16.12.1964
Neðri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

104. mál, landgræðsla

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um það frv., sem hér liggur fyrir. Hæstv. landbrh. hefur nú rakið nokkuð sögu sandgræðslumálanna í stórum dráttum. Hann gat þess, að fyrstu lög um sandgræðslu hefðu verið sett árið 1907. Fyrsta sandgræðslusvæðið, sem tekið var, var hjá Reykjum á Skeiðum, og mér er vel kunnugur sá staður og hef þar oft komið og séð mikinn árangur, sem varð af þessu starfi þá, sem þó í fyrstu var vissulega ekki gert með sams konar þekkingu og síðar varð: En þarna á svörtum og berum sandinum hefur nú vaxið alls kyns gróður, meira að segja hefur komið þar upp kjarr sums staðar, og talsvert af þessum sandi er nú orðið tún, svo að landið hefur gerbreytzt, eins og raunar annars staðar, þar sem þessi starfsemi hefur farið fram.

Hæstv. landbrh. ræddi talsvert um frv. það til nýrra sandgræðslulaga, sem lagt var fram hér á hinu háa Alþingi árið 1958. Því frv. var vísað til landbn. þessarar hv. d. Ég átti þá sæti í þessari n., og landbn. varð þá sammála um það, að ekki væri rétt að láta frv. ganga fram, eins og frá því var gengið. Enda þótt í því væru þá mjög mörg merk nýmæli og á ýmsan hátt til þess vandað, þá þótti n. eigi að síður ýmsir þættir í málinu þannig vaxnir, m, a. fjáröflunarleiðirnar, að hún tók sig til og samdi nýtt frv. Ég sé nú, að sú hv. n., sem hefur samið þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur tekið frv. það, sem landbn. samdi 1959, til athugunar og tekið upp í þetta frv. vissa þætti úr því, m.a. kaflann um félagsstofnanir til landgræðslu, og verð ég að lýsa ánægju minni yfir því.

Eins og segir í 1. gr. frv., er tilgangurinn sá að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og þá einnig sá að græða upp eydd og vangróin lönd, svo sem verið hefur tilgangur sandgræðslunnar frá byrjun. Þetta er hins vegar nýr þáttur, að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs, og hann er vissulega mjög þýðingarmikill. Þessi markmið eru bæði mjög þýðingarmikil, sem þarna eru sett í þessu frv. En eins og ég sagði, þó að það sé mjög mikilvægt að græða upp örfoka lönd og sanda, held ég þó, að hitt sé engu síður mikið nauðsynjamál, að koma í veg fyrir, að landið eyðist að gróðri og jarðvegurinn fari að fjúka eða t.d. skolast burt vegna leysingavatns eða landbrots, eins og sums staðar á sér stað. En það er víða, sem gera þarf sérstakar ráðstafanir í sambandi við eyðingu lands af þeim ástæðum og engu síður súms staðar heldur en af hættu af foki.

Þá er þessi mikla hætta fyrir hendi, að beitiland kunni að verða fyrir ofnotkun, og ég hef séð lönd þannig farin, að þau hafa verið eyðilögð af ofbeit. Það er náttúrlega feikilega mikilvægt að gæta nógu vel að slíku og koma í veg fyrir, að landskemmdir af þeim ástæðum eigi sér stað. Þessi nýi þáttur, sem tekinn er hér upp, gróðurverndin. er auðvitað einn þátturinn í því, að haft sé nákvæmt eftirlit með beitinni, að hún eyðileggi ekki landið. En fram að þessu hefur því atriði, held ég, ekki verið nægur gaumur gefinn. Mér finnst það ekki hafa verið gert fram að þessu, og ég fagna því, að með þessu frv. er nú komið inn á þetta svið. Við megum aldrei ofbeita landið, og þar sem við notum tilbúinn áburð á beitiland, finnst mér, að þurfi að haga áburðargjöfinni á landið í samræmi við efnafræðilegar þarfir landsins. Ég hygg, að það sé mjög nauðsynlegt að hafa uppi rannsóknir á því, hvernig áburðargjöf slíkt land á að fá. Og rannsóknir á þessu hvoru tveggja, bæði á efnafræðilegu ástandi jarðvegsins og hagnýtingu landsins með beit, eru nauðsynlegar og að fylgjast með beitarþolinu. Þetta þarf allt að fara saman, að mínum dómi.

Í þessu frv. sýnist mér við fljótan yfirlestur, — ég hef lesið frv., en náttúrlega játa ég það, að ég hef ekki lesið það svo vandlega, að ýmislegt getur verið, sem maður vildi hafa öðruvísi, — en við fljótlegan yfirlestur sýnist mér, að þarna séu í þessu frv. margs konar hyggileg ákvæði og ekki sízt þetta, þar sem gert er ráð fyrir samstarfi hinna opinberu embættismanna, landgræðslustjórans og þeirra fulltrúa, sem hann hefur, og héraðs- og sveitarstjórna og þeirra félaga, sem líka er gert ráð fyrir að verði stofnuð innan vissra svæða til að vinna að landgræðslumálinu. Það er gert ráð fyrir samvinnu þessara aðila í frv., og það tel ég mjög mikilvægt. Ég geri ráð fyrir því, að ef góð samvinna tekst með þessum aðilum á þeim svæðum, þar sem þörf er vissra aðgerða, sérstaklega t.d. um það að koma í veg fyrir ofnotkun landsins, þá geti upp af því sprottið mjög hagnýtar ráðstafanir. Mér lízt þess vegna vel á þessa stefnu, og ég tel, að þær leiðir séu þarna markaðar með frv., sem geti reynzt mjög gagnlegar, ef fjármagni er til þeirra veitt, eftir því sem nauðsyn krefur, og ef örugg forusta verður af hálfu þeirra, sem með þessi mál kunna að fara.

Auðvitað tel ég ljóð á ráði frv., að ekki skuli þar vera gert ráð fyrir útvegun fjár til þeirra framkvæmda, sem hér er fjallað um. Á meðan ekki er ætlað fast og allriflegt fjármagn til þessara mála, er auðvitað allt í lausu lofti um þetta og óvissa frá ári til árs hvað snertir framkvæmdir. Fé, sem nú er ætlað á fjárlagafrv. t.d. til sandgræðslu, þó að það hafi hækkað, það skal viðurkennt, og það verulega að krónutölu, þá er það vissulega hvergi fullnægjandi til þeirra miklu verkefna, sem fyrir hendi eru af þessu tagi í landinu. Á fjárlagafrv. eru t.d. aðeins 700 þús. kr. ætlaðar til tilrauna með áburðardreifingu úr flugvél. Þetta hefur vissulega hækkað að krónutölu núna með hverju ári, ég skal játa það, og það er þakkarvert, að það skuli vera hækkað, því að það er mikil nauðsyn á því að gera þessar tilraunir. Ég álít, að þessi fjárveiting til þessara hluta, áburðardreifingar úr lofti, þyrfti að vera miklu meiri, svo að það sæi einhverja staði á þessu sviði, það sem verið er að reyna. og það er vissulega kunnugt þeim, sem hafa séð eða reynt það að dreifa áburði úr lofti, t.d. yfir afréttarlönd, hvílíkt feikilegt gagn slíkt getur gert til þess að bæta sauðfjárhagana og græða upp afréttarlöndin.

Ég vil vona, að frv. verði samt til þess, þótt þetta vanti nú í það að mínum dómi, fjárveitingar eða fjárútvegun, að örva til stórra átaka í landgræðslumálum og það knýi þingið og stjórnina til þess að auka á næstu árum í stórum stíl fjárveitingar og framkvæmdir á svíði landgræðslu og gróðurverndar. Það mun ekki standa á Framsfl. að styðja það mál, og ég fyrir mitt leyti vil heita stuðningi mínum við þetta mál hér á hinu háa Alþingi. Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni.