08.12.1964
Efri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var þar samþ. við 3. umr. með shlj. atkv. hv. dm.

Upphaf þessa máls er það, að fyrir 2 árum hækkaði hið háa Alþingi fjárveitingu til leiklistarstarfsemi áhugamanna eða til leikfélaga úr um 470 þús. í 660 þús. kr., en jafnframt var þeim sið hætt, að Alþingi skipti fjárveitingu milli hinna einstöku leikfélaga, sem starfa víðs vegar um landið, í ákveðnar upphæðir, en venjan hafði verið sú, að Leikfélag Reykjavíkur hafði haft mjög verulegan styrk, eða um 150 þús. kr. nokkurt árabil, Leikfélag Akureyrar, hið næststærsta, hafði haft um 30 þús. kr., en önnur leikfélög höfðu haft sama styrk, 8 þús. kr. hvert þeirra. En talið var nauðsynlegt að hækka þessar styrkveitingar, eins og gert var með aukningunni úr 470 þús. í 660 þús. kr., en jafnframt var menntmrn. falið að skipta þessu fé milli hinna einstöku leikfélaga. Þegar farið var að undirbúa þessa skiptingu í menntmrn., kom tvennt í ljós. Við töldum í fyrsta lagi, að mjög æskilegt væri að hafa sem fastastar reglur til að miða slíka skiptingu milli leikfélaganna við, því að engan veginn væri eðlilegt, að öll leikfélög nytu sama styrks án tillits til þess, hvernig starfsemi þeirra væri hagað, og í öðru lagi þóttumst við sjá, að þótt þetta fé hefði verið aukið verulega frá því, sem áður var, upp í 660 þús. kr., væri þörf fyrir enn meira fé til þessarar starfsemi.

Menntmrn. skipti fénu í það skipti, en hóf þá um leið undirbúning að því að koma á fastari reglum um styrkveitingar til leikfélaganna. Það hafði orðið góð reynsla af því að koma fastari reglum en áður höfðu nokkurn tíma gilt á fjárveitingar til tónlistarskóla með nýsettri löggjöf um opinbera styrki til tónlistarskóla. Þess vegna var það, að ég kvaddi til ráðstefnu um leiklistarmál, sem haldin var dagana 16. og 17. maí 1963, og sóttu hans fulltrúar frá næstum öllum starfandi leikfélögum í landinu auk embættismanna, sem um leiklistarmál fjalla, þjóðleikhússtjóra, útvarpsstjóra, og fulltrúa frá ráðuneytinu. Þar voru þessi mál rædd ýtarlega, og niðurstaða fundarins varð sú, að skynsamlegasta leiðin, sem unnt væri að fara í þessum efnum, væri sú að setja sérstaka löggjöf um fjárhagslega aðstoð af hálfu hins opinbera við starfsemi áhugamanna um leiklist.

Strax í framhaldi af þessari ráðstefnu skipaði menntmrn. nefnd til þess að semja frv. til 1. um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna, og voru í n. skipaðir þeir Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri menntmrn., Guðlaugur Rósinkranz þjóðleikhússtjóri, Helgi Skúlason, formaður Leikfélags Reykjavíkur, Valgeir Óli Gíslason, sem þá var formaður Bandalags ísl. leikfélaga, og Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri. Sú n. samdi frv. það, sem hér liggur nú fyrir hinu háa Alþingi.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að styrkveitingar til leikfélaga skuli vera í tveim flokkum, A og B-flokki, og skulu styrkveitingar vera misháar í flokkunum. Í A-flokknum er gert ráð fyrir frá 30—100 þús. kr. styrkveitingum til hvers félags, en í B-flokki 10—30 þús. kr. styrkveitingum til hvers félags. En skilyrði til þess, að félag teljist til A-flokks, eru þau, að það sýni a.m.k. 2 leikrit á ári, sem hvort um sig sé fullkomin kvöldsýning, og fullgildur leikstjóri setji leikritið á svið og félagið hafi ráð á húsnæði og sviðsbúnaði, sem nægi til sýninga á þeim leikritum, sem valin séu til flutnings. Í hinum flokknum, sem gert er ráð fyrir að njóti nokkru minni styrks, 10—30 þús. kr., eru ekki gerðar meiri kröfur til leikfélagsins en þær, að það sýni a.m.k. 1 leikrit á ári sem sjálfstæða sýningu og sé þetta fullkomin kvöldsýning eða styttra leikrit, sem sé með menningarlegu efni, ásamt upplestri, söng, hljóðfæraslætti eða einhverju þvílíku.

Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir því, að fjárveiting sé veitt árlega á fjárl. í þessu skyni til styrktar starfsemi leikfélaganna og sé hún ekki minni en 1 millj. kr., en jafnframt eru lögbundin framlög frá hlutaðeigandi bæjareða sveitarsjóðum á móti styrkjum til félaga í báðum flokkunum. Er gert ráð fyrir því, að í hærri styrksflokknum skuli koma a.m.k. jafnhá framlög frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóði, en í hinum flokknum, B-flokknum, þar sem er gert ráð fyrir, að þau félög starfi yfirleitt í dreifbýli eða þar sem færra fólk býr, er ekki gert ráð fyrir, að framlag hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóðs sé nema helmingur eða 50% af því framlagi, sem félagið fær frá ríkinu.

Þetta er meginefni frv. Nd. samþykkti smávægilegar breytingar á frv., sérstaklega að því er varðar barnasýningar, og tel ég þær breytingar vera til bóta. Gert er ráð fyrir því, að einnig sé heimilt að styrkja sérstaklega barnaleikrit, og aukin voru ákvæði frv. um heimild til þess að styrkja sérstaklega íslenzk leikrit.

Ég tel, að leikfélög áhugamanna hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki í íslenzku leikhúslífi. Það eru ekki nema tæp 16 ár síðan íslenzkt þjóðleikhús tók til starfa, og samt sem áður hefur þetta íslenzka þjóðleikhús allan sinn starfstíma getað starfað sem fullgilt atvinnumannaleikhús. Ég tel því engan efa, að slíkt hefði verið alger ógerningur, ef ekki einmitt hér í höfuðstaðnum hefði um meira en hálfrar aldar skeið starfað áhugamannaleikhús, áhugamannaleikfélag, Leikfélag Reykjavíkur, sem tókst fyrir mikið og fórnfúst starf að ala upp áhugaleikmenn, sem gátu gengið til fulls starfs í þjóðleikhúsi Íslendinga, þegar það tók til starfa. Og raunar var atvinnuleikmennskan hjá Leikfélagi Reykjavíkur þá þegar, eða þegar þjóðleikhúsið tók til starfa, komin á það hátt stig, að Leikfélagið kaus ekki að leggja starfsemi sína niður, heldur starfaði fyrst áfram sem áhugamannaleikfélag, en hefur nú nýlega breytt starfsemi sinni þannig, að nú má telja það einnig vera fullgilt áhugamannaleikhús. Einnig starfa hér í höfuðstaðnum leikflokkar, sem fást við nýgræðing á sviði leiklistar og leggja sérstaka áherzlu á að kynna nýjungar í þessum efnum.

Ég tel, að utan Reykjavíkur ætti þróunin að verða og gæti orðið með nokkuð líkum hætti og hún varð hér í Reykjavík. Upp úr starfsemi áhugamannaleikhússins utan Reykjavíkur á tvímælalaust að geta og mun rísa fullkomin atvinnumannastarfsemi á sviði leiklistarinnar, og að því ber tvímælalaust að stefna og það tel ég í raun og veru vera einn höfuðtilganginn með þeim aukna stuðningi, sem hér er gert ráð fyrir, að starfsemi áhugamannanna fái. En burtséð frá því er og hefur starfsemi áhugamanna að leiklistarmálum geysimikið menningargildi, ekki hvað sízt úti um hinar dreifðu byggðir. Þar leggur nú mikill fjöldi fólks á sig mikið starf fyrir lítil sem engin laun. Það starf hefur svo mikið menningargildi, að ég tel það engum efa undirorpið, að sú starfsemi á mun meiri stuðning skilið en hún hefur notið undanfarið, og það er einmitt höfuðtilgangur þessa frv. að láta slíkan aukinn stuðning í té og gera hann reglubundnari en hann hefur áður verið.

Þetta frv. fékk mjög góðar undirtektir í hv. Nd., og hið sama leyfi ég mér að vona að verði niðurstaðan hér í þessari hv. deild.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.