19.11.1964
Neðri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

58. mál, innlent lán

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru nokkur orð í sambandi við aths. hæstv. fjmrh. — Hæstv. fjmrh. telur, að það sé óþarft að taka það fram í þessum l., að Alþingi skuli ráðstafa því fé, sem inn kemur með þessum hætti, vegna þess að ráðgert sé að verja þessu fé til framkvæmda, sem Alþingi hafi þegar ákveðið, og samkv. heimildum, sem Alþingi hafi þegar gefið. Nú veit hæstv. ráðh., að það er auðvitað alls fjarri því, að með þessu fé verði hægt að vinna tæmandi að framkvæmdum þeim, sem Alþingi þegar hefur ákveðið, eða hægt verði með þessu fé að uppfylla allar þær heimildir, sem Alþingi hefur gefið, bæði til lántöku og annars. Nei, hér er um að ræða, hvort það á að vera Alþingi eða ríkisstj., sem ákveður, hvernig á að verja þessu fé, þegar velja þarf á milli ýmiss konar aðila, sem hér eiga jafnan rétt á. Heimildir ríkisstj. til þess að taka lán ná miklu lengra en til þess, sem hæstv. ráðh. minntist á, svo að þær segja í rauninni ekkert hér um.

Hæstv. ráðh. minntist á, að verja ætti þessu fé t.d. til þriggja vegagerða, sem heimildir væru um að taka lán til, Ennisvegar, Múlavegar og Keflavíkurvegar. Jú, rétt er það. En það eru fleiri vegir, sem ríkisstj. hefur einnig haft heimildir til að taka lán til, og Alþingi hefði kannske mátt segja sitt orð um það, hvort eitthvað af þessu fé hefði átt að ganga til þeirra, eins og hitt líka, hvort eða hvað mikill hluti af þessu fé hefði átt að fara til hverrar þessarar framkvæmdar um sig, því að það hefur ekki verið ákveðið. Það vald vill ríkisstj. taka sér, á sama tíma sem Alþingi er að gera sérstakar till. um það í sambandi við aðrar fjárveitingar, hve mikill hluti skuli fara í hverja þessara framkvæmda um sig. Það er í rauninni hægt að gera fjárveitingavald Alþingis mjög takmarkað a.m.k., þegar þannig er á haldið, að fyrst úthlutar Alþingi tilteknum fjárhæðum í ákveðnar framkvæmdir, en siðan kemur ríkisstj. á eftir með almenna lántökuheimild og breytir þessum hlutföllum, sem Alþingi hefur ákveðið, með sinum úthlutunum á því lánsfé, sem hún hefur yfir að ráða. Og það er þetta, sem ég meina. Lánsheimildir í sambandi við hafnarframkvæmdir eru líka margar til. Þær fjárhæðir, sem hér er gert ráð fyrir að ríkisstj. ráðstafi, það hefur verið gefið upp, að þeim sé ætlað að ganga til þess að gera kleift að framkvæma sérstaka framkvæmdaáætlun, sem ríkisstjórnin hefur samið fyrir árið 1964. Þessa áætlun hefur ríkisstj. ekki lagt fyrir Alþingi, eins og ég hef bent hér á áður, og að því leyti til hefur Alþingi ekki tekið ákvörðun um það fyrir sitt leyti, á hverja þessara framkvæmda ber að leggja mesta áherzlu og til hverrar þessarar framkvæmdar þetta fé ætti fyrst og fremst að ganga. Ég held mér því alveg fast við þá skýringu, sem ég hef gefið hér áður, að það sé eðlilegt í slíkum tilfellum sem þessum, að það verði Alþingi sjálft, sem ráðstafar því lánsfé, sem inn kemur fyrir skuldabréfaútboð, eins og hér er gert ráð fyrir, en það eigi ekki að vera í hendi ríkisstj. einnar, enda hefði líka verið hægur vandi þá fyrir ríkisstj., ef þetta var allt saman svona mótað fyrir, að telja upp eða gera fullkomna grein fyrir því, svo að Alþingi hefði möguleika til þess að gera sínar aths. við, í hvað þetta fé ætti að ganga. En sannleikurinn er sá, að ríkisstj. vill a.m.k. hafa talsvert frjálsar hendur í þessum efnum og hafa talsverðan hluta af láninu þannig óbundinn, að hún geti sjálf tekið ákvörðun um það, að hve miklu leyti sá hluti skuli ganga t.d. til skuldagreiðslna. Það er að vísu rétt, að það eru til ýmis fordæmi um það frá fyrri tímum, að ríkisstj. hafi tekið lán, bæði erlend og jafnvel innlend, og ráðstafað þeim samkv. almennum heimildum Alþingis. En nú færist þetta svo stórlega í vöxt, t.d. bæði með þessu láni og með hinum svonefndu PL-480 lánum eða vörukaupalánum, að ríkisstj. er farin að úthluta á ári hverju — ég býst við upphæð, sem liggur einhvers staðar nokkuð nærri 200 millj. kr. Og ég tel, að það beri að gjalda varhuga við þessu og það eigi að hverfa af þessari braut og ákveða, að það sé Alþingi, sem úthlutar þessu fé, sem tekið er að láni, en hvorki sú ríkisstj., sem nú situr við völd, né aðrar ríkisstj., sem hér kunna að vera. Ég álít það ranga aðferð.