10.12.1964
Neðri deild: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

40. mál, girðingalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til girðingalaga, er komið frá Ed. og var samþ. þar samhljóða með nokkrum breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 120 og öll landbn. stóð að.

Frv. þetta er flutt vegna þess, að nefnd, sem skipuð var að tilhlutan landbrn., endurskoðaði girðingalögin samkv. áskorun, sem samþ. var á hv. Alþingi 3. apríl 1963, um endurskoðun girðingalaganna. Í n. áttu sæti Þorsteinn Sigurðsson, formaður Búnaðarfélags Íslands, Ásgeir L. Jónsson ráðunautur og Snæbjörn Jónasson verkfræðingur, sem var tilnefndur af vegagerðinni.

Síðasta búnaðarþing fjallaði um frv. og gerði við það nokkrar brtt., og hafa þær brtt. verið teknar inn í frv. Þær brtt. eru prentaðar hér með sem fskj. með frv. og þarf því ekki að gera grein fyrir þeim.

Till. þær, sem samþ. voru í Ed. að tilhlutan landbn., eru samtals 5, ekki veigamiklar, en ganga út á það að gera allt tryggilegra í l. en verið hefur, eins og frv. frá upphafi, þ.e. að gera girðingar traustari og betur úr garði gerðar en áður hefur verið.

Þar sem hv. þm. hafa haft þetta frv. lengi á borðinu hjá sér og hafa þegar kynnt sér það, tel ég ekki ástæðu til að rekja það nánar, en vil leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.