19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

102. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ákaflega gott að venja sig á það að leiða sannleikann í ljós, eins og hv. síðasti ræðumaður vill við hafa, og ég tel þá rétt að trúa því, að hann hafi haldið, að hann væri að túlka sannleikann hér áðan, en því miður hef ég dálítið við hans ræðu að athuga.

Það er bls. 14 í grg. með frv. til jarðræktarlaga, sem hann hefur vitnað í, þar sem segir, að jarðræktarkostnaður hafi hækkað frá því 1959 til 1964 um 76% samkv. virðingu Landnáms ríkisins vegna lántöku úr ræktunarsjóði. En þarna er bara tekið eitt dæmi út úr, úr því gerir hv. þm. meðaltal og segir, að bændur vanti þá 40%. Og nú spyr ég hv. þm., það þarf ekki langan tíma til að svara því: Hefur hann, þegar hann var að halda sína ræðu, gleymt því, að jarðræktarstyrkur hefur hækkað allmikið síðan 1959, áður en þetta frv. er flutt? Það á vitanlega að taka það með í reikninginn. Og mig furðar á því, að hér skuli nú koma fram rödd á Alþingi svona ákveðin, sem reynir að mistúlka þetta frv. og halda því fram, að það sé ekki komið til móts við bændastéttina með flutningi þess nema að hálfu leyti. Ég hafði alls ekki búizt við því. Og hann vitnar í Halldór Pálsson og Ólaf Stefánsson og vitnar þannig í þá, að þeir, sem hlusta á þetta mál og þekkja litið til, gætu haldið, að þeir ágætu menn væru sömu skoðunar, vegna þess að Búnaðarfélagið hafði fengið bréf, sem rétt var, frá ráðuneytinu, þar sem talað var um að miða hækkunina við 30%. En hvað hafði gerzt, áður en þetta bréf var skrifað? Það gæti hv. þm. kynnt sér, úr því að hann vill hafa það, sem sannara reynist, og það er nauðsynlegt, að hann kynni sér það, sem hefur gerzt, áður en hann fer að vitna í Halldór Pálsson og Ólaf Stefánsson aftur með þeim hætti, sem hann gerði hér áðan. Ég get upplýst það, að í rn. liggur bréf frá Búnaðarfélagi Íslands, eftir að útreikningar höfðu verið gerðir á því, hvað styrkurinn ætti að hækka til þess að ná þessu marki, þá var talað um 28.5%, og það er enginn vafi á því, að hv. þm. getur fengið að sjá hjá Búnaðarfélaginu þessa bókun, hann getur einnig fengið að sjá í rn. þetta bréf, og það mundi væntanlega leiða hann í allan sannleika. Það hafa farið fram nákvæmir útreikningar um þetta atriði, og forsendurnar fyrir því, að frv. er nú byggt á 30%, en ekki 28.5%, eru þær, að það þótti eðlilegra, það var hreinni tala og það var öruggara, að þetta mark næðist, að miða við 30, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp forsendurnar fyrir því, að þetta var svo, það er saman tekið hér.

Þá er landbrh. lét undirbúa það frv., sem hér liggur fyrir, var sérstaklega haft fyrir augum að kanna kostnað við jarðræktarframkvæmdir og hvað sé eðlilegt að styrkja hverja framkvæmd fyrir sig, miðað við núverandi kostnaðarverð þeirra, og jafnframt að finna grundvöll að vísitölu, sem tryggi, að jarðræktarstyrkir séu jafnan í eðlilegu hlutfalli við framkvæmdakostnað.

Í lögunum 1950 eru verðlagsuppbætur ákveðnar, og skyldu þær miðaðar við vísitölu framfærslukostnaðar, en samkv. frv, því, sem hér liggur fyrir, skal fundin vísitala fyrir hinar styrkhæfu framkvæmdir, sem byggð sé á raunhæfum verðbreytingum á tilkostnaði framkvæmdanna á hverjum tíma. Ákvörðun framlagsfjárhæða í frv. á hina ýmsu framkvæmdaliði, sem 10. gr. tekur til, er gerð með hliðsjón af raunhæfum kostnaði hverrar framkvæmdar eftir verðlagi ársins 1964. Frv. tryggir með vísitöluákvæðunum, að hlutfall milli framlags og kostnaðarverðs fylgir breytingum þeim, er verða á framkvæmdakostnaði. Sú hækkun, sem orðið hefur á tímabilinu 1959 til 1964, er mjög mismunandi á hinum ýmsu framkvæmdaliðum, er 10. gr. frv. tekur til. Því verða hækkanir einstakra styrkliða misháar, miðað við framlagsgreiðslur samkv. núgildandi lögum.

Í öðru lagi er við samningu frv. einnig höfð hliðsjón af því, hverjar framkvæmdir ber að efla með tilliti til hagfræðilegrar þýðingar þeirra fyrir bændur almennt. Ræktunarliðirnir hækka, miðað við núgildandi lög, hlutfallslega meira en ýmsir aðrir framkvæmdaliðir, sömuleiðis súgþurrkun. Hækkun þessara liða nemur frá 59.8% til 137%, enda þótt heildarhækkun alls styrkjakerfisins nemi 30%, eins og grg. frv. ber með sér.

Einn einstakur framkvæmdaliður kippt úr samhengi er röng túlkun á þeim réttmætu úrbótum, sem fram koma í frv.

Að samningu þessa frv. stóðu Búnaðarfélag Íslands og landnámsstjóri, og fulltrúum bænda í sex manna nefnd var kynnt frv. og þeim gerð grein fyrir, hvernig framlagsgreiðslukerfið mundi verka á einstaka liði þeirra framkvæmda, sem það nær til, og þeir gerðu ekki aths. við það heldur. Verður því að ætla, að mætt hafi verið óskum landbúnaðarins með þeim breytingum, sem hér liggja fyrir, á viðhlítandi hátt, þar sem þessir aðilar standa að samningu frv. og féllust á, að heildarhækkunin væri 30%. Þá er hækkun á einstaka liði miklu hærri og á aðra liði þá lægri, og það er þetta, sem ég ætlast til að hv. þm. kynni sér nú rækilega, eins og hann hefur tækifæri til, bæði í hv. landbn. og með því að ræða við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, og hætta því að taka einstaka liði úr samhengi, heldur skoða allt málið í heild og skapa sér þannig rétta mynd. Það er það, sem þarf að gera. Og þetta veit ég nú, að hv. þm. gerir, þegar hann fer að átta sig ú málinu. Annað er vitanlega ekki sæmandi. Hann hlýtur að gera það, og þá kemur sannleikurinn í ljós.

Hv. þm. var að tala um vatnsveiturnar og styrk til þeirra. Ég sagði hér við 1. umr., þegar málið var tekið fyrir fyrir fáum dögum, að framsóknarmenn hafi flutt frv. til breytinga á jarðræktarl., án þess að þar væri nokkuð minnzt á vatnsveiturnar. Og ég er hér með tvö frv., sem hv. framsóknarmenn hafa flutt, annað á s.l. ári og hitt á þessu þingi, og það er ekki minnzt á vatnsveitur. Framsóknarmenn hafa ekki gert tilraun til þess að koma vatnsveitustyrk inn í jarðræktarl., og það er ekki fyrr en í haust, að Búnaðarfélagið minnist á það að koma því inn í þetta frv. Það hafði ekki verið rætt um það áður, og það liggur ekkert fyrir um það, hvaða kostnað það gæti haft í för með sér árlega fyrir ríkissjóð, og engin áætlun, og það er það minnsta, að áður en þetta er tekið inn, sé það athugað nánar, því að í því formi er þetta alveg nýtt mál, þótt á siðasta þingi hafi verið flutt frv. til breytinga á vatnsveitul. Það eru sérstök lög, sem félmrn. hefur með höndum. Það er allt annars eðlis, og það vitanlega verður ekki gert hvort tveggja samtímis. Ég er alls ekki að mótmæla því, að þetta eigi heima í jarðræktarl. Ég býst við því, að það eigi þar heima. En það hefur ekki verið minnzt á að koma því inn í jarðræktarl. fyrr en núna, og það má vel vera, að þetta sé það stór líður, að það sé eðlilegt, að það þurfi að athugast nánar.

Hv. þm. minntist enn á, að það væri óeðlilegur dráttur, sem hefði orðið á endurskoðun jarðræktarl. Og hann var að afsaka búnaðarþingið, að það skyldi ekki hafa gert neitt 1960. Ég hef ekki að fyrra bragði deilt á búnaðarþing fyrir það, en mér finnst, að þeir hv. þm., sem eiga sæti á búnaðarþingi og deila á ríkisstj. fyrir drátt á þessu máli, hefðu átt að rumska strax 1960, þegar viðreisnarlöggjöfin var sett, og hverjir sem spádómarnir voru um vísitöluhækkun, lá það þó fyrir, að með viðreisnarlöggjöfinni var vísitalan tekin úr sambandi, kaupgreiðsluvísitalan, og það var kaupgreiðsluvísitalan, sem jarðræktarl. miðuðu við, þótt undarlegt sé. En sannleikurinn er sá, að 1961 samþykkir búnaðarþing að skipa mþn. til þess að endurskoða lögin, og það er 1962, á sumri 1962, sem n. skilar frv. til rn. Ráðuneytið hafði ekkert haft með þessa endurskoðun að gera. Það var búnaðarþingið, sem skipaði n., og það var alveg vonlaust að taka frv. þannig ómelt, og þess vegna varð að stjórnskipa nefnd til þess að athuga það. Sú n. skilaði frv. rétt undir þinglok 1963. En hvað gerist svo 1964? Það er stigið stórt spor þá til leiðréttingar á þessum málum og í rauninni hægt að segja meira en leiðréttingar, og ég er alveg undrandi, að hv. þm. skuli ekki viðurkenna það, því að hann talar hér eins og það hafi ekkert verið gert í jarðræktarlöggjöfinni fyrr en með þessu frv., þegar hann talar t.d. um það, að af því að einn styrkhæfur liður hafi hækkað um 76%, hljóti bændur að vanta um 40%. Þannig má ekki tala alveg óhugsað, því að það hlýtur að hafa verið alveg óhugsað, þessi ummæli. Það eru margs konar styrkir, sem hafa hækkað áður, og þegar hækkunin er miðuð við 1959 og 1964, kemur það til greina, hvað er komið áður en þetta frv. er flutt. Og þessi grg., sem ég las hér upp og er forsendur fyrir frv., er það greinileg, að hv. 1. þm. Vesturl. ætti ekki að vera lengur í vafa um, að hér er rétt með farið. Og ég get nú sagt eins og hv. síðasti ræðumaður: Ég ætlaði nú ekki að tala langt, enda er engin þörf á því á þessu stigi málsins. En af því að ég er alveg eins og hann, ég vil hafa það, sem sannara reynist, þá get ég ekki látið því ómótmælt, sem hann fullyrti hér áðan og er að mínu áliti algerlega rangt.

Hv. þm. talar um, að framsóknarmenn hafi flutt ýmis mál til hagsbóta fyrir landbúnaðinn. Ég hef aldrei sagt það, að framsóknarmenn hafi aldrei gert það. Ég hef aldrei fullyrt það. Það væri líka skárra. Ég er viss um, að þeir hafa flutt frv., sem miða að því, mér dettur ekki í hug að neita því. En það verður að viðurkenna það, að þeir hafa, þessir hv. þm. og áreiðanlega ekki allir af viljaleysi, orðið að sætta sig við það að stíga minni spor til framfara og styrktar landbúnaðinum en hér er gert. Og við skulum vera sammála um það, hv. 1. þm. Vesturl. og ég, að þrátt fyrir dýrtíð, sem hefur orðið, því að dýrtíðin hefur vaxið, verðlag hefur hækkað, er aðstaða landbúnaðarins í dag betri, hún fer batnandi, hún er betri en hún hefur verið.

Ég hef staðið við það að afnema Framsóknarskattana af dráttarvélum. Það er búið að lækka tollana af landbúnaðarvélum úr 33%, sem þeir voru, í 10%. Yfirfærslugjaldið hefur verið afnumið. Og það er enginn vafi á því, að bændur eiga hægara með að kaupa dráttarvél nú en 1958. Það þarf færri dilka núna fyrir dráttarvél en 1958. Það þarf færri mjólkurlítra fyrir dráttarvél nú en 1958. Og hvers vegna skyldi þá ekki vera hægara fyrir bóndann að kaupa þessa hluti nú en þá?

Ég get lýst ánægju minni yfir þessum umr., og ég vænti nú þess, að hv. 1. þm. Vesturl. kynni sér málið betur en hann er búinn að, hann hefur gott tækifæri til þess, — og leitist við að fara með rétt mál við 2. umr. þessa máls.