08.03.1965
Efri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

142. mál, nafnskírteini

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það ber mjög að fagna því, að þetta frv. er hér fram komið, margra hluta vegna, svo sem hér hefur verið rætt um af hæstv. fjmrh. og síðan að vikið af hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ). Ég vil geta þess hér, að milliþn. í áfengismálum, sem kosin var á síðasta þingi og hefur starfað allmikið síðan að athugun þeirra verkefna, sem henni voru fengin, komst mjög fljótlega að raun um það í viðræðum við þá aðila, sem hafa með að gera framkvæmd áfengislaga, að framkvæmd þeirrar löggjafar væri í rauninni útilokuð með öllu, nema algerlega af handarhófi, ef ekki kæmu til nafnskírteini eða vegabréf unglinga.

Það var því fyrsta tillagan, sem þessi nefnd sendi frá sér til ríkisstj., þegar á s.l. sumri, að hafizt yrði handa sem skjótast um setningu löggjafar, er innleiddi vegabréfaskyldu eða persónuskilríkjaskyldu, a.m.k. að vissu aldursskeiði, þannig að öruggt væri, að hægt væri að framkvæma áfengislögin að þessu leyti.

Svo sem hv. þm. muna, var hér til meðferðar í þingi í fyrra frv. um breyt. á áfengislögum, þar sem gert var ráð fyrir ýmsum nýjum ákvæðum til þess að vinna gegn áfengisneyzlu unglinga, og voru þær tillögur undirbúnar af sérstakri nefnd, sem hafði verið skipuð vegna vandræða, sem risið höfðu í sambandi við ýmsar samkomur, sem haldnar voru þá. Þetta frv. varð ekki útrætt vegna ágreinings, sem um það varð, og hefur það síðan verið til athugunar í þessari milliþn. En það var ljóst, að lögfesting þess var tilgangslítil og í rauninni algerlega út í hött, nema því aðeins að vegabréfaskylda eða nafnskírteinaskylda yrði jafnframt lögleidd.

Ég vildi láta þetta koma hér fram til þess að leggja áherzlu á það til viðbótar því, sem þegar hefur verið sagt, að það er brýnasta nauðsyn, að löggjöf um þetta efni verði sett og það sem allra fyrst, og með setningu þeirrar löggjafar mundi vera orðið tímabært að ganga frá þeim tillögum, sem orðaðar voru í fyrra í sambandi við sérstakar breytingar á áfengislögum, til þess að reyna að stemma stigu við óhóflegri áfengisneyzlu unglinga.

Ég vil þess vegna mjög leggja áherzlu á það, að lagt verði allt kapp á, að þetta frv. nái endanlegu samþykki á þessu þingi, og þykist reyndar vita, að allir hv. þm. séu sammála um, að það sé af mörgum ástæðum hin mesta nauðsyn, að tekin verði upp nafnskírteini, ekki eingöngu vegna þessara atriða, sem ég hef hér nefnt, heldur vegna hins, að þegar er orðið hér svo mikið fjölmenni, t.d. hér í höfuðborginni og í hinum stærri kaupstöðum, að það er úr sögunni, að hver þekki annan, ef svo má segja. Og það hafa komið fyrir ýmis vandamál, bæði í sambandi við kosningar og á mörgum öðrum sviðum, sem hafa til orðið vegna þess, að ekki hefur verið fyrir hendi möguleiki til þess að hafa slíkar sannanir á, um hvaða persónu væri að ræða.

Þar sem þetta frv. mun koma til athugunar í nefnd, sem ég á sæti í, sé ég ekki ástæðu til að ræða það nánar í einstökum atriðum. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi hér fram, öllum hv. þm. til vitneskju um það, að á þessu sérstaka sviði, sem ég nefndi, hefur þingmannanefnd sú, sem að þeim málum hefur unnið, verið sammála um, að það væri óumflýjanlegt til frekari aðgerða til úrbóta í áfengismálum, að þessi vegabréfaskylda verði lögleidd.