16.12.1964
Neðri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

104. mál, landgræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrstu lög um reglulega sandgræðslu voru samþ. 1907. Hefur sandgræðslan starfað síðan að skipulegri heftingu eyðingar lands og sandfoks. Þó var það 1895, að lög voru sett, sem veittu sýslunefndum heimild til þess að gera samþykktir um heftingu sandfoks og leggja kvaðir á einstaklinga og félög til þess að vinna í þá átt.

Það fé, sem sandgræðslan hafði til umráða lengi vel, var mjög takmarkað og af skornum skammti. Fyrsti sandgræðslustjóri, Gunnlaugur Kristmundsson, hafði ekki alltaf úr miklu að spila, en hann var þrautseigur, hann var hagsýnn, og honum varð mikið úr því fé, sem hann fékk til ráðstöfunar, og í hans tíð, á meðan hann var sandgræðslustjóri, vannst mikið á þrátt fyrir mjög takmörkuð fjárráð og litlar fjárveitingar.

Það má geta þess, að fyrsta árið, sem sandgræðslan starfaði samkvæmt sandgræðslulögum, var fjárveiting aðeins 2000 kr. og 1920 er fjárveitingin ekki meira en 10 þús. kr. 1930 er fjárveitingin 50 þús. kr., og 1940 fer fjárveitingin niður í 31 þús. kr. Það segir sig sjálft, hvort það hefur verið mikið hægt að gera án þess að nota hverja krónu vel og með hagsýni, eins og reyndar Gunnlaugi Kristmundssyni tókst að gera.

En 1945 eru fjárráðin nokkuð aukin, og þá eru veittar 310 þús. kr. 1950 er fjárveitingin komin upp í 483 þús. kr., 1955 1 millj. 226 þús. kr.. 1958 er fjárveitingin 1 millj. 930 þús. kr., og 1958 er flutt frv. til l. hér á Alþingi, sem. samið var af mþn., og það er flutt í því skyni að auka fjárráð sandgræðslunnar. Það var lagt til að leggja gjald á búpeninginn, eina krónu á hverja sauðkind og 10 kr. á hvern stórgrip. Bændur voru ekki hrifnir af þessari tekjuöflunarleið, og hefur ekki verið reynt síðan að flytja frv. í því formi, en skv. þessu frv. átti einnig að afla fjár með sérstöku gjaldi á tóbak. Þetta frv. dagaði uppi og var endurskoðað af sömu mönnum, sem sömdu frv., sem fram var lagt 1958, og nokkrar breytingar á því gerðar, m.a. að sleppa þeirri hugmynd að afla tekna með gjaldi af búpeningi, en hins vegar var lagt til að leggja aukagjald í þessu skyni á áfengi.

Þetta frv., sem lagt var fram, ekki af rn., heldur af tveimur hv. þm., náði ekki heldur fram að ganga. En endurskoðun sandgræðslulaganna hefur eigi að síður verið haldið áfram, og fjárveitingar til sandgræðslunnar hafa aukizt. Lögin, sem sandgræðslan nú starfar eftir, eru frá 1941 og eru í marga staði merk og góð, þótt eðlilegt sé, að þeim sé breytt. Það má segja, að það hafi verið skaðlitið fyrir sandgræðsluna út af fyrir sig, þátt það drægist nokkuð að breyta lögunum, vegna þess að tekjur sandgræðslunnar hafa á þessum árum aukizt verulega. Eins og ég sagði áðan, var fjárveiting til sandgræðslumála tæpar 2 millj. 1958, 1 millj. 930 þús., en á árinu 1964 5 millj. 390 þús., og samkvæmt því frv., sem nú liggur frammi til fjárl. fyrir árið 1965, verður fjárveiting til sandgræðslunnar á því ári 7 millj. 55 þús. kr., og þetta er 376% aukning frá 1958 og náttúrlega, eins og allir vita, langtum meira hlutfallslega en kostnaðaraukinn, sem orðið hefur við framkvæmdir á þessu tímabili.

Þess vegna er það, að nú hefur verið samið frv. til nýrra sandgræðslu- og landgræðslulaga, og þar er ekkert um tekjuöflun fyrir sandgræðsluna, heldur skulu fjárráð sandgræðslunnar vera á hverjum tíma eftir því, sem fé er veitt á fjárl., og sýnist það vera eðlilegasti mátinn, því að hvort sem fjárins er aflað með sérstöku gjaldi á tóbak eða áfengi, er það raunverulega tekið úr ríkiskassanum, því að flestir munu segja, að takmörk séu fyrir því, hvað verð megi vera hátt á þessum vörum, og það er einmitt mesta öryggið fyrir sandgræðsluna, að fjárveitingar á fjárl. séu auknar, eftir því sem mögulegt er. Og þegar litið er á það, hvaða fjárveitingar hafa verið til sandgræðslumála undanfarin ár og hvaða fjárhæð sandgræðslan hefur nú, þá er náttúrlega ekki hægt annað að segja heldur en að rétt sé stefnt í þessum málum, og hefur sandgræðslustjóri látið þau orð falla í ríkisútvarpinu nýlega, að hinar stórauknu framkvæmdir á vegum sandgræðslunnar hafi því aðeins verið mögulegar, og fjárráð stofnunarinnar hafi verið aukin ríflega nú upp á síðkastið. Og það er vissulega gleðilegt, að það er nú séður möguleiki til fjáröflunar fyrir sandgræðsluna með öðrum hætti en að leggja skatt á búpeninginn, en 1958 virtist enginn annar möguleiki vera öruggur til tekjuöflunar heldur en það.

Starfsemi sandgræðslunnar hefur aukizt mikið, og er þá ekkí sízt að geta þess, að nú upp á síðkastið hafa verið teknar flugvélar, fyrst ein og síðan tvær, til þess að dreifa áburði á beitilönd, bithaga í sveitum og afréttarlönd, og er enginn vafi á því, að sú starfsemi á eftir að aukast, að dreifa áburði með flugvélum, og ef flugvélarnar eru notaðar rétt, mun það verða til þess, að bithagar og afréttarlönd verða grædd upp miklu fyrr og með léttara móti heldur en ef flugvélarnar væru ekki teknar með í starfið.

Það hefur vitanlega margt verið skrifað um starfsemi sandgræðslunnar á undanförnum árum. Það er eðlilegt. Þetta er orðinn stór þáttur í starfseminni. þjóðin hefur horft upp á það á umliðnum öldum, að landið hefur verið að blása upp, gróðurlendið hafi minnkað. En enda þótt eyðingaröflin vinni mikið óþurftarverk enn í dag, eru menn þó sammála um það, að gróðuröflin séu farin að vinna á og geri nú nokkru meira en eyðingaröflin. Með því er hægt að fullyrða, að gróðurinn heldur ekki áfram að minnka, eins og hann hafði gert á undanförnum öldum og áratugum, heldur eru nú gróðuröflin komin í sókn, og þá sókn verður vitanlega að herða. Því er það, að þótt fjárráð sandgræðslunnar hafi verið aukin um 376% síðan 1958 og verði á næsta ári rúmlega 7 millj. kr., þá er ekki þar með sagt, að það sé ekki æskilegra, að sandgræðslan hafi enn meiri fjárráð. Og það er skoðun mín, að með aukinni fræðslustarfsemi um þessi mál verði haldið áfram að auka fjárframlög til þessara mála, og reynsla síðustu 4—5 ára ætti að skapa bjartsýni í þessu skyni, vegna þess að fjármagnsaukningin hefur aldrei verið neitt svipuð áður eins og einmitt nú síðustu árin.

Á 50 ára afmæli sandgræðslunnar 1957 var gefið út afmælisrit, og þar voru skrifaðar fróðlegar greinar, sem æskilegt er, að sem flestir kynni sér. Þar er grein eftir Gunnlaug heitinn Kristmundsson um upphaf að skipulagsbundnum störfum í þágu sandgræðslunnar, fróðlegt að lesa um byrjunarerfiðleikana og hversu eyðingaröflin geisuðu þá fyrirstöðulaust víða um landið. Í þessu riti er einnig grein eftir Runólf heitinn Sveinsson, enn fremur eftir Pál Sveinsson núverandi sandgræðslustjóra, Arnór Sigurjónsson, Björn Pálsson um notkun flugvéla á þessu sviði, og fleira er í ritinu, og vitanlega hefur margt fleira verið um þetta skrifað.

Það er enginn vafi á því, að það hefur verið gæfa þessara mála, að við stjórn sandgræðslunnar hafa starfað dugandi menn, svo sem Gunnlaugur heitinn Kristmundsson, Runólfur heitinn Sveinsson og núverandi sandgræðslustjóri, Páll Sveinsson, sem er mjög áhugasamur og duglegur í þessum störfum. An þeirra atorku hefði lítt miðað áfram. En það verður að segja eins og er, að í byrjun reyndi mest á, meðan eyðingaröflin geisuðu óbundin og meðan fjárráðin voru lítil, eins og ég nefndi hér áðan. Það þurfti hugrekki til þess að missa ekki kjarkinn í þeirri baráttu, sem þá var við að stríða, og þá vantaði einnig þá kunnáttu og tækni, sem menn hafa nú yfir að ráða í baráttunni við uppblásturinn og eyðinguna.

En frv., sem hér hefur verið flutt, er samið af n., sem skipuð var á árinu 1964, 10. júlí, og í þessari n. áttu sæti skógræktarstjóri, Hákon Bjarnason, sem var formaður n., Benedikt Gröndal alþm., þá settur búnaðarmálastjóri Ólafur E. Stefánsson og Ragnar Jónsson skrifstofustjóri, enn fremur Jónas Jónsson sérfræðingur við búnaðardeild atvinnudeildar háskólans.

Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið samið af þessum mönnum, og hafa þeir skilað sameiginlegu áliti. Ég tel það víst, enda tekið fram í grg. með frv., að n. hefur kynnt sér frv. það, sem flutt var 1958 og samið var af n., sem þáverandi landbrh., Hermann Jónasson, skipaði, og þeir hafa einnig kynnt sér frv., sem samið var að tilhlutan núv. landbrh. og samið var af tveimur mönnum fyrst, Birni Sigurbjörnssyni sérfræðingi og Hákoni Bjarnasyni. Það voru drög að frv. um landgræðslu og gróðurvernd. Og enn fremur kynntu þeir sér frv., sem Pálmi Einarsson, Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, Páll Sveinsson og Ingvi Þorsteinsson sérfræðingur við Atvinnudeild háskólans sömdu á s.l. ári. Það má því segja, að það hafi verið unnið talsvert að samningu þessara mála, og nú, þegar þetta frv. liggur fyrir og sú n., sem að því vann, hefur orðið sammála og sú nefnd hefur kynnt sér. þau frv., sem fyrir hendi voru, er nokkur trygging fyrir því, að þetta frv., sem nú liggur fyrir, nái tilgangi sínum.

Það eru ýmis nýmæli í þessu frv., og skal ég nefna þau helztu. Það er, að tekin verði upp skipulögð gróðurvernd til þess að koma í veg fyrir skemmdir á gróðurlendi sakir ofnotkunar samhliða heftingu uppblásturs og sandgræðslu. Og það er áreiðanlega tímabært að taka upp skipulagsbundið starf í því skyni að hefta sandfok og uppblástur, koma í veg fyrir, að það eigi sér stað. Það getur verið eins þýðingarmikill þáttur og hinn, að græða upp það, sem hefur eyðzt og blásið, og það er þess vegna, sem þetta frv. er tvíþætt. Það er annars vegar uppgræðslan á því landi, sem hefur eyðzt, og hins vegar gróðurverndin, þ.e. að koma í veg fyrir, að landið skemmist og eyðist.

Annað nýmæli í þessu frv. er það, að gróðurverndin og sandgræðslan myndi eina stofnun, sem nefnist Landgræðsla ríkisins. Forstjóri hennar verði landgræðslustjóri, en fulltrúi hans annist annað hvort starfssviðið eftir nánara samkomulagi. Þessi störf eru það umfangsmikil, uppgræðslan og gróðurverndin, að það veitir áreiðanlega ekki af því, að það séu tveir sérfróðir menn, sem koma við sögu og skipti með sér verkum, eftir því sem henta þykir og nauðsyn ber til.

Þriðja nýmælið er það, að skipaðar verði gróðurverndarnefndir í þeim héruðum, sem landgræðslustjóri telur þeirra þörf, og það er enginn vafi á því, að með því að fá slíkar gróðurverndarnefndir heima í héruðunum og taka þannig upp samvinnu á milli bænda, héraðsbúa og landgræðslustjórnarinnar er hægt að virkja öfl til samstarfs og áreiðanlega mikils og góðs árangurs.

Fjórða nýmælið er það, að fleiri leiðir verði en áður til samstarfs við hið opinbera um að græða upp lönd, sbr. frv.

Og fimmta er, að styrkur til græðslu er ekki bundinn ákveðnu marki fyrir fram, heldur getur orðið samningsatriði milli landgræðslunnar og landeigenda, hvernig að skuli farið, og það má vel vera, að landeigandi vilji miklu til kosta af eigin fé til þess að fá samstarf og aðstoð landgræðslunnar til þess að vinna sem fyrst að gróðurvernd og uppgræðslu landsins. Þessi möguleiki virðist vera nauðsynlegur til þess að koma að þeim áhuga og þeirri orku, sem kynni að vera fyrir hendi hjá einstaklingum, hreppsfélögum eða sýslufélögum.

Sjötta: Gert er ráð fyrir, að uppgrædd lönd í eigu ríkisins verði nytjuð af bændum, strax og kostur er, enn fremur að fyrri eigendur og notendur uppgræddra landa geti fengið þau aftur í hendur. Bæjar- og sveitarfélög má skylda til að taka við þeim aftur. Þótt svona sé nú til orða tekið, má gera ráð fyrir því, að þarna verði þó frekast um samkomulags- og samningsatriði að ræða á milli landgræðslunnar annars vegar og hlutaðeigandi einstaklinga eða félaga hins vegar.

Sjöunda: Landgræðslustjóra er heimilt að fela búnaðardeild atvinnudeildar háskólans að rannsaka beitarþol og krefjast ítölu í lönd, sem eru í hættu. Þetta ákvæði er vitanlega bráðnauðsynlegt, því að gróðurverndin getur ekki náð tilgangi sínum, nema það sé heimilt að krefjast ítölu, ef landinu er ógnað með ofbeit, þannig að gróðurinn eyðist og uppblástur geti hafizt. En vitanlega verður þetta atriði framkvæmt hagfræðilega og sérfræðilega, þannig að það verður ekki heimtuð ítala í land, nema það liggi fyrir, að brýn nauðsyn sé á því til þess að bjarga landinu og forða því frá hættu.

Þá er í áttunda lagi ákvæði um að stofna félög til landgræðslu, sem geta haft ákaflega mikla þýðingu og aukið áhuga almennings á landgræðslunni, líkt og t.d. skógræktarfélögin víðs vegar um landið hafa orðið til þess að auka áhuga manna á skógrækt.

Níunda: Gert er ráð fyrir, að leitað verði eftir nýjum plöntutegundum til landgræðslu og setja megi upp gróðrarstöð til þess að fjölga þeim, sem nothæfar reynast. Þetta ákvæði er vitanlega alveg sjálfsagt og nauðsynlegt. Það er alveg sjálfsagt að leita eftir nýjum plöntutegundum, fá gróðurinn fjölbreyttari en hann er nú, leita eftir harðgerðum og fljótvöxnum plöntum, og þetta þarf vitanlega allt að gera á vísindalegan hátt.

Tíunda: Þá er ákvæði um, að innan 5 ára skuli gert yfirlit um landskemmdir og áætlun gerð um framkvæmd landgræðslu, þannig að unnt verði að vinna skipulega að henni. Þessari áætlun skal lokið innan 5 ára, og þá vitanlega þarf að gera ráðstafanir til þess, að það verði farið að vinna að þessari áætlunargerð sem allra fyrst, t.d. á næsta ári. Og þetta er vitanlega bráðnauðsynlegt, að vinna á vísindalegan hátt að því að rannsaka, hvað skemmdirnar eru orðnar miklar í okkar landi víðs vegár, gera áætlun um, hvað það mundi kosta að vinna þetta upp, gera áætlanir um það, á hvern hátt þetta megi bezt vinnast, og gera það allt á vísindalegan og skipulagsbundinn hátt. Og í sambandi við þessa áætlunargerð er vitanlega mjög mikið -verkefni að vinna og þess vegna ljóst, að með auknu fjármagni til landgræðslunnar og með þessu verkefni til viðbótar er virkilega verkefni fyrir tvo sérfróða menn til þess að stjórna þessum málum.

Eins og ég sagði áðan, er ekki neitt ákvæði um það í þessu frv. að afla fjár til landgræðslu, heldur gert ráð fyrir því, að það verði á hverjum tíma eftir því, sem fé er til þess veitt á fjárl., og eins og áður var á minnzt, er það ljóst, að sandgræðslunni hefur vaxið fiskur um hrygg. Fjárráð hennar hafa verið aukin. Fjárráð hennar verða vitanlega aukin áfram, það er ekki ástæða til að ætla annað eftir þá reynslu, sem síðustu ár gefa, og miðað við það, að skilningur alls almennings hefur stóraukizt á þeirri miklu þörf og nauðsyn að vernda landið gegn skemmdum, að vinna aftur upp það, sem hefur tapazt. Það er áreiðanlega merkilegt og gott verkefni næstu ár, og ég held, að þeir séu orðnir fáir, sem efast um nauðsynina á þessu. Í frv., sem lagt var fram 1958, segir í grg., að það sé vitanlega bændum mest í hag, að sandgræðslan verði aukin og fái meiri fjárráð. Ég veit ekki, hvort rétt er að fullyrða, að það sé bændum mest í hag. Ég held, að það væri réttara að fullyrða, að það er þjóðfélagsleg nauðsyn að koma í veg fyrir eyðingu landsins, og það er þess vegna, sem ég álft það alveg ranga stefnu, sem kom fram 1958, að skattleggja búpeninginn til þess að afla landgræðslunni fjár. Og það var reyndar einn skattur enn í þessu frv., sem ég gleymdi að nefna áðan, það var 16% yfirfærslugjald á fóðurbæti. Ég held, að það sé ástæða til þess að fagna því, að viðhorfin hafa breytzt, skilningur manna hefur aukizt á því, að það er þjóðfélagsleg nauðsyn að vinna gegn skemmdaröflunum og uppblæstrinum og það hafa verið möguleikar til fjáröflunar til sandgræðslunnar á undanförnum árum og nú aðrir en þeir að leggja skatt á fóðurbæti og leggja skatt á búpeninginn.

Ég held, að það sé ekki þörf á því að fjölyrða öllu meira um þetta frv. við þessa 1. umr. Frv. liggur fyrir, hv. alþm. hafa lesið það, það skýrir sig sjálft, en ég vil, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.