12.11.1964
Efri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

70. mál, búfjárrækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er í rauninni engin ástæða fyrir mig að tala nokkuð meira í þessu máli, vegna þess að hv. síðasti ræðumaður fór lofsamlegum orðum um frv. og gagnrýndi það lítið, sem tæplega var við að búast, þar sem þetta er frv. þeirrar n., sem Búnaðarfélagið skipaði í samráði við ráðuneytið, með örlitlum undantekningum, sem ég las hér áðan og spilla frv. lítið eða ekki neitt. Og þótt búnaðarþing hafi séð ástæðu til að fara fram á hærri styrki og ríkisstj. hafi ekki séð ástæðu til að fallast á það, þá hygg ég, að hv. Alþingi að athuguðu máli telji vel gert að þessu sinni með því að flytja frv. eins og n. gekk frá því.

Hv. þm. fagnaði því, að Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda hefði orðið það mikið ágengt að fá ríkisstj. til að flytja þetta mál.

Það er auðvitað algert aukaatriði, og það er ekki það, sem bændur spyrja um, hverjum sé það að þakka, að þetta frv. er flutt og búfjárræktarlögin endurskoðuð. Það er algert aukaatriði, enda var ég ekkert að draga það fram hér áðan. En ég vil af þessu tilefni geta þess, að n., sem samdi frv., kom með það til mín í þinglokin s.l. vor og ræddi þetta mál við mig þá. Og ég tók n. þannig þá, þegar hún kom til mín, að ég hét að beita mér fyrir því, að þetta frv. yrði flutt. Ég sé svo ekki, að það geri neitt til, þó að þessu frv. sé blandað inn í samningana í haust, ef það þykir henta, skiptir mig ekki nokkru máli, en ég get aðeins getið þess, að ég átti samtal við n., sem samdi frv., á s.l. vori, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að nefndarmennirnir muna það, hvað okkur fór þá á milli.

Það er rétt, að jarðræktarstyrkur var ekki greiddur með vísitölu eftir 1960, einfaldlega vegna þess, að það var ekki heimilt. Eins og jarðræktarlögin eru nú, þá er svo ákveðið, að jarðræktarstyrkur skuli greiddur miðað við kaupgjaldsvísitölu, og þegar kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi, þá var ekki heimild til að greiða jarðræktarstyrkinn samkv. vísitölu eftir það, og vitanlega hafa bændur beðið tjón af þessu. En um það er ekki að sakast. Það má hins vegar ef til vill segja, að það tjón hafi að nokkru leyti verið bætt upp með því, að vísitalan var ekki í sambandi og kaupgjaldið þá ekki eins hátt á þessu tímabili, þannig að ef út í rökræður væri farið og reynt væri að draga fram plúsa og mínusa, þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að það eru ekki eingöngu mínusar, sem við mundum skrifa á blaðið, heldur einnig einhverjir plúsar, sem kannske mundu vega minna en mínusarnir. En nú er ekki lengur því til að dreifa, og það er ekki alveg rétt heldur, að það hafi engin uppbót komið, því að nú síðustu árin var jarðræktarstyrkurinn greiddur með 15% uppbót, og var það nokkur sárabót samkv. útreikningum hagstofunnar. Ég hef ekki spurt að því, hvernig þau 15% voru fundin. Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið einhverjar rökréttar forsendur fyrir því, þrátt fyrir lagaákvæðið, þannig að þar fengu bændur þó nokkra uppbót á jarðræktarstyrk.

En aðalatriðið er það, að með þessu frv. og með frv. til nýrra jarðræktarlaga, sem lagt verður fram innan skamms, er gert ráð fyrir að taka upp nýja jarðræktarvísitölu, sem er miðuð við framkvæmdakostnað og hagstofan reiknar út í samráði við Búnaðarfélag Íslands og landnámsstjóra. Og ég held, að hv. síðasti ræðumaður hljóti að verða sammála mér um það, að þegar þetta búfjárræktarfrv. er orðið að lögum og þegar nýju jarðræktarlögin verða sett á þessu þingi til viðbótar þeim leiðréttingum, sem gerðar voru í fyrra, þá hafi verið stigið betur í ístaðið í þessum málum bændastéttinni til handa en áður. En ekki er ástæða til að metast um það heldur hér í hv. Alþingi. Reynslan mun skera úr því. En ég hygg, að bændur kunni að meta það, sem nú hefur verið gert og ráðgert er að gera í þessu efni. Og ég skal alveg láta það hlutlaust, þótt það sé sett að einhverju leyti í samband við samningana um afurðaverðið í haust, að svo langt er gengið í þessum málum sem raun ber vitni, og látum það alveg liggja milli hluta. En aðalatriðið er það, að hér eru góð mál á ferðinni og miklar leiðréttingar, sem landbúnaðurinn þurfti að fá, því að það er enginn vafi á því, að það er þjóðinni hollt og þjóðnýtt starf að auka ræktunina og bæta búfjárræktina, eins og þetta frv. miðar að, og jarðræktarlögin stuðla að aukinni ræktun. Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta af þessu tilefni.