26.11.1964
Neðri deild: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt þetta frv. á allmörgum fundum sínum og orðið í öllum aðalatriðum sammála um að mæla með því. Frv. er undirbúið af sérstakri nefnd, en formaður hennar var Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri. Menntmn. hefur rætt við bæði formann undirbúningsnefndarinnar og framkvæmdastjóra Bandalags ísl. leikfélaga og leggur sameiginlega fram nokkrar brtt. á þskj. 109, sem eru gerðar í samráði við undirbúningsnefndina að mestu leyti. Menntmn. er sannfærð um, að ef frv. þetta verður að lögum, muni það verða mjög verulegur styrkur til eflingar starfsemi áhugamanna um leiklistarmál, og vill í því sambandi taka sérstaklega fram varðandi 9. gr. frv., að þar er gert ráð fyrir, að styrkur ríkisins sé greiddur fyrst, í samræmi við þær reglur, sem frv, gerir ráð fyrir, en að sveitarsjóðir og bæjarsjóðir skuli greiða tiltekinn styrk eftir ár, 100% á móti ríkinu að því er varðar A-flokk, en 50% að því er varðar B- og C-flokk.

Mig langar fyrst til að fara örfáum orðum um þær brtt., sem n. stendur að á þskj. 109. Þessar brtt. hníga fyrst og fremst að tveimur atriðum, því fyrra að styrkja sérstaklega sýningar á barnaleikritum. Það er gerð till. um, að settur sé 3. flokkurinn, C-flokkur, yfir leikfélög, sem sýna a.m.k. eitt leikrit á ári, sem sé sérstaklega ætlað börnum, en sé fullgild sýning. Í 5. gr. kemur síðan fram eftir breytingunni, að slík sýning mundi verða styrkt aukalega með 30 þús. kr. N. leggur afar mikla áherzlu á að efla einmitt sýningar barnaleikrita. Hún telur það mjög mikilsvert, bæði vegna þess, að þetta er góð skemmtun, og svo hins, að með því að efla sýningar barnaleikrita venjast börnin á leikhúsferðir og að sjá leikrit, og það er mikils virði fyrir framtíðina, að slík starfsemi sé efld.

Hin brtt., sem n. leggur til, er við 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að það megi veita sérstakan aukastyrk, ef um ný íslenzk leikrit er að ræða. Hér höfum við komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri einnig réttlátt að veita aukastyrk, ef um íslenzk leikrit væri að ræða, þó að þau væru ekki frumsýnd. Við vitum, að það er mikill kostnaður og oft aukakostnaður við ýmis hinna gömlu íslenzku leikrita og raunar nýrri líka, þetta er dýrt fyrir leikfélögin, og við leggjum þess vegna til, að það sé heimilt að styrkja sérstaklega sýningar á öðrum íslenzkum leikritum.

Það mun hafa verið rætt allýtarlega um þetta frv. hér við 1. umr., og ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í umr. nú, nema tilefni gefist til. En um frv. sjálft og þessar breytingar er n. sem sagt fullkomlega sammála.

Á þskj. 112 hefur hv. 3. þm. Vestf. o.fl. lagt fram brtt., sem hnígur að því, að Bandalag ísl. leikfélaga hafi tillögurétt um úthlutun þess fjár, sem annars er gert ráð fyrir í frv. að sé úthlutað af menntmrn. Mér finnst fyrir mitt leyti og ég ætla fleirum í n., að sé eðlilegri ráðstöfun, þar sem um nýmæli er að ræða, að menntmrn. hafi þessa úthlutun með höndum, á meðan málið er að komast í fastan farveg. Það mun hins vegar verða þannig í reynd, eftir því sem formaður undirbúningsnefndarinnar tjáði okkur í menntmn., að auðvitað verði leitað ýmiss konar upplýsinga til bandalagsins og það haft óbeint með í ráðum, þó að það væri ekki fast, eins og till. gerir ráð fyrir.

Það er varla vafi á því, að þessi löggjöf á eftir að taka einhverjum breytingum, eftir því sem reynslan sýnir, þegar farið verður að vinna eftir lögunum. Og það ekki bara varðandi þetta atriði, heldur er vafalaust, að ýmis önnur atriði l. kunni þá að koma til endurskoðunar. Við þetta bætist svo, að tvö leikfélög a.m.k., í Hafnarfirði og á Selfossi, hafa mælt með því, að frv. yrði samþ. óbreytt. Það er gefið mál, að hér er fyrst og fremst um verulega aukinn fjárhagslegan stuðning til starfsemi leikfélaga að ræða. Það hlýtur að vera aðalatriðið og hlýtur að vera svo veigamikið atriði, sérstaklega gagnvart leikfélögum og öðrum aðilum úti um landsbyggðina, sem þá starfsemi annast af áhuga og mikilli fórnfýsi, að það getur ekki verið neitt aðalatriði, hvort orðalagi varðandi úthlutun fjárins sé breytt, þannig að einhverjir fleiri aðilar hafi þar ítök um, eða a.m.k. get ég ómögulega séð rökin fyrir því.

Þetta frv., ef að lögum verður, er tvímælalaust það langstærsta átak, sem hefur verið gert á siðari árum til stuðnings starfsemi áhugamanna um leiklist, og við erum sannfærðir um það í menntmn., að svo muni verða, og leggjum því til, að það verði samþykkt.