv. fjmrh. hélt hér á Alþingi 22. okt. í fyrra, sagði hann: Lausaskuldir eru engar í árslok 1962 annað árið í röð. — Ég hefði sem sagt talið æskilegt, að það lægi fyrir við afgreiðslu málsins, hvort

hér hafa orðið til lausaskuldir síðan 22. okt. 1963, sem nú sé nauðsynlegt að afla lánsfjár til þess að greiða með þessum hætti, eða hvort hér stendur til að greiða umsamdar skuldir ríkissjóðs.

Ég hefði talið æskilegra, að lánskjör, vaxtakjör og lánstími væru ákveðin með l., en ekki haft eins og hér er gert ráð fyrir, að það sé á valdi hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. að ákveða það. Ég heyrði raunar, hvað hæstv. ráðh. sagði, að ástæðan væri til þess, að þetta v æri ákveðið með þessum hætti, þ.e.a.s. að ekki væri í ráði að bjóða lánið allt út í einu og það þyrfti að leita að þeim kjörum, sem aðgengilegust þættu, og svo enn fremur hitt, sem hæstv. ráðh. benti á, að þegar Alþingi hefði veitt ríkisstj. heimild til lántöku, þá væri það venjan að hafa þessi ákvæði óbundin. En ég verð að segja það, að þar finnst mér vera um töluverðan eðlismun að ræða, því að venjulega, þegar ríkisstj. hefur verið veitt lántökuheimild, þá hefur verið um það að ræða að sjálfsögðu að taka lán hjá lánveitendum, lánastofnunum, hvort sem það er innanlands eða utan, og þá er að sjálfsögðu eðlilegt, að ríkisstj. séu gefnar frjálsar hendur um að sæta þeim beztu kjörum, sem hægt er að fá á lánamarkaði, og er því eigi gott að slá því föstu með lögunum, hver kjörin eigi að vera. En hér víkur allt öðruvísi við að mínum dómi, vegna þess að hér er farið á innanlandsmarkað í samkeppni við þær innlánsstofnanir, sem fyrir hendi eru, og ég hefði talið mjög æskilegt og hefði viljað mælast til þess, að nefnd athugaði það sérstaklega, hvort hægt væri að slá því föstu, með hvaða kjörum þessi bréf verða boðin út. Ég tel það skipta miklu máli.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skuldabréfin og spariskírteinin, vextir og verðbætur skuli undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu, og nú er búið að fella niður, að þau skuli einnig vera undanþegin erfðafjárskatti, og tel ég það til bóta. En ég tel, að það orki tvímælis að hafa þessi bréf undanþegin framtalsskyldu. Ég tel, að það orki tvímælis, og ég vil mælast til þess, að hv. fjhn. taki það mjög rækilega til athugunar, hvort það sé nauðsynlegt. Ég býst við því, að þessi bréf verði með þeim kjörum, að fólk fýsi að kaupa þau, þ.e.a.s. það fólk, sem getur séð af sparifé sínu til lengri tíma, þannig að þess vegna þurfi ekki að gera þau fýsilegri. Ég tel sjálfsagt, að þau séu undanþegin skattlagningu á sama hátt og sparifé hefur verið. En ég tel, að það orki nokkuð tvímælis að hafa þau undanþegin framtalsskyldu. Ég skal ekki fara lengra út í það hér að þessu sinni, hvaða ástæður eru fyrir því, en það eru vissulega allgildar ástæður fyrir því, að ég tel það orka tvímælis.

Þá vildi ég að síðustu í þessum örfáu aths., sem ég geri hér við 1. umr., beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. kannske sérstaklega í fjarveru bankamálaráðh., sem það heyrir undir, hvort fyrirhugað sé, að áframhald verði á svokölluðum frjálsum samningum viðskiptabankanna um kaup á ríkistryggðum bréfum eða ríkisskuldabréfum, sem nemi 10% af sparifjáraukningu þeirra. Þegar frv. um Seðlabankann var til umr. hér í vor, margspurðist ég fyrir um það hjá hæstv. bankamálaráðh., hvort áætlað væri að halda áfram þessum samningum, sem í raun hefur verið nauðungarkvöð á bönkunum, þótt það heiti samningar. Þá fékkst ekkert svar við þeirri spurningu. Hæstv. bankamálaráðh. leiddi hana alveg hjá sér. En blekið var tæplega þornað á undirskriftunum að 1. um Seðlabankann, þegar tilmæli komu til viðskiptabankanna á ný að halda þessu framlagi áfram. Ég tel, að með öllum þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið gerðar á undanförnum árum, með innstæðubindingu í Seðlabankanum, með heimild fyrir Seðlabankann til þess að gefa út gengistryggð bréf og með heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka vísitölutryggð lán, hafi verið svo þrengt að hag viðskiptabankanna í landinu, að það sé ekki hægt að ganga lengra, og ég vildi mælast til þess, að skýlaust svar fengist, áður en þetta frv. verður endanlega afgreitt, hvort það sé tilætlunin að halda til viðbótar öllu þessu áfram að gera viðskiptabönkunum það skylt að leggja 10% af sparifjáraukningunni til ríkissjóðs með þeim hætti, sem ég hér nefndi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv. að þessu sinni.