15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

102. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki reiknað með, að þetta mál yrði tekið fyrir í dag, en úr því að tími vinnst til þess, er vitanlega gott að nota tækifærið til þess að koma málinu í nefnd.

Þetta frv. hefur verið samið af stjórn Búnaðarfélags Íslands eða búnaðarmálastjóra annars vegar og landnámsstjóra hins vegar, og má segja, að frv. sé til orðið m.a. vegna umr., sem fóru fram milli landbrn. og Búnaðarfélagsins á s.l. sumri. Eins og segir í aths. við frv., er um það getið, að Búnaðarfélagið hafi tekið málið upp eftir að hafa fengið bréf og óskir um að minna að því frá landbrn., dags. 10. júlí 1964, um endurskoðun á jarðræktarlögunum.

Á s.l. þingi var gerð veigamikil breyting á jarðræktarl. og landnámsl., sem leiddi til þess, að styrkur var allmikið hækkaður til þeirra jarða, sem höfðu túnstærð undir 25 ha. Og það var gert ráð fyrir því, að sá styrkur næði til 3800 jarða á landinu eða mikils meiri hluta. Það var um það rætt, þegar það mál var til umr., hluti jarðræktarl. og landnámsl., að eftir væri að gera heildarátak, heildarendurskoðun jarðræktarlaganna, eins og legið hefur fyrir alllengi.

Það var 1961, sem búnaðarþing kaus 3 manna mþn. til þess að endurskoða jarðræktarlögin. Fyrr var það nú ekki. Þessi nefnd starfaði næstum því heilt ár og skilaði af sér til búnaðarþings 1962, og búnaðarþing samþykkti þetta frv. n. með litlum breytingum. Var frv. síðan sent Alþingi. Það var tekið fyrir haustið 1962, en þá skipaði landbrh. þriggja manna nefnd til þess að endurskoða jarðræktarl. og hafa þó hliðsjón af því frv., sem mþn. búnaðarþings hafði samið. Í þeirri n. áttu sæti Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, Birgir Finnsson alþm. og Kristján Karlsson fulltrúi hjá Stéttarsambandi bænda.

Þessi nefnd skilaði af sér seint á vetri 1963 eða undir þinglok. Það gafst ekki þá tími til þess að flytja frv. inn í Alþingi, og sumarið 1963 var sú ákvörðun tekin, að það skyldi lögð megináherzla á það að auka styrkveitingar til þeirra jarða, sem skemmst voru á veg komnar. Það var vitað mál, að hér þurfti að gera svo stórt átak, að það var ekki við því að búast, að það væri tekið í einum áfanga. Það mun hafa verið 1963, sem 10 ha markið var hækkað upp í 15 ha, þannig að hækkaður styrkur náði til þeirra, sem höfðu tún upp að 15 ha, og svo á s.l. vetri upp að 25 ha, og var þá, eins og áður segir, meginhlutinn af þeim jörðum í landinu, sem búið er á, sem fengu hækkaðan styrk, eða a.m.k. 2/3. Og það verður ekki um það deilt, að það vitanlega lá mest á því að ýta undir þá, sem voru skemmst á veg komnir. Með því að þetta var lögfest á síðasta þingi, 25 ha markið, með verulegri hækkun á jarðræktarstyrknum, hefur það komið í ljós, að það hefur ýtt allmikið við ræktuninni. Það liggur ekki enn fyrir, hversu mikið ræktunin hefur aukizt á þessu ári. Ég hef talað við nokkra ráðunauta, sem hafa verið að mælingum, en það er ljóst, að ræktunin hefur aukizt mjög mikið á þessu ári, og það sýnir sig, þegar skýrslurnar verða tilbúnar, og það má vitanlega fyrst og fremst þakka það lögunum frá síðasta þingi. Það var ekki vanþörf á að ýta við þeim mönnum, sem enn höfðu ekki túnstærð nema kannske upp að 10 ha og upp að 15 ha. Það er sagt, að meðaltúnstærð á landinu sé um 14 ha, en svo eru heilir landshlutar, sem hafa meðaltúnstærð innan 10 ha. Og það segir sig sjálft, að það er ekki hægt að framfleyta búi á slíkum jörðum, sem framfleyti fjölskyldu og skapi þau lífskjör, sem nú er krafizt, því að nú dugir ekkert annað en stefna að því, að heyfengur verði tekinn eingöngu af ræktuðu landi, og ekki aðeins það, að heyjað verði á ræktuðu landi, heldur einnig, að ræktað land verði notað til beitar. Þá mun það sýna sig, að afurðirnar aukast og aðstaða bænda til búrekstrar verður allt önnur en meðan verið er að hokra á jörðum, sem hafa litla ræktun.

Eins og ég sagði áðan, var það vitanlega ekkert lokamark á síðasta þingi að lögfesta styrkjahækkun til jarða, sem höfðu tún undir 25 ha, og sú lagfæring, sem gerð var á jarðræktarl., var aðeins áfangi og meiningin var alltaf sú að taka jarðræktarl. til heildarendurskoðunar, eins og nú er komið á daginn.

Það hefur verið sagt, að bændur hafi skaðazt á því, að vísitalan var slitin úr sambandi 1960 og styrkurinn ekki hækkaður samkv. vísitölu eftir það. Það má náttúrlega segja þá kannske líka, að launþegarnir hafi verið skaðaðir með því, að vísitalan var slitin úr sambandi. En um leið og ákveðið var að taka vísitöluna í samband og greiða laun samkv. vísitölu, þá lá það í hlutarins eðli, að það sama varð að gilda um jarðræktarl., því að í jarðræktarl. gömlu segir, að jarðræktarstyrkur skuli greiðast samkv. kaupgjaldsvísitölu, þannig að eftir að kaupgjaldsvísitalan var slitin úr sambandi, var ekki heimilt að greiða styrkinn samkv. vísitölu. Nú er það dálítið undarlegt, að það skuli hafa verið í jarðræktarl. þetta ákvæði að greiða eftir kaupgjaldsvísitölu jarðræktarstyrk. Hitt er vitanlega miklu eðlilegra, eins og nú er upp tekið samkv. þessu frv., að miða jarðræktarstyrkinn við kostnaðinn af ræktuninni, og því er ákveðið samkv. þessu frv., að eftirleiðis verði jarðræktarstyrkurinn greiddur í samræmi við tilkostnaðinn í ræktuninni. Eftir því sem ræktunarkostnaðurinn hækkar, eftir því hækkar sú vísitala, sem styrkurinn verður greiddur eftir. Og í frv. er gert ráð fyrir, að hagstofustjóri í samráði við Búnaðarfélag Íslands og Landnám ríkisins finni út það, sem nefnt verður samkv. þessum lögum jarðræktarvísitala.

Þetta frv. er samið og flutt í fullu samkomulagi við Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Landnám ríkisins. Landnám ríkisins reiknaði út á s.l. vori, hvað styrkurinn þyrfti að hækka mikið, til þess að bændur fengju kostnaðinn upp borinn, og eftir því sem næst varð komizt, var gert ráð fyrir, að styrkurinn þyrfti að hækka um 28.5%. Seinna í sumar var þetta dæmi endurreiknað, og varð þá að samkomulagi að miða hækkunina við 30% að meðaltali. Sumir liðir hækka meira og aðrir þá kannske nokkru minna. En með þessum útreikningum, sem gerðir hafa verið af fulltrúum bændasamtakanna, á að vera fundið það, sem leitað hefur verið að, hækkun á jarðræktarstyrknum í samræmi við aukinn tilkostnað, og með vísitöluákvæðinu er fyrir það girt, að styrkurinn geti lækkað hlutfallslega, þótt jarðræktarkostnaðurinn aukist eða byggingarkostnaðurinn á þeim framkvæmdum, sem eru styrkhæfar samkv. lögunum,

Það eru tvö atriði í þessu frv., sem má segja að hafi ekki verið fullt samkomulag um. Fyrra atriðið er það, að Búnaðarfélagið og bændasamtökin óskuðu eftir því, að inn í frv. væri tekin styrkveiting til vatnsleiðslna í sveitunum. Og það er ekkert um það að efast, að það er mjög æskilegt að taka það ákvæði í jarðræktarl. að styrkja vatnsveitur í sveitum, því að það er vitanlega nauðsynlegt að hafa helzt sjálfrennandi vatn eða vatnsleiðslu í einhverju formi, bæði til neyzlu fyrir heimilismenn og fyrir búpening og svo einnig til þess að hafa gott kælivatn til þess að geta sent góða og vel kælda mjólk á markaðinn. Þetta ákvæði hefur ekki verið í jarðræktarl. áður, og tal um þetta ákvæði kom ekki til fyrr en í haust. Þetta kom t.d. ekki til umr., þegar við vorum að ræða saman í haust, fulltrúar bænda í 6 manna nefnd, og var ekkert um það rætt þá. Það er vitanlega hv. Alþingi, sem getur bætt þessu ákvæði inn í. En eins og málið stóð núna. þegar frv. var flutt, treysti ég mér ekki til að hafa þetta ákvæði með, enda þótt það sé nauðsynlegt, og vegna þess að það hafði ekki komizt til umr. áður. Og það er tekið fram hér, að ráðuneytið hafi ekki séð sér fært að svo stöddu að taka þetta ákvæði inn í frv. Það er vitanlega hægt að hafa það til athugunar nú á þessu þingi. Verði ekki samkomulag um það á þessu þingi, er þetta náttúrlega mál, sem altaf er hægt að taka upp. En þetta er nýmæli, að taka það í jarðræktarlög, og það hefur verið fundið til foráttu á fyrsta stigi málsins, að það væri ekki undirbúið, það væri enga grein hægt að gera sér fyrir því, hvað þetta mundi kosta mikið ríkissjóð á hverju ári. Sannleikurinn er sá, að Búnaðarfélag Íslands þarf að reyna að gera einhverja könnun á því og áætlun um það, hvað það mundi kosta ríkissjóð mikið árlega að taka þetta ákvæði inn í lögin, og ég verð að segja það, að þeir, sem amast við því nú á fyrsta stigi, hafa vitanlega nokkuð til síns máls, á meðan það er ekki hægt að gizka einu sinni á, hvað þetta mundi kosta.

Annað atriði er það, sem ekki varð fullt samkomulag um, og það er svolitil togstreita á milli Landnáms ríkisins, — kannske of mikið að segja togstreita, en það er skoðanamunur, — það er skoðanamunur á milli Landnáms ríkisins og Búnaðarfélags Íslands um það atriði 12. gr., hvort Landnámið skuli halda áfram að greiða út jarðræktarstyrk, eins og það hefur gert, eða hvort það á að vera í höndum Búnaðarfélagsins að meira leyti en áður. Ég fyrir mitt leyti sé nú ekki, að þetta skipti neinu máli, og bændurna vitanlega skiptir það engu máli. Þeir fá sama styrkinn, hvort sem það er landnámsstjóri, sem skrifar hann út, eða Búnaðarfélagið. En af því að þetta fyrirkomulag hefur verið, að Landnámið hefur greitt út hluta af styrknum, sem til fellur samkv. jarðræktarl., þá hefur rn. ekki séð ástæðu til að breyta því í frv. Það er vitanlega meiri hl. Alþingis, sem getur ráðið því, og skoðanir manna á þessu atriði fara áreiðanlega ekkert eftir pólitískum flokkum, því að þetta er fyrir utan það, en þetta fyrirkomulag hefur verið svona undanfarin ár, og það þarf náttúrlega að koma með einhverjar nýjar ástæður fram fyrir því, að það sé nauðsynlegt að breyta þessu, að mér finnst, áður en það er tekið til greina.

Eins og ég tók fram áðan, er meginhækkunin á jarðarbótaframlagi samkv. þessu frv. miðuð við 30% hækkun, sem er fundið samkv. útreikningum þeirra aðila, sem ég áðan nefndi. Ef þeim hefði fundizt eðlilegt, að það væri 35% eða eitthvað hærra, þá hefði það orðið það. En dæmið, sem reiknað var til enda, sýndi, að þetta væri það sanngjarna.

Í frv. er gert ráð fyrir, að laun héraðsráðunauta verði hér eftir greidd að 65% úr ríkissjóði og 35% úr héraði, en áður var þetta að hálfu frá ríkissjóði og að hálfu frá búnaðarsamböndunum. Hins vegar hefur það ekki verið tekið inn í frv., að ríkissjóður greiddi hluta af ferðakostnaði ráðunauta, enda þótt Búnaðarfélagið hafi borið þær óskir fram, og ég benti á það við 1. umr. um búfjárræktarl. hér í hv. d., að það væri liður í fjárl., að mig minnir á þessu ári 800 þús. kr. til Búnaðarfélagsins, og það hefur verið bent á það, að það væri eðlilegt, þegar Alþingi treystir sér til að koma til móts við búnaðarsamböndin að þessu leyti, að hækka þann lið og að Búnaðarfélag Íslands skipti upp á milli búnaðarsambandanna úr þeim lið til þess að standa straum af ferðakostnaði héraðsráðunautanna að einhverju leyti. Og ég er alveg samþykkur því, að það væri eðlilegt að koma þannig eitthvað til móts við búnaðarsamböndin. Hvort það verður á þessu þingi, skal ég ekkert fullyrða um, en ég tel eðlilegt að stefna að því.

Með því að lögfesta það frv., sem hér er til umr., hafa jarðræktarl. í heild verið endurskoðuð og samræmd, og aukastyrkur til jarða, sem hafa tún innan við 25 ha stærð, er, eins og áður var sagt, miklu hærri samkv. þeim l., sem sett voru á síðasta þingi. Með l., sem sett voru í fyrra, á síðasta þingi, var gert ráð fyrir, að styrkurinn hækkaði um ca. 20 millj. árlega. Styrkur samkv. þessu frv, miðað við framkvæmdir 1963 hækkar um á milli 10 og 20 millj. En nú er það vitað, að ræktunin á þessu ári verður miklu meiri en áður, og er það vissulega gleðilegur vottur, að það sýnir sig, að sú blóðgjöf, sem aðilar hafa fengið með þessum l., er farin að verka, og með því að fá þetta lögfest til viðbótar er ég sannfærður um, að jarðræktarlöggjöfin í heild nær tilgangi sínum með því að ýta ræktuninni betur af stað en verið hefur. Árleg ræktun á áratugnum 1950—1960 mun hafa verið ca. 3500 ha. Ræktunin á s.l. ári, — ég man nú ekki nákvæmlega, hvað það var, en mig minnir, að það hafi verið 4500 ha., og ágizkun nú er, að ræktunin á árinu 1964 verði yfir 5000 ha. Og þá mætti ætla, þegar þetta frv. er einnig komið til að verka, að ræktunin gæti farið kannske allt upp í 6 þús. ha á ári, og það væri vitanlega mjög ánægjulegt. Því fyrr gætu allir bændur tekið heyskapinn af ræktuðu landi og því fyrr gætu bændur farið að nota ræktað land til beitar.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. á þessu stigi öllu meira. Ég efast ekkert um það, að hv. þm. hafa lesið það, gert sér grein fyrir innihaldi þess, og ég efast ekkert um, að það á fylgi allrar hv. þd. Það verður vitanlega ekki meira gert í þessu máli fyrir jól heldur en koma því í nefnd, og að sjálfsögðu getur hv. landbn. komið á framfæri atriðum, sem hún kann að vilja sýna eða ræða um, og ég efast ekki um, að t.d. vatnsveiturnar verða eitt af þeim atriðum, sem hv. landbn. vill að verði tekið til nánari athugunar.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokkinni þessari umr. og hv. landbn.