08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

116. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka það fram, að að brtt. á þskj. 301 stendur öll heilbr.- og félmn. Hér er ekki um meiri eða minni hl. að ræða, eins og segir á þskj., heldur hafa þær till., sem eru viðbót við frv. sjálft, verið samþ. ágreiningslaust. Hins vegar varð ekki samkomulag í n. um afgreiðslu frv. í því formi, sem það hefur lagt fram. Ég flyt sem minni hl. tvær brtt. við sjálft frv., og eru þær á þskj. 298. Ég vil gera stuttlega grein fyrir þessum brtt.

Í 1. gr. frv. segir, að verði breyting á grunnkaupstaxta verkamanna við almenna fiskvinnu, sé ráðh. heimilt, að fengnum till. tryggingaráðs, að breyta upphæðum bóta samkv. l. þessum í samræmi við það. Hér er m.ö.o. heimil að að hækka bótafjárhæðir almannatrygginga í samræmi við hækkun á grunnkaupstaxta verkamanna. Hér er um mikið réttlætis- og sanngirnismál að ræða, og ber að fagna því, að þetta komi fram. Hið eina, sem mér finnst að í þessu sambandi, er, að hér er aðeins um heimild að ræða, en ekki skyldu. Hingað til hefur hið háa Alþingi haft þessi mál í sínum höndum og tekið hverju sinni afstöðu til breytinga á upphæðum bóta almannatrygginga. Nú ætlar Alþ. með þessu að afhenda ráðh. þetta vald. Það á að vera komið undir vilja eða geðþótta ráðh., hvort og hvenær þessari heimild skuli beitt. Þetta finnst mér ekki rétt, mér finnst það ekki sanngjarnt, og ég held, að þetta vaki ekki fyrir frv.- flytjendum. Ég hygg, að fyrir þeim vaki, að þetta skuli gert hverju sinni. Og ef svo er, hvers vegna skyldi það þá ekki koma fram í orðalagi greinarinnar. Ég legg sem sagt til, að í staðinn fyrir þessa heimild komi skylda, að bætur almannatrygginga skuli hækka til samræmis við grunnkaupshækkanir verkamanna við almenna fiskvinnu.

Í ákvæðum til bráðabirgða kemur nokkuð svipað fram. Þar er ráðh. heimilað, að fengnum till. tryggingaráðs, að ákveða greiðslu 5% uppbóta á elli- og örorkulifeyri á tímabilinu frá 1. júlí til gildistöku þessara laga. Finnst mér um hreinan óþarfa að ræða að tala hér um heimild. Annaðhvort hefur það verið ætlun frv.-flytjenda, að þetta skyldi gert í eitt skipti fyrir öll, eða það hefur ekki verið meining þeirra. Ég tel því sérstaka ástæðu til þess, að þetta sé orðað svo í þessu tilviki, að greidd skuli 5% uppbót á elli- og örorkulífeyri á tímabilinu frá 1. júli 1964 o.s.frv. Hitt er út í loftið, að tala hér um heimild eða fara að leita álíts tryggingaráðs, eftir að Alþingi væri búið að samþykkja þetta. Hér mun það einnig vera ákveðin ætlun frv.-flytjenda, að þetta skuli gert, og þá er rétt að orða frv. í samræmi við það.

Í þessu ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir, að greidd skuli 5% uppbót á elli- og örorkulífeyri á þessu ákveðna tímabili. En það á ekki að greiða þessar uppbætur á neinar aðrar bótafjárhæðir almannatrygginganna. Meiningin með þessu ákvæði um 5% hækkun er sú, að talið er, að grunnkaup verkamanna við almenna fiskvinnu hafi á árinu 1964 hækkað sem svarar þessu, hækkað um 11%. Hvers vegna er þetta ekki látið ná til allra bótafjárhæða almannatrygginganna, en aðeins til tveggja tegunda? Nú er það þó ætlunin, að í framtíðinni skuli fylgjast að hækkun á grunnkaupi og hækkun á bótafjárhæðum, öllum bótafjárhæðum almannatrygginganna. En í þetta sinn á að skera við nögl sér og aðeins láta tvær bótategundir njóta þessa? Ég tel þetta vera sanngirnismál, að 5% uppbót sé greidd fyrir árið 1964, þótt það sé gert eftir á, en ég tel það sjálfsagt, að þetta nái til allra bóta. Sú stefna er tekin upp með frv. að láta þetta fylgjast að, og engin ástæða er til þess að gera undantekningu fyrir þetta tímabil. Ég legg því eindregið til, að allir bótaþegar almannatrygginganna verði þessarar hækkunar aðnjótandi frá 1. júli 1964,

Ég sé ekki betur en þetta sé sanngirniskrafa. Og ég efast ekki um, að þeim, sem frv. þetta flytja, finnist það í raun og veru líka. Hvers vegna á að skilja tiltekinn fjölda bóta undan í þessu efni? Ég vil meina, að þetta eigi einnig að ná til fjölskyldubóta, sem þó að margra dómi hafa nokkra sérstöðu innan tryggingakerfisins. Úr því að verið er að halda í fjölskyldubætur í því formi, sem þær eru nú, eiga þær vitanlega að njóta hækkana í samræmi við dýrtíð, enda er það ætlunin í framtíðinni samkvæmt þessu frv. Nei, það eina, sem mælir á móti því að láta réttlætið gilda fyrir alla í þessu efni, er að sjálfsögðu kostnaðurinn. Þetta kostar fé, og það er í sjálfu sér dyggð af stjórnarvöldum að vera sparsöm á fé þjóðarinnar. En ég tel það þó koma sérstaklega illa niður í þessu tilfelli, þar sem um er að ræða yfirleitt það fólk í þjóðfélaginu, sem lakast er sett og verður tilneytt að njóta þessarar hjálpar, að sparnaður hæstv. ríkisstj. skuli sérstaklega koma niður á þessu fólki. Fé til 5% hækkunar þessara tveggja bótategunda er ekki talið vera fyrir hendi nú, heldur verði að greiða það upp á næsta ári, og það er hægt að gera það sama um allar bætur, jafnvel þótt það kosti fáeinum milljónatugum meira. Ég legg því eindregið til, að allar bætur almannatrygginga verði aðnjótandi þessarar hækkunar frá 1. júlí 1964 til gildistöku laganna.