03.11.1964
Efri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

40. mál, girðingalög

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Vegna fjarveru hæstv. landbrh. vildi ég að beiðni hans fylgja þessu frv. úr hlaði.

Það var í aprílmánuði 1963, sem Alþingi samþ. þál. um að skora á ríkisstj. að láta með hliðsjón af endurskoðun vegalaga endurskoða girðingalög, en gildandi girðingalög eru frá 1952 með nokkurri breytingu frá 1964, sem gerð var í sambandi við vegalögin. Landbrh. bað Búnaðarfélag Íslands að tilnefna tvo menn til þessarar endurskoðunar, og voru tilnefndir Þorsteinn Sigurðsson, formaður félagsins, og Ásgeir L. Jónsson ráðunautur, og af hendi vegamálastjóra Snæbjörn Jónasson verkfræðingur.

Þegar þeir höfðu lagt fram tillögur sínar í málinu, var það sent búnaðarþingi, og fjallaði síðasta búnaðarþing um það og gerði nokkrar brtt.grg., sem fylgdi frá þremenningunum, er prentuð með þessu frv. og sömuleiðis ályktun jarðræktarnefndar búnaðarþings.

Ég vildi vekja athygli hv. d. á því, að grg. n., hinna þriggja manna, er prentuð hér óbreytt, en frv. var nokkuð breytt í samræmi við till. búnaðarþings, og á því þessi grg. ekki að öllu leyti við um sumar gr. En aðalbreyt., sem felast í þessu frv. frá gildandi lögum, má segja að séu þrjár.

Það er í fyrsta lagi varðandi 1. gr., þar sem gerðar eru meiri kröfur en áður um gerð girðinga. Nú er það þannig, að girðingar skulu vera 5 strengja gaddavírsgirðingar og 1 m á hæð, en hér er gerð krafa um 6 strengja gaddavírsgirðingar og 1.10 m á hæð. Þá er í núgildandi lögum ákveðið, að ekki skuli lengra milli jarðfastra stólpa girðingar en 6 m, en það er fært niður í 4 m í þessu frv.

Í öðru lagi kemur svo 5. gr. frv., þar sem ákveðið er um skiptingu kostnaðar við gerð girðinga. Í núgildandi l. er ákveðið, að girðingarkostnaður skuli skiptast milli landeigenda að jöfnu, til helminga, en með 5. gr. er gerð hér breyt. á. Það er gert ráð fyrir, að hálfur girðingarkostnaður skiptist að jöfnu milli eigenda, en hinn helmingurinn skiptist eftir landverði gildandi fasteignamats. Um rökin fyrir þessu segir í grg. um 5. gr. frv. svo, að oft eru jarðir, sem liggja saman, mjög misjafnar að víðáttu og verðmæti, og þegar landamerkjagirðing friðar þannig misstórt eða misjafnlega verðmætt land, verði að teljast sanngjarnt, að tekið sé tillit til þess við skiptingu girðingarkostnaðar, og er í frv. lagt til, að þessi helmingur girðingarkostnaðar skiptist eftir landverði gildandi fasteignamats.

Í þriðja lagi eru gerðar nokkrar breyt. í sambandi við setningu vegalaga frá síðasta þingi. En með l., sem sett voru um leið og vegalögin, nr. 28 frá 1964, var 12. gr. girðingalaganna breytt, en 13.—16. gr. þeirra felldar niður með öllu, vegna þess að ákvæði vegalaga komu þar í staðinn. Nú eru þessar greinar teknar upp aftur breyttar frá girðingalögum, en í samræmi við það, sem segir í vegalögum.

Ég vildi beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að athuga bæði frv. og gildandi girðingalög vandlega, bæði með tilliti til orðfæris og efnis, því að mér sýnist þörf á því. Því er ekki að neita, að núgildandi girðingalög þurftu endurskoðunar við, en mér virðist þurfa að taka öll ákvæði þeirra og þessa frv. til vandlegrar athugunar í nefnd.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv, landbn.