04.02.1965
Efri deild: 39. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

116. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé alveg rétt hjá hv. þm., að það sé enginn vafi á því, að hvorki nú né síðar verði hikað við að beita þessari heimild, þannig að einu má gilda þannig, hvort l. verða í því formi, sem þeim er hér ætlað að vera, þ.e.a.s. heimildarlög, eða hvort þetta yrði ákveðið alveg fast. En það hefur nú verið haft í þessu formi, til þess að það geti farið í gegnum tryggingaráð og það lagt fram sínar skoðanir á málinu. Kannske gæti það eitthvað orkað tvímælis, ef það væri beinlínis skylda, hvaða nákvæma tala væri tekin, þannig að það væri heppilegra, að það væri ákvörðun ráðherrans, að fengnum tillögum tryggingaráðs, sem gilti hverju sinni. Annars legg ég ekkert upp úr þessu og get alveg eins fellt mig við það, ef hv. þdm. vildu heldur, að þetta væri sett í fast form, heldur en að hafa það í þessu heimildarformi, sem það nú er í frv.