03.12.1964
Efri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

40. mál, girðingalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 3. apríl 1963 samþykkti Alþingi ályktun þess efnis, að ríkisstj. léti endurskoða girðingalög, nr. 24 frá 1. febr. 1952. Þessi ályktun kom fram í sambandi við það, að í vegal., sem nýlega hafa verið endurskoðuð og afgreidd, voru nokkrar breytingar gerðar á ákvæðum girðingalaganna í sambandi við vegi, og þótti þá eðlilegt, að girðingalög væru í heild endurskoðuð, enda orðin allgömul og margar breytingar hafa orðið síðan þau voru gerð, sem gerðu það nauðsynlegt að fenginni reynslu að breyta ýmsu í þessum lögum.

Að tilhlutun landbrn. tilnefndi Búnaðarfélag Íslands formann félagsins, Þorstein Sigurðsson frá Vatnsleysu, og Ásgeir L. Jónsson ráðunaut til að vinna þetta verk, og vegamálastjóri nefndi til Snæbjörn Jónasson verkfræðing. Skilaði þessi nefnd síðan grg. og till. til breytinga við girðingalögin, sem síðan var send búnaðarþingi til yfirlits og athugunar, og gerði jarðræktarnefnd búnaðarþings nokkrar breytingar á því, sem n. hafði lagt til, og féllst hún á þær breytingar. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er því samið af báðum þessum n., bæði mþn. og jarðræktarnefnd búnaðarþings, og hafa þessar nefndir lagt mikla vinnu í að athuga þessi mál, og frv. það, sem hér er nú til umr., er árangur af því starfi. Aðalbreytingar frá gildandi lögum í frv. eru þessar:

Á 1. gr., að girðingar verði hækkaðar, þ.e.a.s. löglegar girðingar, um 10 em upp í 1.10 m og strengjum fjölgað úr 5 í 6, sem áður var, og að staurar verði þéttari, þ.e.a.s. aðalstaurar, og ekki nema 4 m á milli, í stað þess að áður var talið sæmilegt, að væru 6 m á milli aðalstaura. Enn fremur að löggilda skurðgröfuskurði og aðra jarðdjúpa skurði sem girðingu, ef þrír strengir eru á skurðbakka. Um þetta voru ekki ákvæði áður.

Við 5. gr. er gerð sú breyting á gildandi lögum, að girðingarkostnaður, þar sem um er að ræða girðingar á landamerkjum, verði ákveðinn þannig, að landverð samkv. fasteignamati verði lagt til grundvallar, þegar girðingakostnaði er skipt á milli hlutaðeigandi. Þetta er grundvallarbreyting frá því, sem áður hefur gilt.

Við 6. gr. eru verulegar breytingar gerðar á aðferð til að meta ýmisleg atriði í sambandi við girðingar, sem ekki verður samkomulag um, og telur landbn. þessarar hv. d., að þær breytingar séu allar til bóta. Það er einfaldara í framkvæmd og fljótara að ná saman þeim nefndum, sem þetta eiga að hafa með höndum, en gert er ráð fyrir, að það séu úttektarmenn sveitarfélags og oddamaður verði ráðunautur í viðkomandi búnaðarsambandi, og svo nánar tiltekið um, ef girðingar eru á hreppamörkum eða sýslumörkum, og svipaðar aðferðir þar viðhafðar. Þá er enn fremur lagt til, að þar sem um girðingar er að ræða milli heimalanda og afréttarlanda, verði hlutur upprekstrarfélagsins eða sveitarfélagsins gerður hærri en verið hefur, en hlutur landeigandans, þ.e.a.s. eigenda jarða eða ábúenda, verði gerður minni en áður. Ábúendur greiða nú 1/4 af girðingarkostnaði, en sveitarfélagið eða upprekstrarfélag 3/4, en nú er lagt til, að þetta verði 1/5, sem ábúandi greiðir, og sveitarfélagið 4/5. Þetta telur landbn. enn fremur til bóta.

Þá koma ný ákvæði um skyldur jarðeigenda og ábúenda um að fjarlægja girðingaflækjur eða ónothæfar girðingar, sem víða hafa staðið til skaðræðis búpeningi í löndum, þar sem hætt er að halda girðingum við, og er þetta tvímælalaust til mikilla bóta. Enn fremur eru ákvæði um það, hverjum beri að annast það að fjarlægja þessar girðingaflækjur og kosta verk við það. Landbn. er sammála um, að þetta sé einnig til bóta og horfi í rétta átt.

Eins og fram er tekið í nál. landbn., var n. sammála um að mæla með frv., með nokkrum breytingum þó, sem prentaðar eru á þskj. 120. Þær breytingar eru margar aðeins orðalagsbreytingar og einnig nokkrar til þess að kveða nákvæmar á um, hvað meint sé, og tel ég ekki ástæðu til að fara út í það. En það eru efnisbreytingar við 1., 5. og 22. gr.

Við 1. gr. er lagt til, að bætt verði inn ákvæði um, að semja skuli reglugerð um það, hvernig ristarhlið skuli vera úr garði gerð, en það færist mjög í vöxt að setja ristarhlið á vegi, og sum eru illa úr garði gerð og geta verið mjög hættuleg fyrir búpening, ef þau eru ekki gerð í upphafi þannig, að fyrirbyggt sé, að hætta stafi af þeim. Lagt er til, að þetta verði ákveðið í reglugerð, sem landbrh. setji.

Svo sem ég vék hér að áðan, er veruleg breyting í frv. frá því, sem gilt hefur áður um það, hvernig kostnaður skiptist milli hlutaðeigenda, þegar um merkjagirðingar er að ræða. Frv. gerir ráð fyrir því, að kostnaður skiptist eftir fasteignamati viðkomandi landa, þar sem girðing aðskilur jarðir. Þetta telur n. vera mjög hæpna reglu og algerlega aðra en gilt hefur áður; vegna þess að landverð fasteigna samkv. fasteignamati lands fer eftir ýmsu öðru en því, hversu margan búpening löndin geta borið eða hvað líklegt sé að mikill búpeningur verði í hverri landareign. Það fer m.a. eftir því, hversu mikið ræktunarland er á jörðinni, og þá þarf það ekki endilega að standa undir búpeningsrækt, það getur staðið undir öðru, t.d. gróðurhúsarækt og jarðeplarækt, kornrækt og ýmsu. Í öðru lagi fer landverð eftir því, hve mikil hlunnindi eru á einni jörð, t.d. æðarvarp, laxveiði, selveiði, jarðhiti eða vatnsafl, og n. varð sammála um það, að það væri óeðlilegt að láta þetta sjónarmið gilda einvörðungu, og leggur til breytingu á þessari grein á þá leið, að hálfur girðingarkostnaður skiptist að jöfnu eftir vegalengd, en hinn helmingurinn fari eftir því, hvert gagn viðkomandi landeigendur hafa af girðingunni, og ef ekki verði samkomulag um það, fari það eftir mati eins og önnur ágreiningsatriði í sambandi við girðingar.

Þá er ein breyting enn, við 22. gr. Það er um það, að skylda til að fjarlægja ónýtar girðingar eða hættulegar girðingaflækjur færist yfir á ábúanda af eiganda, ef hann er búinn að búa á viðkomandi jörð í 10 ár. Þetta taldi n. vera of langan tíma og leggur til, að þessu verði breytt í 5 ár.

Þetta eru aðalefnisbreytingarnar, eins og ég sagði áðan. Aðrar breytingar, sem fram koma á þskj. 120, eru aðallega orðalagsbreytingar, sem enginn ágreiningur er um, og í öðru lagi nokkrar breytingar, sem kveða nánar á um það, hvað við er átt í viðkomandi greinum, heldur en er að finna í frv., og er ekki heldur ágreiningur um þær breytingar.

Að svo mæltu legg ég til fyrir hönd landbn., að þær breytingar, sem hér liggja fyrir, verði samþykktar.