18.12.1964
Neðri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

80. mál, aðstoð við fatlaða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþ. óbreytt og að ég ætla samhljóða. Efni þess er að hækka um 50 aura gjald það, sem lagt var á sælgæti til aðstoðar fötluðu fólki, en það var gert skv. tillögu n., sem um málefni öryrkja og fatlaðs fólks fjallaði, og sett var árið 1959.

Blindir, sem eru æðimargir og hafa ýmsa starfsemi með höndum til styrktar sinum meðlimum, óskuðu einnig eftir því að fá aðstoð, og var leitað eftir því við samtök öryrkja, Sjálfsbjörg, að blindir menn gætu komið þar undir. En það náðist ekki samkomulag um að skerða þetta gjald, sem ætlað var fötluðum í 1. frá 1962, og þess vegna var það ráð tekið að hækka gjaldið um 50 aura og láta sjöunda hluta af því renna. til blindra.

Það voru uppi ýmsar till. frá blindum um það, að aðrir hlutir yrðu skattlagðir í þessu skyni, en það þótti eftir atvikum hentara að hækka aðeins þetta gjald og láta hækkunina renna til þeirra. Þetta gjald, sem lagt er á sælgæti, 3 kr. á kg, var áætlað að mundi gefa á ársgrundvelli 1250 000 kr. en hefur reynzt tæp hálf önnur millj. eða 1440 þús. kr. Það er þess vegna líklegt, að þessi hækkun, sem hér er farið fram á, mundi geta gefið blindum um 240 þús. kr. á ári.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.