08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

142. mál, nafnskírteini

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er fyrst og fremst eitt ákvæði í þessu frv., sem mér finnst ástæða til að staldra við og óska eftir upplýsingum um, á hverju það sé byggt, en samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að það sé ekki skylda að hafa ljósmynd í nafnskírteininu. Það er að vísu tekið fram í niðurlagi 3. gr.: „Heimilt er að ákveða, að mynd skuli vera á öllum nafnskírteinum,“ — ef þau eru ætluð til nánar ákveðinna nota, en annars er alls ekki um það að ræða, að það sé skylt að hafa mynd í nafnskírteininu, heldur ýmist gert ráð fyrir því, að það sé lagt á vald hvers og eins, hvort hann vill hafa mynd í nafnskírteini sínu eða ekki, og svo aftur tekið fram, nú þegar nota á nafnskírteinið sem persónuskilríki í sambandi við það, þegar lög eða reglugerðir eða reglur áskilja ákveðinn aldur sem skilyrði fyrir því að mega koma á stað, t.d. veitingastað, eða skilyrði fyrir viðskiptum, þá skuli nafnskírteinið þó því aðeins vera gilt sem sönnunargagn um aldur, að mynd sé í því. En það sýnist vera eftir þessu frv. lagt þannig á vald hlutaðeiganda sjálfs, hvort hann vill hafa mynd í skírteininu eða ekki. Ef hann óskar ekki að hafa mynd, þá getur hann það. Að vísu getur það haft þessar afleiðingar fyrir hann, að skírteinið dugi honum ekki sem skilríki, þegar hann vill eiga viss viðskipti eða komast á einhvern tiltekinn stað. En ég verð að segja það, að ég er dálítið hissa á þessu, úr því að verið er með löggjöf sem þessa, að það skuli ekki vera stigið hér greinilegt skref og gert að skyldu, að ljósmynd skuli vera í nafnskírteini. Ég held, að það hljóti flestir að vera sammála um það, að nafnskírteini sé lítilsvirði sem persónuskilríki og sönnunargagn, í vissum tilfellum a.m.k., nema það sé mynd í því, og hvers vegna þá ekki að áskilja það og hafa það sem skyldu. Við vitum, að það er mjög mikil nauðsyn á því í sambandi við viss málefni, að menn gangi með persónuskilríki, sem gefa glögga hugmynd um aldur þeirra.

Ég sé eiginlega ekki, hvað mælir á móti því að áskilja það strax í lögunum, að mynd skuli vera í nafnskírteininu. Ég sé að vísu í athugasemdum, að það er lauslega imprað á því, að því muni vera samfara nokkur kostnaður. Jú, auðvitað er því samfara nokkur kostnaður að láta taka mynd af sér. En þó er það ekki svo veigamikið atriði, að það sé rétt að láta það ráða. En ég gat ekki séð í athugasemdum, að það væri bent á annað, sem mælti gegn því að kveða alveg skýrt á um það í þessum lögum, að ljósmynd skyldi vera í nafnskírteini. Ég held, að það þurfi að vera, ef þetta nafnskírteini á að vera persónuskilríki og sönnunargagn, sem að gagni á að koma. Það er að sjálfsögðu ljóst, að númer mannsins getur komið að notum í vissum samböndum, og við sjáum, að með þessu frv. er sjálfsagt vegna aukinnar tækni siglt hraðbyri í þá átt, að það verður farið að kenna menn bara við númer í stað þess að nota þeirra nöfn. En þótt það geti gengið á vissum stöðum og í vissum samböndum, á það ekki við alls staðar.

Ég vil sem sagt segja það, að ég álít, að það sé mikil þörf á því, einmitt sérstaklega vegna unglinga, að taka þannig upp almenna nafnskírteinisskyldu eða vegabréfaskyldu, ef þeir vilja kalla það svo. En þá á líka að gera vegabréfin eða nafnskírteinin þannig úr garði, að þau komi að fullum notum. Það á ekki að vera með neina hálfvelgju í þeim efnum, þannig að vera að leggja þetta á vald hlutaðeigandi unglings eða hlutaðeigandi aðila, hvort hann lætur gera nafnskírteinið þannig úr garði, að það sé auðvelt að átta sig á því, eða ekki. Það á að lögbjóða þetta að mínum dómi þegar í upphafi.

Ég vildi aðeins drepa á þetta hér við 1. umr., þó að ég að vísu eigi sæti í þeirri n., sem málið fer til, ef því verður vísað til allshn., eins og hæstv. ráðh. gerði till. um. En ég vildi samt vekja athygli á þessu hér og þá ef til vill heyra skýringar á þessu, ef til eru, hvers vegna þessi leið er farin í stað þeirrar, sem hér virðist sjálfsögð, að lögbjóða alveg hreinlega fullkomið nafnskírteini, en vera ekki með neitt hik í þessum efnum. Það er alveg víst, og það víta þeir, sem kunnugir eru þessum málum, að það er full þörf nú á slíkum skírteinum, hér í þessari borg a.m.k.