17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. menntmn., er ég fylgjandi þessu frv. og hef ekki lagt fram brtt. við það, m.a. vegna þess, að málið er nú fyrir síðari deild og það er að mörgu leyti æskilegt, að það fái framgang sem fyrst og tefjist ekki mjög úr þessu. Það eru þó ein tvö atriði, sem ég hefði getað hugsað mér lítið eitt á annan veg en er í þessu frv., sem að öðru leyti stefnir að mínum dómi í rétta átt og ætti að geta orðið að verulegu liði í þeirri merku starfsemi, sem þarna er verið að leitast við að efla.

Fyrra atriðið, sem ég vildi aðeins nefna, er, að ég álít, að það þyrfti að fara hóflega í sakirnar af þeim aðilum, sem úthluta þessum styrk til félaga, sem hafa leiklistarstarfsemi með höndum, þar sem í 1. gr. er rætt um Bflokk og talað um, að styrkja megi þau félög hvers konar, sem sýna a.m.k. eitt leikrit á ári sem sjálfstæða sýningu, og sé það fullkomin kvöldsýning eða styttra leikrit með öðru menningarlegu efni. Þarna, sem talað er um styttra leikrit en sem tekur eina venjulega kvöldsýningu, held ég, að sé nauðsynlegt að fara mjög varlega í sakir, af þessi styrkur á ekki að dreifast allt of mikið og verða þá minni en skyldi til eflingar þeirri leikstarfsemi, sem verulega alvarlega er takandi, þar sem verið er að vinna að staðaldri, annað tveggja af leikfélögum eða öðrum félögum, sem hafa leiklist ofarlega á stefnuskrá. Það er vitað, að það er um mjög margvíslegan félagsskap að ræða, sem hleypur til að æfa einhvern leikþátt til þess að sýna á samkomu eða samkomum og skemmtunum, einkum í fjáröflunarskyni, oft og tíðum til að styrkja nauðsynleg málefni. En það er alls ekki aðaltilgangurinn með slíkum leiksýningum að efla leiklist í landinu, en það hlýtur að vera megintilgangur og á að vera megintilgangur þessa frv.

Hitt atriðið, sem ég vildi gera aðeins að umtalsefni, er það, að í þessu frv. er í rauninni ekkí að mínu viti tekið nægilegt tillit til þess, að það er ekki nóg að styrkja með nokkrum fjárframlögum leikfélög, sem halda uppi eða gera tilraun til þess að halda uppi leikstarfsemi úti um landið. Það verður jafnhliða, ef sá styrkur á að koma að verulegu gagni, að sjá sambandi þessara félaga, Bandalagi íslenzkra leikfélaga, fyrir starfsgrundvelli og þá sérstaklega fyrir fjárráðum til þess að vinna að þeim margvíslegu verkefnum, sem þetta samband leikfélaganna vinnur að fyrir þessi félög. Mér er tjáð, að í Bandalagi ísl. leikfélaga séu öll leikfélög utan Reykjavíkur og þar að auki nokkur félög önnur, sem fást við leiksýningar nokkurn veginn að staðaldri. Þessi starfsemi Bandalags ísl. leikfélaga hefur verið styrkt dálítið af ríkisfé allmörg undanfarin ár, en nú, þegar veitt er aukin fjárveiting og aukinn stuðningur til hinna ýmsu leikfélaga, hefur þessi miðstöð þeirra dregizt allmikið aftur úr. En það gefur auga leið, að aukinn stuðningur til hinna mörgu félaga kallar aftur á móti á það, að þau geri auknar kröfur til síns bandalags um margvíslega fyrirgreiðslu. Þetta bandalag sér þeim í fyrsta lagi, eftir því sem föng eru á, fyrir leikritum, fyrir verkefnum, ýmsu í sambandi við útbúnað til þess að sýna leikrit og loks hefur það, eftir því sem það hefur tök á, fyrirgreiðslu um leikstjóra. Sem dæmi þess, hvernig hlutföllin hafa breytzt milli framlags ríkisins til hinna einstöku leikfélaga um landið og til bandalags þeirra, skal ég aðeins nefna það, að árið 1959 voru fjárveitingar þessar, að leikfélög utan Reykjavíkur hlutu 206 þús. kr. ríkisstyrk samtals, en bandalag leikfélaganna 125 þús. kr. Samkv. fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir nú, og samkv. þessu lagafrv. mundu þessar fjárveitingar hins opinbera á næsta ári vera þessar: Leikfélög utan Reykjavíkur fengju 1 millj. kr., en bandalag þeirra fengi 200 þús. kr. Ég vil leggja áherzlu á það í sambandi við þetta mál, enda þótt ég flytji ekki við það brtt. af ástæðum, sem ég nefndi í upphafi, að það er full þörf á að gefa þessu gaum og tryggja bandalagi leikfélaganna nokkuð hækkaðan styrk ú fjárl. nú, ef þessi löggjöf, sem nú er verið að setja, á að koma að tilætluðum notum. Það er mjög hæpið, að hún geri það, nema því aðeins að sambandi þessara félaga sé gert kleift að verða við þeim auknu kröfum, sem til þess hljóta að verða gerðar, ef leikstarfsemi úti um landsbyggðina færist í aukana.