11.02.1965
Neðri deild: 41. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

104. mál, landgræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er örstutt. — Það eru nú fleiri en 2. þm. Norðurl. v., sem heyra illa. Ég var farinn að halda það um daginn, þegar þessi hv. þm. var að tala, hv. 3. þm. Norðurl. e., að ég væri farinn að tapa heyrn, svo að ég spurði sessunauta mína sitt hvorum megin við mig, hvort þeir heyrðu. Þeir heyrðu þá ekki heldur, og þá trúði ég því, að ég hefði heyrn í meðallagi, það væri af því, að hv. þm. talaði lágt. Nú er það ekki af því, að hann vanti róm, en þetta er svo misjafnt og ekki að sakast um það. En hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði lágt,áðan, og ég er ekki alveg viss um, að ég hafi heyrt rétt, en hafi ég heyrt rétt, að hv. þm. haldi því fram, að ég hafi talið vafasamt, að þetta frv., sem við erum að ræða um, næði tilgangi sínum, nema það hefði einhvern tekjustofn, þá er það ekki rétt. Það, sem ég sagði, var það, að enda þótt ekki væri lögfestur sérstakur tekjustofn í þessu frv., þá gætu hv. þm., ef þeir vildu, hugsað sér að koma því fram seinna, ef þeir teldu fjárveitingar til þessara mála ekki fullnægjandi. Ég sagði hins vegar, að vegna þess að fjárveitingar hafa verið stórum auknar undanfarin ár, þá er miklu síður ástæða til þess nú en áður, t.d. 1958 eða 1957, þegar menn sáu ekki aðra leið til fjáröflunar en að leggja á sérstakt gjald.

Ég bjóst við því, að hv. 3, þm. Norðurl. e. væri eftir atvikum ánægður með þær hækkanir, sem hafa orðið á fjárveitingum til sandgræðslunnar. Það er 376% hækkun frá því 1958. Ég segi ekki, að það hefði ekki mátt vera meira og jafnvel æskilegt, að það hefði verið meira. En ég held, að flestir, sem um þessi mál fjalla, sandgræðslustjóri og fleiri, telji, að þetta sé mjög gott og meiri hækkun en nokkru sinni áður til þessara mála, vegna þess að það hefur verið betri skilningur á þeim í seinni tíð en oft áður, og vegna þess að allir hv. þm. virðast nú vera í aðalatriðum sammála um þetta mál, þá er ekki ástæða til að orðlengja meir um það. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég tel það ekki aðalatriðið, að sandgræðslan eða landgræðslan hafi sérstakan tekjustofn, heldur er það vitanlega höfuðnauðsyn, að hverju sinni sé veitt fé til þessara mála og það í auknum mæli.