08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

116. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt það frv., sem hér liggur fyrir, á nokkrum fundum, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Við, sem stöndum að nál. á þskj. 300, leggjum til, að frv. verði samþykkt. Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) áskilur sér þó rétt til að flytja við frv. frekari brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Þá eru fluttar við frv. brtt. á þskj. 301 varðandi aðrar greinar almannatryggingalaganna, þ.e.a.s. brtt. við 26. og 72. gr., sem ég mun koma að síðar. Hv. 9. þm. Reykv. (AG) skilar séráliti. En hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) var fjarverandi, þegar málið var afgr. í nefndinni.

Með þessu frv. er lagt til, að ráðh. sé heimilað, að fengnum tillögum tryggingaráðs, að breyta upphæðum bóta almannatrygginga til samræmis við þær breytingar, sem verða á grunnkaupstaxta verkamanna í almennri fiskvinnu, og í bráðabirgðaákvæðinu, að ráðh. sé heimilað að greiða 5% uppbót á elli- og örorkulífeyri frá 1. júlí 1964, þar til frv. öðlast lagagildi. En það er áætlað, að sú hækkun, sem varð á árinu 1964 á grunnkaupstaxta verkamanna við almenna fiskvinnu, sé alveg um 5%.

Sú breyting, sem á yrði skv. þessu frv., yrði sú, að eftirleiðis yrði ráðh., að fengnum tillögum tryggingaráðs, heimilað að ákveða upphæðir bóta skv. því, sem áður segir, í stað þess að nú þarf til þess lög hverju sinni. Það hefur, eins og hv. þm. muna, oft verið gert. Hefur þá verið miðað við almennar launahækkanir, sem orðið hafa, ýmist á launum verkamanna almennt eða launum opinberra starfsmanna, en það síðast talda hefur þó ekki getað verið viðmiðunargrundvöllur, eftir að lögin um kjaradóm komu til framkvæmda.

Ég skal þá víkja að brtt. á þskj. 301, sem eins og áður segir eru við 26. og 72. gr. almannatryggingalaganna.

Eins og hv. þdm. eflaust muna, voru fram til ársins 1960 undanþegnir iðgjaldagreiðslu til almannatrygginga þeir, sem hvorki greiddu tekju- né eignarskatt. En þegar ríkisstj. á árinu 1960 beitti sér fyrir hinni miklu skattalækkun með stórkostlegum persónufrádrætti, lækkaði tala þeirra, sem tekjuskatt greiddu, niður í eitthvað milli fjórða og fimmta hluta þess, sem áður var. Þá var þessi viðmiðun almannatryggingalaganna þar með orðin næsta óeðlileg, og var tekinn upp sá háttur að miða við útsvarsskyldar tekjur, og í núgildandi lögum um almannatryggingar, frá árinu 1963, er í samræmi við það miðað við ákveðnar upphæðir í krónutölu, þ.e.a.s. hreinar tekjur á skattárinu hafi ekki farið yfir 15 þús. kr. fyrir einstakling, 25 þús. kr. fyrir hjón og 6 þús. kr. til viðbótar fyrir hvern ómaga á framfæri.

Á s.l. ári var með l. nr. 51 frá 1964 gerð sú breyt, á l. um tekjustofna sveitarfélaga, að persónufrádráttur við útsvarsálagningu var aukinn í 25 þús. kr. fyrir einstaklinga, 35 þús. fyrir hjón og 5 þús. fyrir hvert barn innan 16 ára á framfæri, og útsvarsstiganum var jafnframt breytt. Eftir þessa breytingu á tekjustofnal. eru ákvæði almannatryggingalaganna, þar sem iðgjaldaskylda er bundin við ákveðnar tekjur í krónutölu, ekki lengur í fullu samræmi við þá hugmynd, sem að baki lá, nefnilega að skylda til iðgjaldagreiðslu miðist við það, að hlutaðeigandi hafi haft útsvarsskyldar tek jur. Til samræmingar eru því brtt. á þskj. 301 fluttar, og þær eru um það eitt, að í stað tiltekinna upphæða í krónutölu, skuli miðað við það, að gjaldandi hafi haft útsvarsskyldar tekjur á skattárinu, eins og þær eru ákveðnar í 2. og 3. mgr. 31. gr. l. nr. 51 frá 1964, um tekjustofna sveitarfélaga.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt. Ég sé, að hv. 9. þm. Reykv. hefur flutt á þskj. 298 brtt. við frv., sem hann að sjálfsögðu mun gera grein fyrir, og sé ég ekki að svo komnu ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.