19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

102. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það þarf ekki að vera neitt efamál um það, hvort það þarf fleiri mjólkurlítra eða fleiri dilka fyrir dráttarvélinni núna en 1953, það er svo auðvelt reikningsdæmi, en ég hef það ekki fyrir framan mig, og við getum reiknað það báðir, þegar við höfum gögn í höndunum, og um það þurfum við ekki að deila. Og ég veit hér um bil, hver útkoman er, ekki alveg upp á lítra eða upp krónu, en ég veit, hver niðurstaðan er.

Hv. þm. segir ekki hafa áttað sig á mínu máli áðan. Ég hef aldrei haldið því fram, að bændurnir hafi fengið sjálfdæmi til þess að semja þetta frv. Ég hef ekki haldið því fram, og ég geri ekki ráð fyrir því, að bændurnir hafi ætlazt til þess, að þeir fengju það. Í upphafi máls míns, þegar þetta mál var tekið fyrir til umr., minntist ég á bréf, sem ég skrifaði Búnaðarfélagi Íslands og Landnámi ríkisins, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að undangengnum viðræðum milli Búnaðarfélags Íslands og landbrn. um nauðsyn á hækkun framlaga samkv. jarðræktarl. fól landbrn. Búnaðarfélagi Íslands og Landnámi ríkisins með bréfi, dags. 10. júlí 1964, að endurskoða jarðræktarl., svo og jarðræktarlagafrv. hinnar stjórnskipuðu nefndar, sérstaklega með það það fyrir augum að kanna kostnað við jarðræktarframkvæmdir og hvað sé eðlilegt að styrkja þær framkvæmdir miðað við núgildandi verðlag og finna grundvöll að vísitölu, sem tryggi, að jarðræktarstyrkur sé í eðlilegu hlutfalli við kostnað við framkvæmdir á hverjum tíma. Um könnun á þessum atriðum verði haft samráð við rn.“

Eftir að þessi könnun hafði farið fram, var fyrst talið eðlilegt samkv. bréfi frá Búnaðarfélaginu, að miðað væri við 28.5%, og í framhaldsviðræðum var ákveðið, að það skyldu vera 30%. Það hafa engin sjálfdæmi verið í þessu, ekki hjá ráðuneyti og ekki hjá bændunum, en það, að ákveðið er, að meðalhækkunin skuli vera 30%, eins og lagt er til í þessu frv., er að undangenginni þessari könnun, sem ég var að lýsa áðan og las upp forsendurnar fyrir.