16.11.1964
Efri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

11. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., þar sem það var fram borið til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 19. júní s.l.

Í l. um síldarverksmiðjur ríkisins er það ákvæði, að heimilt er að gera samninga við eigendur síldveiðiskipa um það, að þeir leggi aflann af skipum sínum upp í verksmiðjunum til vinnslu. Þá er sá háttur hafður á, að greitt er upp í andvirði síldarinnar 85% af venjulegu útborgunarverði, en síðan er uppgjöri frestað, þangað til rekstur verksmiðjanna í heild hefur verið gerður upp í lok síldveiðitímabilsins. Þá eru eigendur þessarar síldar, sem lögð hefur verið upp til vinnslu, látnir fá viðbót, ef afkoma verksmiðjanna hefur verið þannig, að hún gefi tilefni til hennar, þ.e.a.s. þeir fá þá greitt það, sem afurðirnar að frádregnum kostnaði, og þá innifaldir vextir af stofnkostnaði og fyrning, skilja eftir hlutfallslega af sínum afla í hlutfalli við annan afla, sem lagður hefur verið upp í verksmiðjunum. Þessi háttur hefur verið hafður á nokkrum sinnum, og ýmsir útgerðarmenn hafa heldur kosið að hafa þennan hátt á en að selja beint. En frá því 1961 hefur þetta lítið eða ekki verið gert, fyrr en að s.l. vor kom fram ósk um það frá nokkrum útgerðarmönnum að leggja inn síldina á þennan hátt.

En í síldarverksmiðjulögunum er líka ákvæði um það, að þeir, sem eru samningsbundnir verksmiðjunum á þennan hátt, eigi forgangsrétt til löndunar hjá verksmiðjunum og gangi fyrir öðrum bátum. Nú voru bæði síldarverksmiðjustjórnin og stjórn L.Í.Ú á einu máli um það, að þessi forgangsréttur væri ekki heppilegur, og vildu ekki, að honum væri beitt. Hann kom náttúrlega ekki til, þegar þessari aðferð um síldarsöluna var ekki beitt, og var þess vegna það vandamál uppi, þegar menn sóttu um að leggja síldina inn til vinnslu í vor, að losa úr lögunum þetta ákvæði um, að þessi skip skyldu hafa forgangsrétt til löndunar. Um þetta var fullkomið samkomulag, og fékk ég um það staðfestingu, bæði í bréfi frá L.Í.Ú. og frá stjórn síldarverksmiðjanna, að þessa væri óskað. En verksmiðjustjórnin taldi sér ekki mögulegt að taka við síldinni til vinnslu, nema því aðeins að forgangsréttarákvæðið væri ekki notað. Þá var ekki um annað að ræða en gefa út brbl. um að fella þetta forgangsréttarákvæði úr gildi, og það er efni þessa frv. og eina efni brbl., sem út voru gefin 19. júní s.l.

Ég tel ekki, að ég þurfi að hafa um þetta fleiri orð. Um þetta var fullt samkomulag hjá viðkomandi aðilum. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. sjútvn.