19.11.1964
Neðri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

58. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fjhn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli og meiri hl. hennar fyrir stuðning við málið.

Ég tel ekki ástæðu til þess að gera þetta frekar að umræðuefni að öðru leyti en því, að mér virðist kenna nokkurs misskilnings bæði í ræðu og nál. hv. minni hl. fjhn. Þar er í rauninni gengið út frá og gefið í skyn, að með ákvæðum frv. um ráðstöfun á þessu fé sé ríkisstj. að taka vald af Alþingi, nokkurs konar fjárveitingavald eða ráðstöfunarrétt á þessum fjármunum. Ég segi: hér er um algeran misskilning að ræða, vegna þess að þær verklegu framkvæmdir, sem á að verja þessu fé til, eru allar þegar ákveðnar af Alþingi, og Alþingi veitti ríkisstj. einmitt heimildir til þess að taka lán til þess að hrinda þessu í framkvæmd. Ég skal nefna þess dæmi, að nokkuð af þessu fé, væntanlega í kringum 8 millj. kr., á að fara til vegamála, og það er til þriggja vega, sem fjárlög í ár og fyrra hafa sérstaklega gert ráð fyrir að ríkisstj. tæki lán til, en það er Reykjanesbraut eða Keflavíkurvegur, það er Ennisvegur og Múlavegur. Sem sagt, í fjárlögum fyrir þetta ár og s.l. ár hefur Alþingi beinlínis falið ríkisstj. að afla lánsfjár til þessara þriggja vega. Hér þarf því enga nýja ákvörðun frá Alþingi um það, að þessu væntanlega láni megi verja í þessu skyni, vegna þess að sú ákvörðun og sú heimild liggur fyrir. Það má nefna annað, það er gert ráð fyrir, að nokkur hluti af þessu fari til sjúkrahúsa, þ.e.a.s. til byggingar landsspítalans, en í fjárl. bæði í ár og í fyrra eru í 22. gr. beinlínis veittar lánsheimildir til þess að ýta þessum framkvæmdum betur áfram en fjárframlög í sjálfum fjárlögunum leyfa. Á s.l. þingi voru sett lög um kísilgúrverksmiðju og vegna undirbúnings hennar þarf um 3 millj. nú, sem var meiningin að taka af þessu væntanlega láni. Þetta hefur Alþingi þegar ákveðið með lögum og sett lánsheimild í þau lög og þar með ætlazt til þess, að ríkisstj. útvegaði lánsfé í þessu skyni. Varðandi hafnir, sem er ein tegund þeirra framkvæmda, sem á að verja þessu láni til, þá er það vegna landshafnanna tveggja, sem á að verja þarna fé. Það er ekki há upphæð, væntanlega í kringum 4—5 millj., og fyrir því eru heimildir og ákvarðanir Alþingis í l. um þær hafnir. Þá eru það raforkuframkvæmdirnar. Það er

gert ráð fyrir, að það fari væntanlega í kringum 17 millj. af þessu láni til raforkuframkvæmdanna, sem Alþingi hefur líka ákveðið og heimilað og falið ríkisstj. að afla lánsfjár til, að því leyti sem annað fé hrekkur ekki til.

Að því leyti er varðar ráðstöfun á fé því, sem kæmi inn vegna þessarar lántöku til verklegra framkvæmda, þá er hér ekki um það að ræða, að ríkisstj. sé að taka sér vald, taka vald af Alþingi og verja fé til einhverra nýrra hluta, heldur er hér beinlínis verið að útvega fé til þeirra framkvæmda, sem Alþingi er áður búið að samþykkja og heimila eða fela ríkisstj. að útvega fé til. Að því er hins vegar varðar ráðstöfun á þeim hluta lánsins, sem ekki þyrfti að nota til þessara hluta, er gert ráð fyrir, að megi greiða skuldir og nota það til greiðslu skulda ríkissjóðs eða ríkisábyrgðasjóðs. Það má segja, að hér sé nokkuð öðru máli að gegna. En í fyrsta lagi vil ég taka fram, að langsamlega mestur hluti af þessum lánum mundi ganga til þeirra verklegu framkvæmda, sem ég hef hér rakið, en að því er snertir þann afgang, sem kynni að verða, hef ég áður skýrt frá því, að ég teldi eðlilegast að nota hann til þess að greiða nokkuð af lausaskuldum ríkisábyrgðasjóðs, sem hann hefur orðið að taka núna upp á síðkastið, en ekki hefur þótt ástæða til, að hann tæki lán til varanlegs tíma, vegna þess að þessi mál virðast stefna í rétta átt.

Að vísu skal ég taka fram, að það kæmi einnig til greina að nota þetta lánsfé, að því leyti sem ekki þarf vegna framkvæmda í ár, til framkvæmda á næsta ári, þ.e.a.s. í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisins á árinu 1965. Ég vil taka það aftur fram, að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1965 er í endurskoðun og verður væntanlega tilbúin í kringum áramót, og er gert ráð fyrir því, að hún verði lögð fyrir Alþingi, væntanlega í janúarmánuði n. k.

Af þeim ástæðum, sem ég hef rakið, er auðvitað ekki þörf eða ástæða til þess að telja upp í þessum l., til hverra hluta á að verja þessu lánsfé, því að það er allt saman fyrir fram ákveðið af Alþingi.