08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

116. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera lítils háttar nánar grein fyrir því, sem virðist vera ágreiningsefni á milli hv. 9. þm. Reykv. og þess eða þeirra, sem frv. hafa samið.

Hv. þm. veit það eins vel og ég, að allar bætur almannatrygginganna hafa ekki verið taldar — ég vil segja jafnréttháar, ef ég má kveða svo að orði. Fjölskyldubætur t.d. hafa ekki verið látnar fylgja öðrum bótahækkunum, og sama má segja, að sé gert í öðrum tilvikum. T.d. undirstrikaði hv. þm., að hann væri aðili að brtt: á þskj. 301, en þar er gerður munur á bótum og það verulegur. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanþegnir gjaldskyldu eru þeir, sem hafa notið bóta samkv. þessum kafla, annarra en fjölskyldubóta, barnalífeyris, mæðralauna og fæðingarstyrks, tvo mánuði eða lengur.“

Þarna eru þeir, sem hafa notið þessara bóta, sem nefndar eru í till. hv. þm. sjálfs, ekki jafnréttháir um það, að iðgjöld þeirra verði greidd af sveitarfélögunum, eins og hinir, sem njóta annarra bóta. Þess vegna er það út af fyrir sig ekkert nýtt, að það sé nokkur munur á gerður í ýmsum tilvikum, hvernig þessar bætur eru hækkaðar. Ég held, að það sé ágreiningslaust, að ellilífeyririnn og örorkubæturnar séu þær viðkvæmustu og þær, sem þurfi að leiðréttast mjög fljótlega við verðbreytingar í landinu, og þess vegna hafa þær verið teknar út úr í ákvæðunum um að greiða þessar hækkanir frá 1. júlí til gildistöku frv. En náttúrlega má endalaust um það deila, hvort ekki ætti þá að taka eitthvað fleira með. En ég undirstrika bara, að jafnvel í huga hv. þm. sjálfs er gert upp á milli bótaþeganna, eins og kemur fram í brtt. á þskj. 301, sem hann telur sig vera aðila að.

Hitt atriðið, sem virðist hafa valdið nokkrum ágreiningi hjá honum, er það, að hér er einungis um heimildarákvæði að ræða, en hann telur sjálfsagt að hafa þetta skyldu. Nú skal ég segja honum það alveg skýlaust sem mína meiningu, eins og hann líka tók fram í sinni ræðu, að ég held, að ég geti fullyrt, að það sé ákveðinn vilji, a.m.k. núv. ríkisstj., að þessi heimild verði notuð. En einmitt þetta atriði, sem ég nefndi áðan um það, að það geta verið tilvik, þar sem mismunandi aðstaða kemur til greina, gerir það að verkum, að það er betra að hafa ákvæðið það rúmt, að það sé hægt að víkja til, ef það sýnist rétt og nauðsynlegt. Ég skal taka fjölskyldubæturnar t.d. Þær eru að mjög verulegu leyti tengdar skatta- og útsvarsákvæðum og raunverulega eiga þær fullkomlega sammerkt við þá lagasetningu. Þess vegna getur verið nauðsynlegt að hafa heimild til þess, ef það þykir að athuguðu máli réttara, að láta fjölskyldubæturnar ekki njóta þessara hækkana, hafa það sem sagt á valdi ríkisstj., hvort gert er. Og það er sú hugsun, sem liggur á bak við þetta ákvæði, að hafa þetta heimild, en ekki skyldu. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að þessi háttur, sem hafður er á í frv., að hafa þetta heimildarákvæði, er ekki á neinn hátt fram kominn vegna þess, að ríkisstj. vilji skjóta sér undan því að gera þessar hækkanir á bótunum, en einungis vegna þess, að hún telur, að það geti verið praktískara í framkvæmd að hafa þetta þannig, að það megi nokkuð hnika til eftir ástæðum, sem nauðsynlega verður að taka tillit til. Ef svo væri ekki, gæti ég fyrir mitt leyti alveg fallizt á að hafa þetta skyldu. En ég tel þetta praktiskara, ekki til þess að svíkjast undan því að greiða þessar hækkanir, heldur til þess að þær séu praktískt framkvæmanlegar.