26.11.1964
Neðri deild: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Á þskj. 112 flyt ég brtt. ásamt hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 5. þm. Norðurl. e. Sú brtt, er við 5. gr. frv. Efni till. er það, að leita skuli till. Bandalags ísl. leikfélaga um skiptingu á fjárveitingu til leikfélaga í landinu. Hér er aðeins um tillögurétt bandalagsins að ræða. Hv. frsm. þessa máls vék að þessari brtt. í ræðu sinni áðan og taldi, að það mundi fara bezt á því, að menntmrn. úthlutaði þessum styrkjum. Ég er honum sammála um það, enda er ég ekki með neina brtt. við það. Það stendur óbreytt í frv., að menntmrn. úthluti styrkjunum. Það eina, sem við leggjum til, er það, að Bandalagi ísl. leikfélaga sé veittur kostur á að gera till. um úthlutun styrkjanna. Rn. yrði ekkert bundið við þær till., þótt þessi brtt. okkar yrði samþ. Ég skildi hv. frsm. svo, að það væru einhver andmæli gegn þessari brtt. að því leyti, að tvö leikfélög, í Hafnarfirði og á Selfossi, hefðu mælt með frv. óbreyttu. Það getur ekki verið, að þau hafi verið búin að taka neina afstöðu til þessarar brtt., því að hún var ekki til, þegar umsagnir þessara félaga komu, og geta því ekki verið bundnar neitt við hana. Þau eru aðeins ánægð með frv. í heild, og það eru fleiri og þ. á m. ég, en það er ekki afstaða gegn þessari tillögu.

Bandalag ísl. leikfélaga hefur mikilsverðu hlutverki að gegna. Aðalviðfangsefni þessa bandalags eru m.a. þessi: að annast samstarf um leiklistarmálefni við ríkisvaldið og aðra innlenda aðíla, að samræma starfsemi leikfélaga og leikhópa og beita sér fyrir samræmingu í byggingu leiksviða, að gangast fyrir fræðslu og kennslu í leiklist, að annast sameiginlega innkaup á þeim varningi, sem leikstarfsemi þarfnast, að annast útvegun hentugra verkefna og sjá um fjölritun þeirra eða útgáfu, að annast fyrirgreiðslu um önnur mál, sem falla undir markmið bandalagsins. Þetta eru meginviðfangsefni bandalagsins. Í Bandalagi ísl. leikfélaga eru nú 37 leikfélög, 26 ungmennafélög, ein stúka og eitt kvenfélag, eða 65 félög alls. Þessi þátttökufélög bandalagsins eru dreifð um allt landið, í Reykjavík, kaupstöðum, kauptúnum og sveitum. Af þessu má sjá, að stjórn og framkvæmdastjóri bandalagsins eru öllum öðrum kunnugri högum og fjárhag þessara einstöku leikfélaga. Það verður því varla fundinn dómbærari aðili til þess að gera tillögur um skiptingu styrkjanna. Þá er það ljóst af 6. gr. þessa frv., að bandalaginu er treyst til mikilsverðra starfa. En í þessari 6. gr. segir m.a. , með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar nægilegt fé er veitt til þess á fjárl. eða á annan hátt, skal Bandalag ísl. leikfélaga í samráði við þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur koma á fót og reka búninga-, leiktjalda og leikmunasafn til afnota fyrir leikfélög landsins.“

Það er því sýnilegt af þessu, að verkefni bandalagsins eru allmikil og að höfundar þessa frv., sem er stjórnskipuð nefnd, hefði ekki farið að setja slíkt ákvæði sem þetta í frv., ef hún hefði vantreyst á nokkurn hátt bandalaginu til þess að leysa þessi verkefni og önnur hliðstæð verkefni vel af hendi. En nú hefur fjárstyrkur til bandalagsins verði heldur af skornum skammti að undanförnu. Á fjárl. yfirstandandi árs munu vera 150 þús. kr. veittar til bandalagsins. Þetta sjá allir, að er ákaflega lág upphæð, miðað við þau verkefni, sem bandalagið hefur að leysa. Og það er svo lágur styrkur, þetta, að það er varla hægt að telja bandalagið starfhæft miðað við þau verkefni, sem því er ætlað að vinna, ef það á að lifa á þessum fjárstyrk. Nú hefur bandalagið sótt um hækkun á þessum styrk til hv. fjvn., og menntmrn. sjálft hefur nú þegar mælt með því við fjvn. að hækka styrkinn úr 150 í 360 þús. Þetta sýnir, að menntmrn, metur mikils störf þessa bandalags. Þegar á allt þetta er litið, sýnist mér full sanngirni mæla með því, að styrkjum til leikfélaganna verði skipt að fengnum till. frá Bandalagi ísl. leikfélaga, eins og segir í þessari brtt. Hins vegar erum við flm. hennar á engan hátt að skerða vald ráðh. til að úthluta styrkjunum. Það eina, sem við förum fram á, er það, að bandalaginu gefist kostur á að gera till. um skiptinguna. Ég vænti þess því, að hv. þm. sjái, að það sé sanngirnismál að verða við þessum óskum bandalagsins.