05.04.1965
Efri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

104. mál, landgræðsla

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mun hafa gleymt að geta þess, að hv. 1. þm. Vesturl. var ekki viðstaddur afgreiðslu þessa máls úr n. Hins vegar hafði ég ástæðu til að ætla, að hann væri frv. samþykkur í höfuðatriðum, sem einnig hefur komið fram hér í ræðu hans.

Það er getið um það í grg. þessa frv., að það hafi verið nokkuð til umr., hvort taka ætti inn í frv. ákvæði um tekjuöflun fyrir landgræðsluna, og í þeim frv., sem fram hafa verið lögð hér áður, voru ákvæði um það að ákveða í frv. sérstaka tekjustofna, bæði í því frv., sem fyrst var lagt hér fram, og svo sérstaklega í því frv., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði hér fram í haust. Þó fóru þær till. ekki í sömu átt.

Að athuguðu máli var frá því horfið að ætla landgræðslunni sérstaka tekjustofna, heldur yrðu fjárframlög hverju sinni að ákveðast á fjárlögum til þessara hluta. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað hv. þm. um það, hvað mikið verði lagt til þessara mála á næstunni á fjárl., því að það kemur vitanlega fram hverju sinni og er á valdi bæði ríkisstj. og fjvn. En ég vil benda á, að það er ekki ástæða til mikillar svartsýni í því efni og að álita, að skorin verði mjög við nögl fjárframlög, vegna þess að fjárframlög hafa alltaf farið hækkandi síðustu ár. Og þar sem mikil samstaða er um þetta mál og mikill skilningur á því, að það sé nauðsynjamál að græða upp landið og varna því, að það blási upp, eins og við hv. 1. þm. Vesturl. báðir höfum talað hér um, tel ég ekki ástæðu til að vantreysta mjög stjórnarvöldum í því efni. En ég leiði að sjálfsögðu alveg hest minn frá því að fara að nefna nokkrar tölur í því sambandi, því að það liggur ekkert fyrir um það. Og ég hygg, að t.d. hv. Nd., sem samþykkti þetta frv. nýlega alveg óbreytt frá því, sem það var lagt fram, hafi haft þann skilning á málinu, að það væri ekki nauðsynlegt að setja inn í það ákvæði um ákveðna tekjustofna. Ég get bætt því við, að þær till., sem fram hafa komið um ákveðna tekjustofna í þessu skyni, eru þannig vaxnar, a.m.k. sumar, að ég fyrir mitt leyti hefði ekki getað stutt þær. Og eftir atvikum álít ég, að það sé eðlilegt á þessu stigi málsins að afgreiða frv. án þess að fara að taka inn í það ákvæði um ákveðna tekjustofna.