17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

31. mál, leiklistarstarfsemi áhugamanna

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Menntmn. mælir með samþykkt þessa frv., eins og lýst hefur verið, en í nál. segir, að einstakir nm. áskilji sér rétt til þess að bera fram brtt. í samræmi við þetta berum við, ég og Karl Kristjánsson, hv. 1. þm. Norðurl. e., fram eina brtt. við þetta frv. Í 5. gr. frv. er kveðið svo á: „Fjárframlög ríkisins til leiklistarstarfsemi áhugamanna skulu ákveðin í fjárl. árlega, og skal fjárhæðin eigi lægri vera en 1 millj. kr., sem menntmrn. síðan skiptir að fengnum umsóknum og áskildum upplýsingum.“ Till. okkar er um það, að við þetta bætist: „Stjórn Bandalags ísl. leikfélaga skal jafnan gefinn kostur á að gera till. um skiptinguna.“

Í þessari till. felst ekki það, að menntmrn. sé skuldbundið að fara eftir till. bandalagsins. Í henni felst ekki heldur það, að stjórn bandalagsins sé skylt að gera till. um skiptinguna, ef hún hefur ekki áhuga á því eða telur ekki ástæðu til að koma neinum sérstökum sjónarmiðum á framfæri í því sambandi. En með þessu ákvæði, sem í till. greinir, á að tryggja, að samband sé milli stjórnar bandalags leikfélaganna og ráðuneytisins, áður en fjárhæðinni er skipt, og stjórn bandalagsins gefist jafnan kostur á að koma á framfæri þeim sjónarmiðum, sem það vill leggja áherzlu á í sambandi. við skiptingu fjárhæðarinnar. Bandalag ísl. leikfélaga er sú stofnun, sem veitir hinum einstöku félögum hvarvetna um land mjög mikilsverða aðstoð í starfsemi þeirra, og af því leiðir, að bandalagið er sú stofnun, sem öðrum fremur hefur náinn kunnugleika á aðstöðu, hag og starfsemi hinna einstöku leikfélaga. Að dómi okkar, sem berum fram þessa till., er því eðlilegra og betur fyrir málinu séð með því að bæta þessu ákvæði inn í frv., sem við berum hér fram.