02.03.1965
Neðri deild: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

80. mál, aðstoð við fatlaða

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Með lögum, sem sett voru í apríl 1962, um aðstoð við fatlaða, var ákveðið, að 3 kr. gjald af hverju kg af sælgæti framleiddu í landinu rynni í sérstakan sjóð, er nefnist Styrktarsjóður fatlaðra og skal vera í vörzlu félmn. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur það í sér, að þetta gjald hækki úr 3 kr. í 3.50 kr., og frv. er komið til þessarar hv. d. frá Ed. óbreytt, eins og það var lagt fram.

Frv. hefur verið um nokkurt skeið til athugunar hjá heilbr.- og félmn. þessarar d., og hún hefur m.a. fengið um það umsagnir frá Sjálfsbjörg, Landssambandi fatlaðra, frá Blindrafélaginu og frá Blindravinafélaginu. Með tilliti til upplýsinga, sem fram hafa komið í þessum umsögnum, hefur orðið um það fullt samkomulag í heilbr.- og félagsmálan. að leggja til, að í stað þess, að umrætt gjald hækki úr 3 kr. í 3.50, hækki það í 4 kr. Af því leiðir, að n. leggur einnig til breyt. á 2. gr. frv., þannig að 4. gr. l. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1/4 hluta af fé því, sem aflað er samkv. 1. þessum, skal varið til aðstoðar við blinda, en 3/4 hlutum skal varið til byggingar og rekstrar vinnustofnana fyrir fatlað fólk.“

Ég hef aflað mér upplýsinga um það í félmrn., hverju þær upphæðir nemi, sem runnið hafi til viðkomandi félagasamtaka, eftir að l. um aðstoð við fatlaða voru sett árið 1962. Þær upplýsingar eru á þessa leið: Til Sjálfsbjargar, félags fatlaðra og lamaðra á Akureyri, hefur verið veittur 490 þús. kr. styrkur, til Sjálfsbjargar á Sauðárkróki 255 þús. kr. styrkur, til Sjálfsbjargar á Ísafirði 175 þús. kr., til Sjálfsbjargar á Siglufirði 100 þús. kr. og til Sjálfsbjargar í Reykjavík 877 670 kr. Samtals eru þetta 1897 670 kr. En samkv. þeirri brtt., sem heilbr.- og félmn. flytur nú, mun láta nærri, að þetta gjald verði fljótlega, miðað við eitt ár, um það bil 2 millj. kr., og mundi þá koma í hlut blindra samkv. frv. um 1/4 hlutur, eða nálægt 500 þús. kr.

Þá má einnig geta þess, að samkv. þessum sömu l. um aðstoð við fatlaða var ríkisstj. heimilað að leyfa Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins að setja merki Styrktarsjóðs lamaðra og fatlaðra á eldspýtnastokka og greiða félaginu allt að 20 aurum af hverjum stokki, er verzlunin seldi með merki félagsins. Til fróðleiks hef ég einnig spurt að því í félmrn., hversu hárri upphæð þetta næmi á ári, og mér hefur verið tjáð, að s.l. ár hafi sú upphæð, sem Styrktarsjóður lamaðra og fatlaðra fékk á þennan hátt, numið 1 519 220 kr.

Ætlunin hafði verið, að frv., eins og það kom frá hv. Ed., yrði að l. um síðustu áramót, en þar sem dráttur hefur orðið á afgreiðslu þess, er óhjákvæmilegt að breyta gildistökugreininni, og leggur heilbr.- og félmn. til, að l. verði látin öðlast gildi 1. apríl n. k.

Ég mæli svo með því, herra forseti, f. h. heilbr.- og félmn., að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. leggur til, og að greitt verði fyrir afgreiðslu þess, þannig að það geti orðið að lögum 1. apríl n. k.