17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Frsm. (Auður Auðuns) :

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., miðar að því að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna í landinu og að lögfesta í stórum dráttum reglur um úthlutun þess fjár. sem veitt er á fjárl. í þessu skyni.

Þegar frv. var til 1. umr. hér í þessari hv. þd., fylgdi hæstv. menntmrh. því úr hlaði og rakti í aðalatriðum efni frv. Við afgreiðslu frv. í hv. Nd. tók það nokkrum breytingum. Var þar felld inn í það heimild til að styrkja leiksýningar fyrir börn og rýmkuð sú heimild, sem felst í 2. gr. frv. til að styrkja sýningar á íslenzkum leikritum sérstaklega.

Samkv. 1. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir, eru leiksýningar, sem til greina koma við styrkveitingar, flokkaðar í þrjá flokka. Í Aflokki eru sýningar leikfélaga, þ.e.a.s. félaga, sem eingöngu fást við leiklist og sýna a.m.k. tvö leikrit á ári, sem hvort um sig sé fullgild leiksýning. Í B-flokki eru svo félög, sem sýna a.m.k. eitt leikrit á ári sem sjálfstæða sýningu eða styttra leikrit ásamt öðru menningarlegu efni, eins og það er orðað í frv., og í C-flokki félög, sem sýna a.m.k. eitt leikrit á ári, sem sé sérstaklega ætlað börnum og sé fullgild sýning. Þá er einnig í frv., eins og ég áður sagði, heimild til að styrkja sérstaklega sýningar á íslenzkum leikritum og leiksýningar skólafélaga.

Gert er ráð fyrir, að styrkir til félaga í Aflokki nemi frá 30—100 þús. kr., en í B-flokki 10—30 þús. kr. á ári. Og þá er einnig gert ráð fyrir því, að á móti styrkveitingu í A-flokki af ríkisfé komi a.m.k. jafnhátt framlag frá hlutaðeigandi sveitarfélagi, en til félaga í Bog C-flokki a, m. k. 50% á móti ríkisstyrknum.

Í 6. gr. frv. er rætt um búninga-, leiktjalda og leikmunasafn til afnota fyrir leikfélögin í landinu, sem komið verði á stofn, þegar nægilegt fé hafi verið til þess veitt á fjárl. eða á annan hátt.

Ég ætla, að menn geti verið á einu máli um það, að frv., ef að lögum verður, ætti að verða veruleg lyftistöng fyrir leiklistarstarfsemi í landinu. Viða um land er áhugi fyrir leiklist, en tilkostnaður við leiksýningar og skortur á hæfum leiðbeinendum er þá oft fjötur um fót. Um gildi leiklistar fyrir allan almenning ætla ég, að ekki þurfi að fjölyrða.

Menntmn. þessarar hv. þd. hefur rætt frv. á tveim fundum, og mælir n. einróma með samþykkt frv., en einstakir nm, áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. Þegar málið var afgreitt í n., voru tveir nm. fjarstaddir, eins og fram kemur í nál., þ.e.a.s. hv. 8. landsk. og hv. 1. þm. Norðurl. e. Hæstv. forseti hefur tilkynnt, að útbýtt muni verða brtt. frá hv. 4. þm. Austf. og hv. 1. þm. Norðurl. e., og munu þeir þá að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni brtt. Ég sé svo ekki að svo stöddu til að fjölyrða frekar um frv.